Annað sem áður var
Þar átti SR-Vélaverkstæði stóran þátt í þróuninni.
Stóru vélaverkstæðin sem þá voru við líði á suðurlandinu; Vélsmiðjan Héðin og Landsmiðjan áttu einnig
stóran þátt í smíði og uppsetningu tækjabúnaðar við síldarverksmiðjur.
En þrátt fyrir það var mikið af þróuðum
tækjabúnaði flutt til landsins frá Noregi sem voru fremstir í flokki á því sviði, svo og Svíþjóð og Danmörk.
Seinni hluta síðustu aldar og fram á þennan dag hefur þróunin verið mjög ör, og þrátt fyrir það að síldin hafi
horfið frá Siglufirði, hélt SR-Vélaverkstæði áfram að smíða og þróa tæki og búnað til þessa
iðnaðar með smíð fyrir verksmiðjur víða um landið.
Þar réði miklu hin áratuga þekking og reynsla starfsmanna SR-Vélaverkstæðis á meðferð og smíði úr ryðfríu
stáli. Síldarverksmiðjur Ríkisins voru einmitt brautryðjendur í öllum heiminum með notkun og smíði úr ryðfríu stáli
í tækjabúnað tengdum bræðsluiðnaðinum.
Svo framalega voru þeir, að þekktur verkfræðiháskóli í Danmörku var nær búinn að hafna prófverkefni sem einn nemandi
þeirra lagði fram (sem lært hafði hjá SR-Vélaverkstæði) um smíði úr ryðfríu stáli á búnaði vegna síldarvinnslu á
Siglufirði. Efnisvalið var talið óráðsía vegna kostnaðar og hvergi notað til slíkra hluta, í dag þekkist
þó varla annað smíðastál til slíkra nota þar sem málmar eru í snertingu við hráefnið, og raunar á fleiri
sviðum.
En eins og segir í formála “Annað sem áður var” þá er SR-Vélaverkstæði á Siglufirði
nú farið að flytja Siglfirska hönnun og búnað til Noregs, en þar eru menn að vinna við smíði á löndunarsíu og
hráefnissíu vegna síldariðnaðar fyrir fyrirtækið Egersund Sildoljefabrikk AS í Noregi.
Starfsmenn á SR-Verkstæði eru um 15-16 en ljósmyndin hér var tekin um hádegisbilið í gær þar sem þessir 13 voru staddir og stilltu
sér upp fyrir ljósmyndarann.
Að baki þeirra er hluti útflutningsframleiðslunnar
Nú um þessar mundir hefur SR-Vélaverkstæði fundið fyrir áhrifum fjármálakreppunnar, verkefnastaða mætti vera betri, en þeir hafa fullan hug á að þrauka og enginn uppgjafatónn er að heyra á þeim bæ.
Athugasemdir