Innbrot og skemmdarverk
sksiglo.is | Norðlenskar fréttir | 20.01.2009 | 07:50 | | Lestrar 761 | Athugasemdir ( )
Að gefnu tilefni sé ég mig tilneydda til að leita upplýsinga hjá bæjarbúum. Þannig er að árið 2000 fékk ég til umráða sveitabýli afa míns og ömmu hér sunnan við bæinn sem heitir Steinaflatir. Síðan þá hef ég reynt að gera húsið upp, þar sem það er mér kært, og er von mín að ég og fjölskylda mín getum dvalið þar í framtíðinni.
Er það komið eitthvað á leið, en það sem hefur truflað aðgerðirnar er peningaleysi og það sem mér þykir enn verra er að einhverjir aðilar hafa haft gaman af því að eyðileggja húsið að innan og utan. Ég og fjölskylda mín höfum að mestu klárað húsið að innan en höfum þurft að skipta um gler í gluggum, sem annars hefði ekki þurft, sem illgjarnir aðilar hér í bæ hafa gert að leik sínum að brjóta í þrjú til fjögur skipti. Einu sinni hefur verið brotist inn, en í það skipti sem var fyrir nokkrum árum, var ekki skemmt neitt nema útidyrahurðin sem var að vísu komin á tíma. Nú hefur einu sinni enn verið brotist þarna inn, inn um útidyrahurð og var rúða brotin til að komast inn í húsið. Varla þarf að taka fram að húsið er harðlæst og hljóta þeir aðilar að hafa kveikt á því að einhver ætti húsið og hugsanlega þætti vænt um það, annars væri ekki læst hurð og húsgögnum og innbúi stillt upp eins og á öðrum heimilum. Var gengið þarna um og opnaðar hirslur og hlutum dreift um allt. Nú er þolinmæði mín á þrotum, ég er búin að kæra til lögreglu en það er ekki mikið sem hún getur gert til að komast að því hvaða aðili var þarna á ferð. Ég hef að sjálfsögðu kært í hvert skipti sem skemmdir hafa verið gerðar en ekki haft neitt upp úr því. Er ég orðin sár og reið og skilningur minn á svona gerðum er akkúrat ekki neinn. Er tilhugsunin um að einhverjir óþokkar séu að eyðileggja og ganga um hluti ömmu minnar og afa af slíku virðingarleysi vægast sagt ömurleg. Langar mig að biðja ykkur bæjarbúar um hjálp til að komast að því hverjir voru þarna á ferð. Vinsamlegast hafið samband við lögreglu ef þið hafið einhverjar upplýsingar, hversu ómerkilegar sem ykkur virðist þær vera, eða þá beint við mig í síma 482-3703.
Með fyrirfram þakklæti,
Jóna Guðný Jónsdóttir
Laugarvegi 10
Siglufirði.
Athugasemdir