Forsetaheimsókn til Siglufjarðar

Forsetaheimsókn til Siglufjarðar Forseti Íslands. Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti Siglufjörð í gærmorgun. Hann gerði víðreist og hóf heimsókn sína í

Fréttir

Forsetaheimsókn til Siglufjarðar

Ólafur Ragnar og Hermann Einarsson
Ólafur Ragnar og Hermann Einarsson
Forseti Íslands. Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti Siglufjörð í gærmorgun. Hann gerði víðreist og hóf heimsókn sína í Þjóðlagasetrinu klukkan 10:00 þar sem hann drakk morgunkaffi með bæjarstjóra, og bæjarráði Fjallabyggðar ofl.

Þaðan fór hann í heimsókn í Grunnskólann þar sem börnin tóku á móti honum og fylgdarliði með bros og blaktandi fánum.

Smá uppákoma var svo í leikfimisal skólans, en þar voru mættir til móttöku nemendur bæði neðri og efri skólans.

Frá Grunnskólanum fór forseti og fylgdarlið í heimsókn í Leikskála þar sem yngsta kynslóðin dvelur á daginn undir góðri leiðsögn og gæslu.
Þar var fánum veifað og sungið fyrir gestina.

Frá Leikskálum var haldið í Sparisjóð Siglufjarðar og stofnunin kynnt undir leiðsögn sparisjóðsstjórans Ólafs Jónssonar, en eins og margir vita þá er Sparisjóðurinn einn af stærri vinnustöðum Siglufjarðar, en þar fer fram meira en venjuleg bankaþjónusta, þjónusta sem einfaldast er að kalla “fjarvinnslu”

Í hádeginu var forsetanum og fylgdarliði boðið til hádegisverðar með eldri borgurum í Skálahlíð, dvalarheimilinu á Siglufirði þar sem Helga Hermannsdóttir forstöðukona tók á móti gestunum.

Forsetinn gaf sér góðan tíma til að ræða við öldungana sem þar dvelja áður en sest var að snæðingi.

Eftir hádegið var fyrirtækið Rauðka og tengd fyrirtæki heimsótt í húsakynnum fyrirtækisins við Gránugötu.
Þar tók Róbert Guðfinnsson á móti gestum og sagði frá starfseminni og því sem væri í áætlun hjá fyrirtækjunum sem þarna eru til húsa (Ísafoldarhúsinu). 

Frá Rauðku fóru gestirnir í heimsókn til Ramma hf. Þar sem Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri tók á móti gestum.
Þar var starfsemi fyrirtækisins kynnt, einnig starfsemi og framleiðsla fyrirtækisins Primex sem er með náin tengsl við Ramma hf.
Þá var ný rækjuverksmiðja Ramma heimsótt, sem verið er að byggja, en þar er allt á fullu við að gera verksmiðjuna klára til vinnslu og er vonast til að það geti orðið seinnihluta næsta mánaðar.

Eftir að hafa dvalið góða stund í húsakynnum Ramma, var haldið til Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði þar sem yfirlæknirinn Andrés Magnússon, og  Anna Gilsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar tóku á móti gestum og sýndu það helsta innan stofnunarinnar.

Frá Heilbrigðisstofnun var svo haldið til Síldarminjasafnsins, Bátahússins þar sem safnvörðurinn Örlygur Kristfinnsson tók á móti gestum.

Eftir smá yfirferð um bátahúsið var gestum boðið upp á smá veitingar og að því loknu hélt forsetinn ásamt fylgdarliði á brott frá Siglufirði.

Það vakti athygli í þessari heimsókn, hvað forsetinn gerði mikið af því að ræða við fólk á öllum áðurnefndum heimsóknarstöðum, hann gaf sér góðan tíma til að hlusta á fólk og ræða við það um starfið og annað því tengt.

Það þarf svo vart að taka það fram að Íslenski fáninn var “allstaðar” dreginn að hún við opinbera staði og víðar á Siglufirði, að tilefni af forsetaheimsókninni.

Veðrið gat vart verið betra, nánast logn, hiti um frostmark og sólargeislarnir skinu á bæinn annað slagið.
Myndir frá heimsókniin eru HÉR




Athugasemdir

29.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst