Opnunarhátíð Listasafns Fjallabyggðar

Opnunarhátíð Listasafns Fjallabyggðar Síðastliðið fimmtudagskvöld var haldin opnunarhátíð Listasafns Fjallabyggðar í sýningarsal Ráðhússins á Siglufirði. 

Fréttir

Opnunarhátíð Listasafns Fjallabyggðar

Sigríður Gunnarsdóttir og Þórarinn Hannesson
Sigríður Gunnarsdóttir og Þórarinn Hannesson
Síðastliðið fimmtudagskvöld var haldin opnunarhátíð Listasafns Fjallabyggðar í sýningarsal Ráðhússins á Siglufirði.  Sigríður Gunnarsdóttir listfræðingur,
sem ráðin hefur verið í tímabundið verkefni við að koma listaverkasafni sveitarfélagsins í betra horf, hafði sett upp sýningu á tímamótaverkum úr safninu. 

Má þar t.d. nefna myndir eftir okkar helstu listmálara s.s. Kjarval, Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur, Jón Stefánsson, Erró og Kristján Davíðsson svo einhverjir séu nefndir. 

Eftir ávörp Þóris Þórissonar bæjarstjóra og Þórarins Hannessonar formanns menningarnefndar var Sigríður með listræna leiðsögn um sýninguna og voru hinir 45 gestir sem lögðu leið sína í Ráðhúsið margs vísari eftir þá leiðsögn og sáu margar myndanna í nýju ljósi.  Ánægjulegt var að sjá Ólafsfirðinga og Dalvíkinga meðal sýningargesta. 

Uppistaðan í safni sveitarfélagsins er hin stórfenglega gjöf heiðurshjónanna Arngríms Ingimundarsonar og Bergþóru Jóelsdóttur sem færðu Siglufjarðarkaupstað 124 verk eftir okkar helstu listamenn árið 1980, í minningu foreldra þeirra. 

Þrjár dætur þeirra hjóna voru viðstaddar þessa opnunarhátíð og komu færandi hendi því faðir þeirra sem er á 97unda aldursári sendi þær með þrjár myndir í safnið þar af eina eftir meistara Kjarval sem hann gaf móður þeirra þegar hún var 16 ára. 
Lýstu þær yfir mikilli ánægju með að verið væri að koma safninu í betra horf og skiluðu kærri kveðju frá föður þeirra.

Sýningin og listaverkasafnið hafa fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum enda er hér um að ræða eitt allra merkasta málverkasafn í eigu sveitarfélaga á Íslandi.  Morgunblaðið og Svæðisútvarp Norðurlands hafa m.a. gert sýningunni góð skil.

Undanfarna daga hefur Sigríður verið með leiðsögn um sýninguna og hafa fjölmargir lagt leið sína í Ráðhúsið og barið verkin augum. 

Má áætla að um 200 manns hafi séð sýninguna síðan hún var formlega opnuð; bæjarbúar, gestir Siglufjarðar, listunnendur frá Ólafsfirði og Sauðárkróki auk tveggja hópa eldri nemenda úr Grunnskóla Siglufjarðar.
 
þh.
Ljósmyndari síðunnar www.sksiglo.is heimsótti safnið í gær og tók við það tækifæri myndina hér fyrir ofan af þeim Þórarni Hannessyni formanni menningarnefndar og Sigríði Gunnarsdóttur listfræðingi.
====================================================

Athugasend frá undirrituðum. Varðandi ofannefndan viðburð.
Nokkrar athugasemdir og spurningar hafa borist mér varðandi það að ekki hafi verið minnst á hina formlegu Opnunarhátíð á vefnum sksiglo.is, (fyrr en nú) sem Menningarnefnd og menningarfulltrúi Fjallabyggðar efndu til síðastliðinn fimmtudag klukkan 20:00 í Ráðhúsi Fjallabyggðar. 
Það má segja að óbeinn misskilningur hafi valdið því að enginn frá www.sksiglo.is var þar mættur.

Fyrst má nefna að undirritaður taldi að einhver annar fréttamaður hjá www.sksiglo.is hefði verið boðaður á þessa samkomu, þar sem engin slík boð höfðu borist á netfangið sksiglo@sksiglo.is eða í síma eins og má teljast regla frekar en undantekning varðandi opinbera og félagslega viðburði, það er ef viðkomandi stjórnendur hafa haft áhuga á umfjöllun okkar.

Undirritaður hafði ekki flett “Tunnunni” fyrr en honum var bent á tengda auglýsingu sem þar var um atburðinn, raunar þá aðeins lesið fyrirsögnina, sem hafði svo hreinlega gleymst í önnum dagsins.

Hins vegar hringdi einn bæjarfulltrúinn í mig seinnitímanum í níu um kvöldið þegar langt var liðið athöfnina, (væntanlega) og undirritaður alls ekki tilbúinn til að “klæða sig uppá” og mæta á meðal hátíðargesta til að taka ljósmyndir á þeirri stundu, enda þá þegar búinn að ráðstafa kvöldinu í annað.

Með vinsemd.
Steingrímur Kristinsson



Athugasemdir

29.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst