Frá Bjarkey Gunnarsdóttur
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti í þessu
forvali sem félagsmönnum VG er heimilt að taka þátt í. Mér þykir því við hæfi
að kynna mig örlítið og það helsta sem ég hef tekið mér fyrir hendur í pólitík
og öðrum störfum.
Ég hef
verið virk í störfum Vinstri grænna nánast frá stofnun, sit í stjórn
svæðisfélags VG í Fjallabyggð, var formaður kjördæmisráðs VG í
Norðausturkjördæmi en er nú gjaldkeri og sit einnig í stjórn VG. Fyrir
sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2006 sat ég í miðlægri kjörstjórn VG sem sá
m.a. um flesta sameiginlegu þætti kosninganna. Slík kjörstjórn er einnig
starfandi nú fyrir komandi alþingiskosningar og á ég sæti í henni.
Ég sat
í tvígang á Alþingi kjörtímabilið 2004-2007 sem varamaður Steingríms J.
Sigfússonar. Ég lagði m.a. fram þingsályktunartillögu um stuðning við
einstæðra foreldra í námi, beitti mér fyrir flutningi verkefna Þjóðskrár út
á landsbyggðina, ræddi rekstrarvanda
Heilbrigðisstofnunar Austurlands, er meðflutningsmaður nokkurra þingmála
t.d. um styrki til
foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum og um íslenska táknmálið.
Auk þess hef ég látið mig varða geðheilbrigðismál barna og ungmenna og stefnu í
málefnum barna almennt, lengingu flugbrautarinnar á Akureyri og aðstöðu farþega
á Egilsstaðaflugvelli.
Ég tel
mikilvægt í komandi kosningum að horfið verði frá þeirri einkavæðingu sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur staðið
fyrir og aukið hefur á ójöfnuð í samfélaginu. Ég vil sjá öflugt
heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn óháð efnahag og atvinnulífið þarf að vera
fjölbreytt og taka mið af hagsmunum komandi kynslóða. Ljóst er að á þessum tíma
þarf að styðja við allar menntunarstofnanir og færa sem næst notendum. Leggja
þarf sérstaka áherslu á stuðning við atvinnulausa t.d. í gegnum
símenntunarmiðstöðvar.
Ég sit
í bæjarstjórn Fjallabyggðar og hef tekið virkan þátt í sveitarstjórnarmálum í 16
ár. Vegna þeirrar reynslu veit ég að efla þarf sveitarstjórnarstigið í landinu
með réttlátri tekjuskiptingu þannig að sveitarfélögin geti staðið við þær
skuldbindingar sem þeim ber að gera. Til þessara starfa vil ég gefa kost á mér
með góðu fólki í Vinstri hreyfingunni - grænu framboði.
Ég
fæddist í Reykjavík árið 1965, elst þriggja systkina, ólst upp á Siglufirði til
15 ára aldurs en flutti þá til Ólafsfjarðar og hef verið þar meira og minna
síðan. Foreldar mínir eru GunnarÁsgeirsson vélstjóri, Siglfirðingur sem rekur ætt sína að Stuðlum í Reyðarfirði
og í Fljótin og Klara Björnsdóttir verkakona frá Akureyri.
Ég bý í Ólafsfirði, í nýsameinuðu
sveitarfélagi sem heitir nú Fjallabyggð, með maka mínum Helga Jóhannssyni,
þjónustustjóra Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Börnin eru þrjú Tímon Davíð 26 ára, Klara Mist 21 árs og Jódís Jana 10 ára.
Ég var við fjarnám við
Verkmenntaskólann á Akureyri og lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands
vorið 2005 og náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands s.l. vor.
Eins og gengur hef ég tekið mér ýmislegt fyrir
hendur í atvinnu. Byrjaði ung að vinna í fiski, vann við bókhald í 16 ár, rak
fyrirtæki sem framleiddi hljóðsnældur, er í dag kennari og náms- og
starfsráðgjafi við Grunnskóla Ólafsfjarðar og rek í veitingastað í Ólafsfirði
ásamt mágkonu minni.
Bjarkey Gunnarsdóttir
Athugasemdir