100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir Í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis Siglufjarðar finnst mér við hæfi að endurbirta

Fréttir

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Velkomin til Siglufjarðar
Velkomin til Siglufjarðar

Í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis Siglufjarðar finnst mér við hæfi að endurbirta þessa grein, 80 einstakar "Siglfirskar" ljósmyndir sem minna okkur á allt mögulegt sem er svo sérstakt í okkar fagra firði.

Þessi grein er hluti af greina seríu í 10 hlutum með yfir 250 myndum sem birtar eru með leyfi frá ljósmyndasafni Siglufjarðar sem nú er í eigu Síldarminjasafnsins. 

Til að stytta ykkur sporin i að finna afganginn birtist slóðalisti hér undir:

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.   

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Göngutúr um heimahaga. 9 hluti. ÍÞRÓTTIR OG SKÓLI. (50 MYNDIR)

Göngutúr um heimahaga. 10 hluti. Lokakafli og samantekt.

“Fjarlægðin gerir fjöllin blá og minningarnar líka”

Í þessum sjöunda hluta minnumst við liðins tíma á Sigló  með 80 ljósmyndum sem hafa þá sérstöðu í mínum huga og minningum að vera mjög svo “Siglfirskar.”

Það er oft einkennilegt að hitta fólk út um allt land og hingað og þangað um heiminn og að eftir að maður hefur kynnt sig sem Siglfirðing að fá að heyra að foreldrar eða afi og amma hafi haft tengsl við þennan fallega fjörð á síldarárunum á einhvern hátt.

Að Sigló hafi einu sinni verið “nafli alheimsins” tengist náttúrulega þessari sögu síldarinnar en í mínum huga eru það ekki bara minningar sem tengjast þeirri sögu, heldur líka sú staðreynd að margt og mikið er svo ótrúlega sérstætt í sögu Siglufjarðar og sumt er hreinlega erfitt að útskýra fyrir utanbæjarfólki. Eins og t.d. snjómagnið, vegleysa, samgönguerfiðleikar, einangrun, snjóflóðahætta og hafís.

Í leit minni í ljósmyndasafninu hef ég oft dottið niður á myndir sem minna mig á þetta sérstæða við að vera fæddur og uppalin á Siglufirði, að hafa upplifað tveggja vikna einangrun þar sem það var ekki til mjólk í bænum vegna ófærðar, hafís lá þétt að ströndinni og ekki einu sinni Drangur komst í bæinn. 

Ekki fyrir svo löngu síðan vorum við sem munum svona tíma að hlæja að Reykvíkingum sem fengu smá “föl” á sig eina nótt eða svo sem gjörsamlega sló þessa borg út af laginu í fleiri daga á eftir. Ég man ekki til þess að við værum eitthvað að kvarta yfir snjóþyngslum og einangrun, þetta var bara hluti af þeim hversdagsleika sem maður bjó í og sem barn og unglingur gerði maður bara eitthvað spennandi úr þessu í staðinn.

Renndi sér á skíðum ofan á nýföllnum snjóflóðum, notaði ísjaka sem fleka, stökk niður af Mjölhúsinu í risastóra mjúka skafla, hjálpaði ömmu sinni við að moka sig út úr húsinu sínu eða svo fór maður út með skóflu og bjó sér til eigin skíðastökkspall. En skíðastökk er reyndar íþrótt sem var mjög svo einkennandi fyrir Siglufjörð og Ólafsfjörð.

Á fallegum sól og snjóríkum vordögum stóðum við stundum fyrir utan Barnaskólann og sungum í kór:

Meistari Hlöðver, meistari Meistari Hlöðver.....gefðu okkur FRÍ ”........ og við fengum oft frí.

Það er einnig eftirtektarvert að þegar maður gengur um Siglufjörð þá getur maður enn í dag séð það “mikilmennskubrjálæði” og þá ofurtrú á framtíðina sem silfur hafsins gaf okkur í götuskipulagi og byggingum.

Náttúran sem var svo hörð við okkur, gaf okkur líka mikið og enginn vildi trúa því að þetta myndir nokkur tímann hafa þann endir sem kom að lokum og kostaði okkur 30 ár af niðurníðslu með rotnandi og grotnandi bryggjum og brökkum sem eingin átti og vildi eiga lengur. En það var líka ævintýratími fyrir mig og marga aðra en það er nú önnur saga og hún kemur seinna.

 Götulífsmynd úr stórborg ?.....nei bara götuhorn á Sigló sem er höfuðborg síldarinnar

En við skulum byrja þessa löngu ljósmyndasögu með “stórborgarbrag,” þessu magnaða miðbæjarskipulagi með torgi, stórri kirkju sem sem blasir við endann á steinsteyptri AÐALGÖTU og götuskipulagi sem minnir á New York. Þegar ég var barn og fór í heimsóknir í önnur minni bæjarfélög á Íslandi fannst mér að þau væru “ómerkileg” og smábæjarleg miðað við Sigló. Gat spurt svona “hrokafullra” spurninga eins og: “Hvar er miðbærinn ? Aðalgatan ? Bíóið? Var svo vanur við verslunargötur og miðbæjarlíf.  

Munið að þessar myndir eru EIGN Ljósmyndasafns Siglufjarðar og það má alls EKKI bara taka þessar myndir í leyfisleysi og birta hvar sem er.

Hafið samband við Síldarminjasafnið: sild@sild.is eða í síma 467 16 04.

Og eins og áður eru textar við sumar af myndunum lánaðir frá Steingrími og öðrum sem hafa sent inn upplýsingar um myndirnar. Ég hef einnig lagfært allar myndirnar til þess að þær geri sig betur í birtingu á skjá.

Munið eftir Páskaljósmyndasýningu Ljósmyndaklúbbs Fjallabyggðar.

Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar heldur sína árlegu páskasýningu í Bláa húsinu við Rauðkutorg.

Sýningin hefst fimmtudaginn 13.04.2017 kl. 14.00 og lýkur sunnudaginn 16.04.2017 kl. 17.00. Opið er þessa daga frá 14.00-17.00.

Í ár taka 16 félagar þátt í sýningunni og er hún fjölbreytt og skemmtileg að vanda. 

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson
Hótel Hvanneyri - Sparisjóður Siglufjarðar -Byggt árið 1936, af Karli Sturlaugssyni fyrir Sparisjóð Siglufjarðar.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Beðið eftir Morgunblaðinu, sem kom með rútunni frá Reykjavík og afgreiddur var í Aðalbúðinni seint um kvöld. Slíka sjón mátti sjá næstum því á hverju kvöldi. Stundum þegar ófært var yfir Skarðið bitnaði það auðvitað á Siglfirðingum þ.e. þegar loksins var orðið fært aftur þá kom rútan með Moggann fyrir marga daga og stundum fyrir heila viku.

Hér er einnig hægt að sjá "stórborgarhugmynd" sem aldrei varð neitt úr, en samkvæmt teikningum átti "Aðalbúðin" að verða þriggja hæða hús og þessi upphækkun með þessum steypumótum sást þarna í áratugi. Það er einnig skemmtilegt fyrir mig að sjá þessa mynd vegna þess að þarna sést minn fyrsti bíll sem var gulur WV Valiat sem ég keypti af Ásgeir í Versló. 

 Ungur drengur með grjót sem spýtist undan vörubíl og inn um gluggann á Aðalbúðinni og endaði ofan á afgreiðsluborðinu án þess að borga fyrir sig.

Alskyns verslanir smáar og stórar voru til út um allan bæ og oft var hörð samkeppni um kúnnana.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Jóla-auglýsing: Kjötbúð Siglufjarðar, árleg uppákoma sem bæði fullorðnir og börn biðu eftir ár hvert. Líklegast er það Pétur Baldvinsson sem er í hlutverki jólasveinsins. 

Kjötbúð Siglufjarðar, árleg uppákoma sem bæði fullorðnir og börn biðu eftir ár hvert Hátalari var utandyra til að heyrðist til jólasveinsins sem lék á alls oddi í tali og hreyfingum. Kjötbúðin var til húsa í Aðalgötu 32.

 N.L.F.S og Litla Búðin við Suðurgötuna.

 Það var alltaf ókeypis í bíó fyrir börn á sumardaginn fyrsta.

  Carl Jóhann Lilliendahl sendi inn upplýsingar 17. júní 2009"Lokað 16. júní" Þetta var "dæmigerð" auglýsing ef svo má segja hjá Bjarna í Brennivínsbúðinni á Sigló að stundum gerðist það, að um leið og búið var að loka búðinni kl. 18:00 15. júní var sett upp auglýsing á hurðina "Lokað 16. júní" og fannst þetta mörgum kvikindislega gert og þá var nú aldeilis grátur í bænum.

"Myndin af þessari auglýsingu er trúlega út af öðru tilefni. Þó gæti hún líka átt við 17. júní þótt ekki sé minnst á það sérstaklega. Þannig var nú "áfengis" tíðarandinn þessa daga (kringum 1960 o.þ.u.b.). Viðvót frá SK; Nær undantekningarlaust var samsvarandi auglýsing sett upp vegna landlega, sérlega þegar bátarnir höfðu verið að veiðum í nánd við Siglufjörð og búist við fjölda skipa vegna brælu. Þetta var gert vegna kröfu bæjarfógeta. (CJL & SK)"

 Mjólkurbúð.  Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Frá vinstri : Elín Gestsdóttir og Jóhanna Eiríksdóttir.

Og að sjálfsögu var seld "Hólsmjólk" úr eigin mjólkurbúi Siglufjarðar, man eftir að hafa farið með mömmu með brúsa að kaupa mjólk og minnist þess hvað mér fannst þetta hrein og flott flísalögð búð. Eitthvað svo nýtískuleg.

 En stundum var maður áminntur um að þetta var sjávarþorp og þá voru fluttir bátar niður þessa flottu götu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Bátur á ferðalegi frá "Skipasmíðastöð Sæmundar Jónssonar", sem staðsett var uppi í fjalli, í Hvanneyrarhlíðinni.

 Séð upp Aðalgötuna, í vesturendanum blasir við risastór kirkja og í austurendanum söltunarplan og glæsilegur hraðbátur við bryggju.

Örlygur sendi inn upplýsingar 25. desember 2008: Hraðbátur. Þetta er líklega hraðbátur sem amerísku hermennirnir á Siglunesi notuðu á ferðum á milli kaupstaðarins og ness í heimstyrjöldinni síðari. Hann tók 10-15 menn og gat verið um 15 mínútur á milli. Lá við alvarlegu slysi einu sinni um borð í bátnum þegar þrír hermenn sátu fastir í honum í aftakaveðri - komust hvorki í land né inn í fjörð. Báturinn barðist um á bólinu og Siglnesingar gátu enga björg veitt. Þeim var síðan bjargað af stórum bát daginn eftir og komið á sjúkrahús aðframkomnum af vosbúð. Gunnar Halldórsson síldarsaltandi keypti bátinn af Könunum þegar þeir fóru 1945. 

Og að sjálfsögðu voru allar almennilegar verslanir með sendla.

 Ljósmyndari: Ókunnur. Vilhjálmur Sigurðsson situr og Matthías Jóhannsson á hjólinu, en Alfonshúsið í baksýn.

Ljósmyndari: Gestur H Fanndal. Steingrímur Kristinsson 12 ára (1947) þá sendill hjá Gesti.

Glæsileg og litrík timbur og bárujárnshús hafa alltaf verið aðalsmerki Siglufjarðar.

 Ljósmyndari: Ókunnur. Landmarkshús, við Hafnargötuna og hús á eyrinni með silfurlitað "bárujárn" af fínni gerð.

 Gránuhúsið stóra við Hafnarbryggjuna.

Þetta stóra fjögra hæða timburhús var “draugahús” í ævintýraheimi barna og unglinga bæjarins og það var mikið “manndómspróf” að þora að fara einn í myrkrinu uppá 4 hæð og ganga alla leið að Skóger skipslíknesinu sem var heygt á hálsinum þarna uppi, yfirleitt voru þeir eldir búnir að fara á undan og fá líkneskið í sveiflu áður en maður kom upp. Lögreglan komst að þessum leik og líkneskið stóð lengi í kjallaranum á lögreglustöðinni áður en Örlygur bjargaði því til sín suður í Síldarminjasafn.

 En svo voru til svona "Hobbitahús" líka. 

 Mjölhúsið var lengi vel stærsta bygging Íslands. Í dag stærsti "geymsluskúr" landsins.

Mér hefur stundu dreymt um að þarna væri kannski hægt að setja límtrésburðarboga með dúkklæðningu inní þetta hús og hafa þar knattspyrnuæfingar og hljómleika.  

 

Að fara í útskipun á mjöli var nokkuð sem gaf góðan pening fyrir unga skóladrengi, akkorð yfir eina helgi og unnið allan sólarhringinn þangað til lestar skipsins voru fullar. Það var verst að vera í lestinni og bera 50 kg mjölpoka undir lunningin. 

 Siglufjörður átti eigin Rafstöð og Virkjun inn í Fljótum.

Myndir og viðtal við fólkið sem á Rafstöðina í dag.

 Ljósmyndari: Margrét Steingrímsdóttir.  Sundlaug. 

Glæsileg 25 m innanhússundlaug með áhorfendastúku, seint á hverju hausti var sett gólf yfir laugina og sundhöll breyttist í íþróttahöll. 
Man að við félagarnir í Sundfélagi Siglufjarðar SS, vorum á sundæfingum á þurru landi og um vorið þegar laugin kom undan gólfinu lá okkur á að komast í form og þá var maður daglega með krampa í öllum kroppnum í 2 mánuði. Svo kepptum við við Sundfélagið Óðinn frá Akureyri og unnum þá oftast þrátt fyrir að þeir ættu bæði litla heilsárslaug og flotta útisundlaug.  

 Frægur kór í söngferðalagi í Frakklandi. Ljósmyndari: Ókunnur.
Kórfélagar Karlakórsins Vísir í Frakklandi. Frá vinstri : ?, Óli Geir Þorgeirsson, Helgi Hallsson, Sveinbjörn Tómasson, Anna Lára Hertevig, Sigþór Erlendsson, Guðmundur Ó. Þorláksson, Steingrímur Kristjánsson, Sigurður Gunnlaugsson, Gísli Þorsteinsson, fyrir aftan Gísla er Elías Þorvaldsson ?, Þórður Kristinsson, Árni Th. Árnason og Jónmundur Hilmarsson

 Hippar bæjarins voru með æfingaaðstöðu í Æskulýðsheimilinu og þetta eru þeirra 9 Boðorð. Veit ekki hvort þetta yrði samþykkt af æskulýðsfulltrúum Siglufjarðar í dag. 

 Svo enda alltaf Siglfirðingar árið með glæsilegum jólaljósum og Norsku jólatré á Torginu og ljósum í Hvanneyrarskál, áramótabrennum og flugeldasýningum út um allan bæ.

Þetta er sá árstími sem flestir brottfluttir hafa sem mesta heimþrá.

Samgöngur, snjóþyngsli, skíðastökk, hitaveituvandræði og fl.

Fyrir utan texta sem kemur frá myndalýsingum úr Ljósmyndasafi Siglufjarðar mun ég notast við lítinn hluta úr kafla úr bókinni “Vind över Island” frá 1954 eftir Jöran Forsslund sem ég hef nýlega lokið við að þýða með góðri hjálp frá okkar mikla Síldarsögu snillingi honum Örlygi Kristfinnssyni.
Þessi kafli heitir: “Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi” og hann fjalar að mestu leyti um heimsókn Jörans til Siglufjarðar og hans lýsingar af samgöngum og snjóþyngslum og fl. og segir allt um okkar fallega fjörð, séð með hans sænsku augum.

Eins og áður var sagt er aðalverkefni Snarfaxa að sinna áætlunarflugi á milli Akureyrar sem er höfuðborg Norðurlands og Siglufjarðar sem er örsmá útgáfa af Klondyke síldarinnar.

 Strákafjall, séð inn Siglufjörð. Strákagöng voru opnuð 1967.

Nokkrum dögum seinna er ég aftur kominn um borð í Snarfaxa og þegar Siglufjörður birtist loksins í rigningarmóskunni, hugsar maður:

“Þetta er algjört brjálæði,.......hér geta ekki flugvélar lent,.....nei, nei,........það er algjörlega útilokað.”

Maður sér inn í þröngan fjarðarbotninn og þar liggja bátar hlið við hlið, svo margir að möstrin eru eins og þéttur skógur fyrir utan lítinn bæ með háa verksmiðjuskorsteina á lítilli eyri sem sem er umkringd þverhníptum himinháum fjöllum, hversu há þau eru er ekki hægt að sjá vegna þokuslæðings sem hylur toppana.

Mér líst ekkert á þetta og þrátt fyrir að ég sé gamall reyndur áhugaflugmaður er ég gjörsamlega að fara af taugum þegar vélin flýgur inní fjarðarbotninn og stímir fyrst beint að einum klettaveggnum og leggur sig síðan á hliðina í krappri beygju og þá birtist næsti klettur og síðan sá þriðji. Í þessari stund var ég svo hræddur að ég efaðist um að ég fengi nokkur tímann að sjá mitt gamla góða Sverige aftur.

En áður en ég náði að hugsa meira út í það þá finnur Snarfaxi auðan blett í bátaskóginum og lendir með sjóinn frussandi í allar áttir og hægir síðan á sér eins og ekkert hafi í skorist .

Flugstjórarnir Aðalbjörn og Kristján kinka kolli til mín framan úr stjórnklefanum og þeir eru svolítið hissa á því hvað ég er fölur í framan.
Það er fyrst núna sem ég skil hversu ótrúlega duglegir íslenskir flugmenn eru. Þeir þekkja sína firði og fjöll eins og buxnavasana sína.

 Ljósmyndari:Ókunnur

Myndir af annarri sögufrægri sjóflugvél hér.

Myndin er af flugbát, annað hvort af gerðinni Catal eða Gruman. Vegna skorts á flugvöllum á landinu var gripið til þess ráðs að kaupa sjóflugvélar sem höfðu verið í notkun í stríðinu. Fyrsti Gruman Goose flugbátur Loftleiða kom til landsins haustið 1944. Árið 1944 keypti Flugfélag Íslands Catalina flugbátinn TF-ISF, sem var stærsta flugvél íslenska flotans og gat tekið 22 farþega. Áætlunarflug frá Flugfélagi Íslands var yfir sumartíma til Siglufjarðar á hverjum degi og stundum oft á dag, þegar var sem fjölmennast í bænum (10.000 manns) á síldarárunum. En yfir veturinn voru farnar 2-3 ferðir í viku. Farið var með farþegana í bát frá Leyrunum og einnig frá annlegginu (sem svo var kallað, einhverskonar flotbryggja) og út að flugbátnum. Til gamans má geta að fyrsta farþegaflugið innanlands var farið 4. júní 1928 frá Reykjavík til Akureyrar með viðkomu á Ísafirði og Siglufirði.

Það er líka hægt að komast landleiðina til Siglufjarðar á nýlögðum vegi sem liggur yfir 600 metra hátt fjallaskarð. Vegurinn hlykkjast upp og niður brattar fjallshlíðar og á stuttum kafla er vægast sagt hrikalega hátt niður þegar maður kíkir út fyrir vegkantinn. Þetta myndi nú ekki kallast góður vegur á sænskan mælikvarða en hann dugir og kemur að góðum notum hér, þrátt fyrir að bílferð frá Akureyrir taki að minnsta kosti 4  tíma ef allt gengur vel. Flugið hingað tók bara tæpar 20 mínútur.

Það var ekki fyrr en um mánaðarmótin júní júlí sem hægt var að opna Skarðsveginn og þá var notuð stór jarðýta sem þurfti að éta sig í gegnum 7 metra háa snjóskafla. 

Einn morgun þann 22 júlí þegar ég var staddur þarna vakna ég umkringdur af hvítum fjöllum. Það hafið snjóað svo mikið um nóttina að það varð að setja snjókeðjur á áætlunarbílinn þrátt fyrir að veghefill færi á undan. 

Kringum 10 mánuði á ári er þessi vegur lokaður vegna snjóþyngsla. Áætlunarflugið fer þegar veður leyfir allt árið og strandskip kemur nokkrum sinnum í viku en þær ferðir eru líka háðar veðri, vindum og hafís.

 Skarðsvegur var formlega opnaður 1946.

 Skarðið, (Fljótamegin) Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Vinna við háspennumastur ofan við Siglufjarðarskarð

 Ljósmyndari: Kristfinnur G. Vinnubúðir í Skarðinu.

Frá miðjum nóvember sér ekki til sólarinnar í 9 vikur, hún hefur ekki orku til að hefja sig alla leið yfir fjallagarðinn mikla sem felur þennan fjörð og hún er löngu sofnuð áður en hún kemst alla leið norður fyrir til að skína inn fjarðarkjaftinn. 

Í janúar þegar blessuð sólin kíkir loksins yfir fjallatoppana þá fá sér allir kaffi og rjómapönnukökur. Sólin verðskuldar sína eigin hátíð á Siglufirði.

Á sumrin er síldin drottning og það sem eftir er árs er vetur konungur allsráðandi með snjó og myrkri.

 Mynd 1. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson, hauskúpa varar við hættulegum vegi, Eða ?

Mynd 2
Ljósmyndari: Líklega Salbjörg Jónsdóttir. Skarðsvegurinn er svo hættulegur að það þurfti að hafa slysavararskýli efst í Skarðinu. Á myndinni er afi minn (Jón Ólafur Sigurðsson) og amma (Unnur Möller) og föðursystir mín hún Brynja Jónsdóttir og eiginmaður hennar Hallgrímur Jónsson frá Akranesi. Eldri kona lengst til vinstri er líklega móðir Hallgríms.  

Innarlega í firðinum er rekur bæjarfélagið mjólkurbú með 80 kúm sem sjá börnum bæjarins fyrir nýrri mjólk allt árið.  
En þrátt fyrir að þetta mjólkurbú sé aðeins í þriggja km fjarlægð frá bænum gerist það stundum að ekki er hægt að flytja mjólkina í bæinn vegna snjóþyngsla. Hjörtur Hjartarson sem er kaupfélagsstjóri (í þetta skiptið sem ég heimsæki Siglufjörð) sagði mér að sonur hans hafi haft það gott í vetur, hann þurfti ekki að ganga niður stigann heima hjá sér til þess að fara út að leika sér. Nei, hann renndi sér á rassinum á snjókafli út um gluggann á annarri hæð.

Eftir að síldarvertíðinni lýkur er um stuttan tíma atvinna við að hugsa um síldartunnurnar sem saltað var í um sumarið. Það þarf að nostra mikið við þær, snúa þeim reglulega og pækla. (fylla á með saltlausn)

En eftir að síðustu tunnunum er skipað út seinna um haustið leggst  bærinn í vetrardvala.  Margir fjölskyldufeður verða nú að gera sig klára í að fara úr bænum áður en snjóþyngslin hindra þá í leit sinni að vetrarvinnu víðsvegar um landið. Um veturinn er ekki mikla atvinnu að fá hér fyrir aðra en bæjarstarfsmenn og verslunarfólk.

Vetraratvinnuleysi er stórt vandamál hér á Siglufirði og ekki bætir úr ef sumarið er lélegt síldarsumar og enginn kostur á að leggja pening til hliðar, pening fyrir langan og erfiðan vetur.
Margir sem hafa byggt sér og sínum hús hér í bæ, reyna nú að selja eignir sínar til þess að geta flutt í burtu, en hver vill svo sem kaupa hús hér og flytja hingað ?

En sumarið kemur nú samt til Siglufjarðar. 

Í fjallahringnum má sjá silfurlitaða læki vaxa og glitra í sólskininu sem flæðir um græn engi og tún og snjóskaflar í skálum og giljum bráðna og mynda þessa silfurlæki sem hjálpa til við að undirstrika blámann í snjónum.

Og í júlí vaknar Siglufjörður og þá fyrst byrjar alvara lífsins sem gleypir allt og alla.

Ég hverf beint inn í þennan ævintýraheim. 

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Frá vettvangi flugslyss í Hestfjalli í Héðinsfirði - Doglas C3 (1947)

Sjá grein í DV um þetta mannskæðasta flugslys Íslands. Harmleikur í Héðinsfirði.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Drangur að koma með skipverja á Haförninn, ásamt fleiri farþegum

Táknrænt - Á sama tíma og Strákagöng voru opnuð með viðhöfn 10. nóvember 1967, sigldi flóabáturinn Drangur inn Siglufjörð. En Drangur var áður aðal samgönguleiðin til Siglufjarðar, þá 8 mánuði +/- sem Siglufjarðarskarð var lokað vegna snjóa.

 En hvernig og hvenær komst maður til baka ?

 Stundum var allt bara frosið.

 Þessi fjörður fyllist reglulega af sandi og grjóti og dýpkunarskip þurfa að vera stanslaust í vinnu.

Hafið er á góðri leið með að éta upp allt Siglunesið, hvað gerist þá með höfnina sem hingað til hefur fengið skjól frá þessu nesi ?

 Það var oft rafmagnslaust, en aldrei lengi, því við áttum vara rafstöð, en vinnan við að laga slitnar rafmagnsleiður upp í Skarði var sú erfiðasta og versta vinna sem faðir minn lenti í, en hann vann lengi hjá Rarik. 

 
Snjór !

 Hvað ætli sé í Bíó í kvöld ?

 Nýja Bíó við Aðalgötuna.

 Snjóhús ?

 Slysavarnarfélagið æfir snjóflóðaleit.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Vinnuhópur að koma frá Skútudal eftir mokstur við hitaveitu skúrana sem lenntu í snjóflóði.

Á mynd 2 má sjá Valmund Valmundsson og Ingvar Hreinsson Veit ekki hver sá þriðji er.
Valli og Ingvar æfðu oft skíðastökk með mér.

 Hitaveitulagna vinna. 

Ég var að vinna við að grafa skurði fyrir hitaveiturör út um allan bæ og mér fannst það bara gaman, sérstaklega að búa til sprengjur úr frauðplastefni sem sem var notað til að loka samskeytunum á milli röranna. Kristján Ludvik Möller var verkstjóri þetta hitaveitusumar og einn mánudagsmorgun skipaði hann mér og tveimur öðrum að grafa þráðbeinan eins metra djúpan skurð frá Aðalgötunni og að steinsteyptu plani fyrir sunnan Barnaskólann. Það lá á þessum skurði svo við fengum þetta á “akkorði” og máttum eiga frí það sem eftir var vikunnar að verki loknu. Stjáni frændi hefur eitthvað klikkað á þessu og gleymt að öll eyrin er bara sandur og við fórum heim á þriðjudaginn kl. 15.00. Hann var það góður verkstjóri að hann stóð við orð sín þrátt fyrir að hann hafi áttað sig á mistökum sínum.  

 Ljósmyndari: Óþekktur og skíðastökkvarinn líka.

Ég byrjað snemma að æfa skíðastökk og var næstum búinn að drepa mig þegar ég var 10 ára þegar ég var aleinn að stökka á túninu sunnan við Hafnartún 6. Datt framfyrir mig við lendingu og skar sundur slagæðina á vinstri hendi með hvassri beygjunni framan á skíðunum. Fannst skrítið hvað mér varð allt í einu heitt í vettlingnum og þegar ég tók hann af þá spýttist blóð í allar áttir. Hljóp heim og sem betur fer var það ekki langt og pabbi henti mér inní bíl og brunaði uppá Suðurgötu til Sigurðar læknis þar sem ég var í áskrift vegna allskyns hrakfara sem eltu mig stanslaust. Það steinleið yfir mig á borðinu hjá Sigurði lækni og ég man að pabbi var svolítið fúll yfir öllu blóðinu í bílnum, en samt glaður að ég lifði.

Við strákarnir æfðum skíðastökk í Gryfjunni og þar mátti maður passa sig á að renna ekki á þakbrúnina á smurstöðinni sem var þar fyrir neðan. Man eftir að við vorum allir á of stórum skíðum sem við fengum að erfa frá eldri strákum. Man að einn félagi minn stökk upp úr skónum þegar hann ætlaði að taka á loft á pallbrúninni. Skildi skíði og skó eftir á pallinum og lenti flott á maganum þremur metrum neðar. 

Við æfðum líka um tíma suður við Steinaflatir og líka í norðurhlið Hólshyrnunnar um tíma. 

Einn fallegan vordag um miðjan maí vorum við Valli og Ingvar að æfa í grjóthörðu hjarni við Steinaflatir og síðan vildum við vera svakalega kaldir töffarar og stökkva berir að ofan og það var auðvitað bara ég sem datt á vinstri hlið og ég leit út eins og að ég hefði verið dreginn eftir bíl á malbiki. Gat ekki sofið í tvær vikur. 

 Ljósmyndari: Gestur H Fanndal
Verið að keppa í skíðastökki á Stóra- Bola við Leikskála líklegast árið 1962.

Ég hef oft haft gaman af að segja hrakfara og slysasögur af Jóa Budda (Jóhann er sonur Sigurjóns Jóhanssonar skipstjóra og Ásdísar Guðlaugsdóttur) vini mínum sem var svona álíka kaldur og til í hvað sem er eins og ég og við brölluðum margt saman í skíðatúrum ofan á snjóflóðum og í gilunnum  fyrir neðan Fífladal. Gengum þarna upp eftir með skíðin mörgum sinnum á dag. 

En flottasta skíðaslysið hans Jóa gerðist nú reyndar á Laugarveginum með 30 krakka sem vitni einn sólardaginn þegar allir krakkarnir í suðurbænum voru úti á skíðum og snjóþotum.

Við þessir köldu byrjuðum í brekkunni norðan við húsið hjá Ingólfi í Höfn upp á Suðurgötunni og svo stukkum við fram af götunni og aftur af Laugarveginum og svo áfram niður og enduðum í löngu stökki fram af Hafnargötunni.

Það voru alltaf krakkar á vakt á götunni til að vara við bílum, en einu sinni klikkaði þetta hjá Jóa Budda sem kom á fleygi ferð á nýjum Fischer skíðum með Mark smellubindinga og allt það nýjasta sem til var, við hin vorum öll bara með gamaldags gormabindinga. 

Jói sér ekki bílinn fyrr en of seint en hann var svo heppinn að vinstra afturhjólið fór yfir bæði skíðin samtímis og Jói skýst upp úr Mark bindingunum og fer heljarstökk yfir afturendann á bílum og lendir 15 metrum fyrir neðan Laugarveginn. Allir krakkarnir horfa á þetta með skelfingu og það mátti heyra saumnál detta í snjóinn svo hljótt var það þegar Jói lenti á rassinum og allir voru vissir um að hann væri bara dauður.

En hann stekkur upp eins og skot, snýr sér við og æpir:

Er allt í lagi með skíðin ????

Hörð náttúran sendir á okkur flóð og drulluskriður

 Ljósmyndari: Ókunnur

Úr safni Sillu - Flóð á Siglufirði. séð upp Aðalgötu Úr safni Sillu - 1934 – Aðfaranótt fyrsta vetrardags, 27. október, gekk mikið sjávarflóð og brim meðfram öllu Norðurlandi og olli miklu tjóni. Einna mest tjón varð á Siglufirði. "Sjávarflóðið var svo mikið að flæddi yfir nærri því alla eyrina. Gekk sjórinn inn í fjölda húsa svo fólk varð að flýja heimili sín í dauðans ofboði," segir í Morgunblaðinu 28. október. Svo hátt var flóðið að á Lækjargötunni "var vatnið mittisdjúpt". "Í sumum húsum varð vatnið svo hátt að rúmstæði flutu upp," segir í Einherja 2. nóvember. Í Siglfirðingi segir 3. nóvember: "Braut sjórótið ásamt stórflóði meirihluta allra bryggja og söltunarpalla á austanverðri Eyrinni og víðar." Morgunblaðið segir: "Á Siglunesi tók sjórinn alla báta, sem þar voru, braut nokkur hús og eyðilagði vergögn." Ennfremur eyðilagðist þar ný bryggja. Aðrar heimildir herma að sjór hafi fallið yfir Siglunes og ekki munað miklu að bryti að fullu burt eiðið þar sem nesið er lægst. Þá brotnaði einnig norðan af strönd nessins og vestan af því. Sagt er frá því í Siglfirðingi 1. desember að tjón "af völdum veturnóttafárviðrisins" hafi verið metið og að 68 tjónþolar hafi gefið sig fram. Þ. Ragnar Jónasson: Siglfirskur annáll, 1998.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Í miklu aftakaveðri 1982 flæddi sjórinn yfir eyrina og svona var umhorfs í Hvanneyrarkróknum eftir veðrið, þar sem grjórhnullungar voru komnir á land og inná Hvanneyrarbrautina.

 Stór drulluskriða við Suðurgötuna.

 Draugur við Roaldsbakkann ? Nei....gat á vatnsleiðslu undir bryggjunni.

Pólitískur hiti

 Þeir á efrihæðinni eru ekki sammála þeim þarna niðri. 

 

Siglufjörður var þekktur fyrir pólittískan hita og allir flokkar voru með eigið húsnæði og blaðaútgáfu.

Dúfur, kettir og fálkar

 Kristinn Steingrímsson með fallega tamda dúfu.

Dúfurnar í bænum hjálpuðu til við að gefa Siglufirði þennan stórborgarbrag, þær bjuggu á loftum í mörgum síldarbrökkum bæjarins og þær eru örugglega innfluttar, hafa líklega ekki flogið hingað af fúsum og frjálsum vilja.

Villikettir voru líka út um allan bæ og blönduðu sig við alkyns strokuketti frá síldarbátum sem komu frá öllum heimsins hornum. Það voru mörg merkileg litabrigði af köttum og ég man eftir einum “albínóa” með rauð augu. 

 Dúfur og villikettir

 Ljósmyndari:Kristfinnur Guðjónsson. Fálki á Ljósmyndastofu.

Matthías Jóhannsson, Gísli og Jóhann með fálka sem kom um borð í togarann Elliða SI 1.

Hernám

 Ljósmyndari: Ókunnur

Skotgafir á sunnanverðri lóð barnaskóla Siglufjarðar.

 Dátar á Sigló.

Höfuborg Síldarinnar, tunnufjöll og bátaskógur

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Bátaskógur. 

Landlega, séð frá borði Esju við Hafnarbryggjuna á Siglufirði. horft til vesturs. - Á skiltinu ofan við dyrnar á horni hússins stendur "Kol og vatn" og "Litla búðin" (fyrra nafnið virðist hafa verið undir en málning flagnað af og því komið í ljós)

 Drekkhlaðin bátur og tveggja hæða bryggjur.

 Tunnufjall við Sunnubrakkan.

 Fleiri tunnufjöll.

 Strákur að vatna tunnur.

 Tunnufluttningar

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Haraldur Þór Friðbertsson verkstjóri á vélaverkstæði síldarverksmiðjunnar Rauðku - þarna með sérstaka smíði fyrir Aage Schöth vegna perlugerðar úr síldarhreistri.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Sýnishorn af framleiðslu fyrirtækis Vigfúsar Friðjónssonar á Siglufiðri um 1960 +/- Þarna er síldarpasta í túbbum, makkarónur og fleira.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Frá bruna Tunnuverksmiðju Ríkisins á Siglufirði í febrúar 1964.

 Ljósmyndari: Þórdís Jóhannesdóttir

Fjör á síldarplani.

 Síldarstúlku vinkonur.

 Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson

Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " allar myndirnar svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.   

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst