Kveðja frá Mariehamn á Álandseyjum
Hópur siglfirskra síldarstúlkna og stráka sýnir þessa dagana síldarsöltun og heldur uppi fjöri í Maríuhöfn á Álandseyjum þar sem fram fer samnorræn strandmenningarhàtìð ásamt árlegum Ålands Sjödagar. Söltun þeirra, tónlist og dans er framlag Íslands til hátíðarinnar og er í boði Íslenska vita- og strandmenningarfélagsins.
Fimm sýningar eru settar upp á þremur dögum og hafa þær vakið mikla hrifningu áhorfanda sem klappa vel og mikið fyrir - en illa gengur að fá Skandinavíubùa til þess að dansa við slorugar sìldarstùlkurnar!
Í morgun prýddu myndir af hópnum heilsíðu í dagblaði staðarins - svo það fer ekki á milli mála að siglfirski hópurinn vekur athygli heimamanna sem og annarra hátíðargesta í Maríuhöfn.
Nokkuð þurfti fyrir því að hafa að undirbúa síldarsöltun á þessum miklu síldarslóðum Eystrasalts en iðnnemar à staðnum smíðuðu það sem til þurfti; sìldarkassa, bjóð og saltkassa. Tunnurnar komu frá Íslandi og hálft tonn af síld kom siglandi 1300 mílna leið með 120 ára gamalli færeyskri skùtu; Jòhönnu frà Vågi.
Í síldarhópnum sem gerir nú garðinn frægan á siglingahátíðinni eru: Birna Björnsdóttir, Svanhildur Björnsdóttir, Sandra Finnsdóttir, Sturlaugur Kristjánsson, Björn Sveinsson, Haukur Kristjánsson og Anita Elefsen leiðangursstjóri.
Skemmst er þess að minnast að flestir úr þessu vaska liði tóku þátt í sömu árlegu siglingahátíð í Karlskrona í Svíþjóð fyrir tveimur árum.
Myndir af hópnum og söltunarsýningu birtist á heilsíðu í dagblaði staðarins.
Frétt af vef Síldarminjasafnsins
Athugasemdir