Frá Ragnar Thorarensen

Frá Ragnar Thorarensen Kæru Siglfirðingar,Framundan er opið prófkjör Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar 2009. Ég hef

Fréttir

Frá Ragnar Thorarensen

Ragnar Thorarensen
Ragnar Thorarensen
Kæru Siglfirðingar,
Framundan er opið prófkjör Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar 2009.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti í þessu prófkjöri. Ég vil því kynna mig aðeins og mínar áherslur í stjórnmálum því þó að mörg ykkar muni eftir mér þá er líka ný kynslóð vaxin úr grasi sem ekki þekkir til mín.
 
Ég er fæddur á Siglufirði 7. janúar 1965 og bjó þar samfleytt frá 8 ára aldri til 18 ára aldurs. Faðir minn er Ólafur Thorarensen, fyrrum kaupmaður á Siglufirði og móðir mín er Gisela Thorarensen frá Berlín í Þýskalandi. Í dag er ég búsettur í Kópavogi.

Ég er kvæntur Sigríði Axelsdóttur, tannlækni og saman eigum við þrjár dætur, Ólöfu 12 ára, Þórunni 9 ára og Kristínu 5 ára. Ég er landfræðingur að mennt og stunda núna meistaranám í viðskiptum- og stjórnun (MBA) við Háskóla Íslands. Ég hef unnið hin ýmsu störf til sjós og lands en síðustu ár hef ég starfað á fasteignasölumarkaðnum og hef jafnframt lokið prófi til löggildingar í fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu.
Bernskuárin eru lengri í huga manns en árin segja til um.

Líklega er það vegna þess að það eru svo margar góðar stundir sem maður minnist eða eins og sagt var um gamla konu; hún man betur einn góðviðrisdag en tíu óveðursdaga. Það voru forréttindi að fá að alast upp á Siglufirði og Siglufjörður og Siglfirðingar gáfu mér margt í veganesti. Það er einkum þess vegna sem ég vil gefa kost á mér í komandi prófkjöri. Nú vil ég, ef þið viljið, vinna fyrir ykkur á komandi árum.

Mín stjórnmálaskoðun er ekki ýkja flókin. Ég er jafnaðarmaður. Ég var að vísu flokksbundinn Sjálfstæðismaður í yfir 20 ár en svo kom að mínar skoðanir áttu enga samleið með hinni amerísku frjálshyggju sem gegnsýrt hefur þann flokk undanfarin ár og hefur komið hinu íslenska þjóðfélagi í þá miklu skuldasúpu sem við nú sitjum öll í.

Það hefur verið sagt að sá sem ekki er róttækur sem ungur maður, hann skorti hjartað. Og að sá sem ekki aðhyllist kapítalisma þegar hann er fullorðinn, hann skorti heilann. Ég hef gjarnan bætt því við að sá sem ekki er jafnaðarmaður þegar hann er orðinn fullorðinn og kominn með fjölskyldu, hann skorti hvort tveggja.

En hver er þá mín pólitíska sýn? Jú, ég vil búa í þjóðfélagi sem gefur þegnum sínum nægilegt frelsi til leiks og athafna en setur þeim um leið skýrar leikreglur. Ég vil líka að ríkisvaldið sjái um tiltekna þjónustu eins og menntun, heilbrigðisþjónustu og löggæslu og geri það af myndugleik.

Í raun er hið blandaða skandínavíska hagkerfi það sem ég aðhyllist. Ég vil jafna kjör án þess þó að draga úr frumkvæði einstaklingsins til að gera betur í dag en í gær. Almennt aðhyllist ég ekki háa skatta. Hver gerir það? Hins vegar vil ég með engu móti skera niður í mennta-, heilbrigðis- og löggæslumálum í því magni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert undanfarin ár. Það er sjálfsagt að reyna að hagræða þar sem hægt er. En það má aldrei verða á kostnað gæðanna.
Ég vil stuðla að því að hér sé fyrsta flokks heilbrigðis- og menntakerfi sem allir hafi aðgang að.

Hvað varðar framtíðarsýn mína fyrir mitt kjördæmi þá er hún björt. Ég sé ýmislegt sem hægt er að gera til að efla atvinnu- og búsetuskilyrði í kjördæminu. Okkur hættir oft til að leita að einhverjum skyndilausnum þegar í harðbakkann slær í stað þess að setjast niður og hugleiða hvert við viljum stefna.

Hvernig viljum við t.d. að Siglufjörður verði eftir 20 ár? Við verðum að hafa markmið til að vinna að. Ég vil eindregið vinna að því að færa meiri tekjur frá ríkinu til sveitarfélaganna þannig að sveitarfélögin verði betur í stakk sett til að veita þá þjónustu sem íbúar þeirra sækjast eftir og þurfa á að halda.
Með góðri kveðju,
Ragnar Thorarensen



Athugasemdir

29.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst