GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa. Í 5 hluta minningargöngutúrsins stöldrum við aðeins við í myndum frá skemmtanalífi fólks á

Fréttir

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.

Maga kallar í Alþýðuhúsinu
Maga kallar í Alþýðuhúsinu

Í 5 hluta minningargöngutúrsins stöldrum við aðeins við í myndum frá skemmtanalífi fólks á Siglufirði í gegnum tíðina.
Í ljósmyndasafninu er til mikið af myndum frá hinum og þessum samkomum þar sem bæjarbúar eru að skemmta sér á Siglfirskan máta.

Það hefur alltaf verið í mínum minningum mikið af sögum um alkyns uppákomur sem ég var gestur á eða tók þátt í sjálfur og þannig er það nú með SIGLFIRÐINGA að þeir kunna svo sannarlega að skemmta sér SJÁLFIR.

Búa til sviðsmyndir og leikþætti bara svona af því að það var árshátíð eða bara KS-kvöld í snjóflóðahúsinu suður á Suðurgötu.

Þetta með að ég nefni hin siglfirska anda einu sinni enn kemur líklega úr þeirri staðreynd að við vorum öll fædd/eða aðflutt í bæ með sérstaka sögu tengd síldinni og öllu því unga vinnusama fólki sem kom til að taka þátt í þessu ævintýri og ungt fólk, (eldra fólk líka hef ég heyrt) vill náttúrulega skemmta sér líka.

Hér og líklega hvergi annarsstaðar á Íslandi var hægt að þéna árslaun á sumarmánuðum og síðan eyða góðum tíma í að gera það sem maður virkilega vildi vera:

...........leikari, söngvari,dansari,skemmtikraftur, listakona og fl.

Þessi bær og það umhverfi sem var þarna og er enn dró til sín hæfileikafólk sem virkilega vildi búa þarna og taka þátt því skemmtilega sem hægt var að gera og leyfði þessu fólki að vera LIFANDI.

Síðan er það líka staðreynd fyrir mig að vegleysa og einangrun gerði líka sitt í að skapa þessa:

Æi...gerum þetta bara sjálf !  Algjör óþarfi að kaupa inn skemmtikrafta, oftast ekki hægt vegna vegleysu og ófærðar.
Allir taka þátt og það lokkar fram karaktera og hæfileika sem enginn vissi um að það byggi í þeim sjálfum eða öðrum sem þeir töldu sig þekkja vel. 

Hér kemur myndsyrpa með 45 myndum, þar sem myndirnar tala sínu eigin máli og ég mun leggja inn eina og aðra minningu sem koma upp hjá mér tengdum sumum myndum.

Þessar myndir eru bara smá sýnishorn af þeim hafsjó af skemmtanamyndum sem þarna er að finna í þessum minninga og menningarfjársjóð sem ljósmyndasafnið er.

Enn og aftur vill ég minna á að þessar myndir eru EIGN Ljósmyndasafns Siglufjarðar og það má alls EKKI bara taka þessar myndir í leyfisleysi og birta hvar sem er.

Hafið samband við Síldarminjasafnið: sild@sild.is eða í síma 467 16 04.

Og eins og áður eru textar við sumar af myndunum lánaðir frá Steingrími og öðrum sem hafa sent inn upplýsingar um myndirnar. Ég hef einnig lagfært allar myndirnar til þess að þær geri sig betur í birtingu á skjá.

Vill til gamans geta að þessi “skemmtum okkur bara sjálf” andi er virkilega til enn í dag og sést oft á ýmsan máta. Ég sjálfur var áminntur um þetta og þurfti að útskýra þennan anda fyrir yngri syni mínum og sænskum vini hans sem við tókum með okkur í heimsókn til Íslands sumarið 2011. Skemmtilegast af öllu var vikan sem við vorum á Sigló og þeir eru enn að tala um þessa ferð.

Elísas kom með okkur vegna þess að kærasta Sölva sonar míns hafði hætt með honum viku áður en við áttum bókað flug, við ákváðum að Elías kæmi með í staðinn og að hann sem var bekkjabróðir Sölva á leiklistabraut skildi taka með sér gítarinn sinn og að við myndum síðan “selja” hann sem “trúbador”út um allan bæ  á þjóðlagahátíð sem Gunnsteinn frændi var með þessa viku.
Við vorum úti að skemmta okkur alla daga og Elías spilaði á Allanum, á Aðalgötunni, á Torginu og oft á Harbour house café og við gengum hlæjandi heim um miðja nótt í miðnætursól alla daga.

Þeir áttu erfitt með að sofa þessir svíar í björtum nóttum norðursins.

Aldeilis venjulegt fimmtudagskvöld erum við inni á Harbour og Elías er að syngja Utskýring frá myndaCornelis Vreeswijk vísur og það eru þarna venjulegir Siglfirðingar og túristar og smábáta sjómenn frá Grindavík sem þekktu hana Kristínu Sigurjóns sem var að vinna þarna.
Elías söng og spilaði og svo lánuðu sjóararnir gítarinn og þetta voru listamenn og söngvarar og fólk skemmti sér alveg konunglega, allir sungu með............ hver með sínu nefi og á sínu tungumáli.
 
Þá birtist allt í einu Gunna Finnarétt rúmlega áttræð þessi elska, á reiðhjóli og hún tók líka nokkur lög á gítarinn og þá ætlaði allt að verða vitlaust í þessum litla löndunarliðsskúr, minnti mig á gamlar gleðistundir heima hjá Gunnu og Hauki á Kambi á mínum unglingárum.

"Ég hafi þá gæfu að vera vinur Selmu dóttur Gunnu og kom oft í stóra gula húsið þeirra við Norðurgötu 14, sem var stundum eins og félagsheimili með fullt af ungu fólki og Gunnu og Hauk sem höfðu þvílíka þolinmæði yfir þessum hávaða og látum sem komu úr öllum herbergjum hússins frá ungu fólki á ólíkum aldri. Gunna var oft með og við vorum að syngja, segja sögur og dansa, Gunna sýndi okkur gömul Tjútt dansspor og fl. 
En þegar Friðfinnur sem var nokkrum árum eldri ég og Selma datt í góðan brandara og eftirhermu gír stundum bara svona á þriðjudagskvöldi þá gat maður varla gengið heim eftir átökin við hláturköstin, yfir öllu sem Finna datt í hug að segja í sínu brandara spuna kasti sem stundum gátu varað í einn og hálfan til tvo klukkutíma. ÚFF"

 Gunna Finna, sakna þessarar lífsglöðu konu alveg ógurlega mikið.

Þetta skemmtikvöld endaði síðan með hljómleikum á torginu með gesti og gangandi frá öllum heiminum sem þátttakendum.

Ofan á allt annað skemmtilegt þá datt einn af sjóurunum í sjóinn eftir að hafa lent í slagsmálum við bróður sinn, en það var allt í lagi því þeir bræðurnir skruppu síðan heim saman til að skipta um föt og komu aftur sem vinir.

Á föstudaginn fórum við síðan inná Akureyri og táningarnir vildu kíkja á “næturlífið” í þessum höfuðstað norðursins. Hmmm.... Þeir hringju í mig fljótlega og Sölvi segir:

pabbi....varstu ekki að segja að þetta væri svo stór bær ? Ha....hvar eru allir ? það er ekkert að gerast hérna, þetta er hundleiðinlegur bær, það er miklu meira fjör á Sigló förum bara tilbaka þangað það er alltaf fjör þar...........er það ekki pabbi ?

Jú, það er alltaf fjör á SIGLÓ.....alla daga, svaraði ég stoltur.

Skemmtikraftar

Byrjum þessa myndasyrpu á að kíkja fyrst og minnast þeirra sem voru svo duglegir við að skemmta öðrum, þekktir sem óþekktir en alltaf heimsfrægir á Sigló.
Auðvitað hef ég gleymt mörgum og ekki fundið myndir af öllum sem ég hefði vilja nefna hér, en þið getið skrifað í "kommentakerfið" hér fyrir neðan og þá verður það viðbótarsaga við þessa myndasögu.

 Hljómsveitin Gautar og Blandaður kvartett "Litla vina "

 Guðmundur Gauti syngur "Lindin tær" með sinni einstöku rödd.  "Sem lindin Tær Guðmundur Gauti, Gautar og Karlakórinn Vísir"

GAUTAR / Sagan

 Bjarki Árna, snillingurinn sem samdi þetta yndislega lag.

 Fannst þetta alltaf svo skrítið nafn á popphljómsveit hér í gamla daga, en það passar vel núna.
Mið-aldra-menn og Konur í einhverjum gömlum rústum í draugabænum Sigló 79 eða 80 og eitthvað. Selma Hauks dóttir Gunnu Finna söng líka 1 ár með þessari hljómsveit og í 8 ár með Gautum.

Miðaldamenn, Erla & Kristín. (Bloggheimar leós Óla)

Þessi landsfræga hljómsveit var í harðri samkeppni við Gauta og aðra og reyndu allt til þess að slá í gegn og eins og í Stuðmannamyndinni tóku þeir stundum með sér “Lokal” skemmtikrafta og einn af þeim var ég sjálfur og bekkjafélagi minn Steini Guðbrands.

Við Steini höfðum troðið upp með eitthvað lágkúrulegt eftirhermu “Slappstick”  atriði á skólaskemmtun á hótel Höfn. Þeim miðaldamönnum og konum þóttu þetta voða fyndið og tóku okkur með í flugvél til Ísafjarðar og við erum látnir troða upp fyrir fullu húsi í Félagsmiðstöðinni á Hnífsdal minnir mig.
Þessu Vestfirðinga pakki fannst þetta nú ekki fyndið og þeir hentu í okkur banönum og öðru grænmeti og voru mest á því að henda okkur í sjóinn líka.

En þetta var alveg meiriháttar upplifun og ég og Steini vorum með strengi í maganum í fleiri vikur eftir þennan túr með þessu klikkaða músík fólki.
Stína Bjarna frænka mín henni finnst Vestfirðingar vera voða skemmtilegt fólk og hún býr þarna núna. Ísafjörður er nú reyndar eins og kópía af Siglufirði og henni líður eins og hún sé heima alla daga.

 Þorsteinn Guðbrandsson og Jón Ólafur Björgvinsson skemmtikraftar á samning hjá ??????

Viðbót og leiðrétting frá Steina Guðbrands !
Svona getur nú Facebook verið skemmtilegt með samskiptamöguleika út um allan heim, fékk þessa leiðréttingu frá Steina sem býr í Ameríku og hann leyfði mér að birta þetta stutta spjall eins og það kom til mín.
 

 Þessi er búinn að troða upp og tralla fyrir fólk í 50 ár. Stúlli og Leó eru ennþá á fullu í þessu skemmtanabransa.
 
 Allir þessir strákar (nema Stúlli)  byrjuðu sinn söng og grínistaferil á "skemmtikvöldum" hjá KS. (Fílapenslarnir frá Siglufirði komu fram í þættinum

 Ég veit ekkert um hvað þessi hljómsveit heitir en ég þekki Ómar Hauks á bassanum og ég vissi ekki að Mik Jagger væri vinur hans og að hann hefði verið á Sigló og sungið með Ómari.

 Söng og gleðikvöld með Big-band og öllu í nýja Bíó, veit ekki hvenær en á skiltinu í bakgrunninum er rjúkandi pottur og í gufuni stendur MIX - SURA eða MIXTÚRA held ég.

 Og hvað eru svo sem skemmtanir án áhorfenda og svona gaman var nú einu sinni á barnaskemmtun/leikriti í Nýja Bíó. Dásamleg mynd.

 Enn af mörgum frægum skemmtanahöldurum Siglufjarðar. Hinn eini sanni Palli á Höfninni.

TÓNLISTARSKÓLI SIGLUFJARÐAR

Það er augljóst að starfsemi ýmissa félagskrafa í bænum eins og leikfélagið, KS og allskyns árshátíðir hjá félögum og starfsmanna félögum ýttu undir sköpunargáfur og lokkuðu fram ótrúlega mikið af hæfileika fólki sem þorði og vildi taka þátt. 
En þegar kemur að tónlist þá er starfsemi Tónlista skólans ótvíræður foringi í að framleiða fjöldann allan af  hæfileikafólki enn þann dag í dag.
Það er hægt að reikna upp endalaus nöfn á fólki sem hefur unnið hörðum höndum og oft í sjálfboðavinnu við það að efla sjálfstraust og vilja til að læra að spila og syngja og setja upp skemmtanir okkur hinum til mikillar ánægju.

Élías Þorvalds, Maggi Óla, Stúlli, Steini Sveins og fl og fl. 

Ef að Tónlistaskólin væri ekki til þá væri þetta dauður bær. Púnktur Basta.

 Músík kabarett hjá ????? og Tónskóli Siglufjarðar ? Hvað hét þessi starfsemi ? 

 Jón Heimir Sigurbjörnsson stjórnar blokkflautu hljómsveit af mikilli innlifun.

SKEMMTILEGT OG KÁTT FÓLK !

Hér kemur slatti af myndum af fólki sem er að skemmta sjálfum sér og öðrum en það er eins og að það sé til auka lista, gleði og skemmti-gen í sumum fjölskyldum eins og t.d. fólkinu hennar Gunnu Finna eða í í börnum og barnabörnum Ömmu Fríðu, eins og t.d Abbý og Öllu Siggu, og hún Auður Helena, mín eilífðar vinkona er algjör sköpunar og gleðibolti líka.

Það er dásamlegt að þekkja svona LIFANDI og LÍFSGLATT fólk og áhrifin af því er eins og stendur á MALT ölinu:

"bætir meltinguna og gefur hraustlegt og gott útlit." það er löngu búið að sanna það að glaðlinnt fólk með húmorinn á réttum stað lifir lengur og á sér yfirleitt betra og innihaldsríkar líf en aðrir, þrátt fyrir að þeir/þær eigi auðvitað sínar eigin sorgir og þrautir í lífinu.

Þegar við hættum að geta gert grín af sjálfum okkur og lífinu eins og það er þá finnst mér ekki mikið varið í restina.

Sumir eru bara hreinlega skemmtilegri en aðrir og það er gott fyrir okkur hin.

 Eins og þessi gleðibolti, Abbý að syngja eitthvað skemmtilegt smástund á meðan hún var að baka eða kannski var góð steik í ofninum í Fiskibúðinni. hver veit ? 

  Við söknum þín ÖLL Lilja mín.
Allir á "mínum aldri" þekkja þetta skemmtilega fólk sem rak Billann, sem var mitt heimili í mörg mörg ár og ég hefði líklega gist þarna líka ef það hefði verið leyfilegt.
 (P.S. Rosalega ertu SEXÝ í þessari rúllukragapeysu Guðmundur Davíðsson)

KÁTT FÓLK var nafnið á óformlegum félagsskap ungmenna á milli 16-30 ára og ég var meðlimur í þessum skemmtilega hóp. Okkur leiddist og við ákváðum að gera eitthvað í þessu, einu skilyrðin fyrir að fá að vera með var að þú varst að vera tilbúinn að skemmta þér og þú máttir ekki vera á föstu. Ef þú varðst ástfanginn þá varstu rekinn úr klúbbnum sama dag.

Um þetta leiti var allt í niðurníðslu á Sigló og við vorum vaxin upp úr því að fara í sleik og kela á síldarkóngaskrifstofum í brökkum sem voru að hruni komnir.

En það var allt fullt af samkomusölum út um allan bæ og þar vorum við með diskó og böll fyrir okkur sjálf og aðra. Síðan var líka farið suður á Hóli heila helgi og haldin Íslandsmeistaramót í snjóþotustökki t.d.

En það skemmtilegasta og eftirminnilegasta sem við gerðum var að leigja flugvél og fara í heimsókn til Neskaupstaðar eina helgi eða svo.

Veit ekki alveg af hverju en okkur var boðið að koma austur en líklega var þetta einhver misskilningur út af þessu nafni Kátt fólk sem var víst hægt að blanda saman við einhverja kristilega ungliðahreyfingu sem var til á sama tíma.
( "Ungt eða kátt" fólk með hlutverk minnir mig að þessi kristilega ungliðahreyfing hafi heitið )

Við gistum í Æskulýðsheimili bæjarins og það var vel tekið á móti okkur og ég kynntist ungri prestdóttur fyrstu nóttina og síðan var okkur líka boðið á árshátíð Iðnaðarmanna á laugardagskvöldinu og það varð allt vitlaust þarna á þessari virðulegu samkomu út af þessum kristilegu ölvuðu ungmennum frá Sigló.

Það var víst skrifað um þetta í bæjarblöðin þarna fyrir austan, en við komumst heil heim og erum enn að hlæja að þessu. Við sungum “jesús er besti vinur baranna” alla leiðina heim í flugvélinni.

 Skemmtikvöld í Nýja Bíó, takið eftir íburðinum í sviðsmyndinni.......magnað.......við erum á Hawaii um miðjan vetur. 

 Þjóðdansaball á hótel Höfn. Glæsilegir búningar.

 líklega skólaskemmtun á sviðinu í nýja Bíó. Glæsilegar dansdömur með pálma í bakgrunninum.

Þessi unga kona sem sért þarna á miðri myndinni er reyndar enginn venjuleg kona fyrir mér og minni fjölskyldu.

Hún heitir Sólveig Jónsdóttir og hún er fóstur móðir mín og Jósef Sigurgeirsson maðurinn hennar er fósturfaðir minn. Þau hafa búið í Svíþjóð í yfir 40 ár. Sjá nánar um ætt Sólveigar hér: Fjörugt ættarmót

Stundum verður maður að ákveða sig hvort að SIGLUFJÖRÐUR sé STÓR og nafli alheimsins eða hvort heimurinn sé ekki bara í rauninni pínu lítill.
Þetta er alveg ótrúleg saga en hún er dagsönn ég lofa ykkur því.

Fyrir 27 árum þegar ég var nýfluttur til Gautaborgar og bara búinn að vera hér í nokkra daga og kunni ekki orð í sænsku fór ég með Villa frænda mínum (Vilmundi Sigurðssyni, sonur Söllu föðursystur minnar) á risa stóran skemmtistað niðri í miðbæ. Ég spyr síðan eins og sá mölbúi sem ég var hvort hann þekki ekki einhverja hér inni ? Svona eins og maður gerði á Broadway í gamla daga, maður þekkti alltaf einhvern þar í því fólkhafi sem var þar eða hvað ?

Villi: Er ekki í lagi með þig Nonni, það búa BARA ca 1 milljón eða meira hérna á stór Gautaborgarsvæðinu.

Nonni: En þessi rauðhærða þarna á barnum ? Hún er örugglega Íslensk er það ekki ?

Villi: Eins og það séu ekki til rauðhærðar stelpur í Svíþjóð líka........

Nonni: ég fer bara og spyr hana...... Ertu Íslensk ? segi ég við hana á Íslenskri norðlensku.

Og hún svarar: JÁ...hvernig vissirðu það ?

Nonni: Og hverra manna ert þú....hún skyldi mig ekki svo fattaði hún og svaraði:

Sólveig og Jósef og þau eru bæði frá SIGLUFIRÐI. Dásamlegt.

Þetta var hún Silja Jósefsdóttir og við urðum bestu vinir og svo kom systir hennar hún Bára og þær bjuggu síðan báðar á námsmannanýlendunni þar sem allir íslenskir námsmenn með börn bjuggu á.
Þær urðu strax systur mínar og síðan hitti ég foreldra þeirra í Kristinehamn í Värmland fljótlega og eftir það varð ég ættleiddur og hef alla tíð síðan heimsótt þau minnst 10 sinnum á ári.
Gott að eiga góða að þegar maður er langt frá mömmu sinni einn í útlöndum.

 Ljósmyndari: Guðbjörg S Jóhannesdóttir (Gugga á Skálá) 
Bára og Silja Jósefsdætur og Pétur Friðrik sonur minn í 30 ára afmæli á námsmannanýlendunni.

 Gunnar Trausti ÓLÉTTUR ???? hafði hann ekki heyrt um P-Pilluna eða hvað ???

 Biggi Björns og Jonni Tann í einhverju skrítnum leik ??? APA - stiga jólaskraut í bakgrunninum.

 Fréttatími á fimmtudagskvöldi. LOKAL NEWS IN SIGLÓ IN THE 70´.

 "Hins eigin" dagar á Sigló 90 og eitthvað.

 JÓLABÖLL

Hver man ekki eftir jólaballa vertíðinni sem kom á eftir árshátíðavertíðinni og fyrir þorrablóta vertíðina,  þegar öll félagasamtök og vinnustaðir voru með eigin skemmtanir. 
Afi minn Pétur Bald var atvinnujólasveinn eins og ég og vinur minn Valmundur Valmundsson sem gerðum út á þetta í einu jólafríi og við þénuðum meira en þeir sem fóru í vinnur í frystihúsinu. 

Afi var svo góður jólasveinn að ég trúði á jólasveina þangað til ég var minnst 12 ára, hann gerði þetta svo flott.
Ég var síðan jólasveinn (Kertasníkir) í 15 ár á námsmannanýlendunni og sonur minn Sölvi er nú tekin við. 

 Líklega er þetta afi Pétur......kannast við nefið.

 Jólaball á hótel Höfn 
 

 LJÓSMYNDASKEMMTUN !

Að fara á ljósmyndastofuna hjá Kristfinni var skemmtun sem margir höfðu gaman af og að klæða sig upp í allskyns búninga.

 Sumir vildu vera kúrekar........

 og sumir vildu vera nazistaforingar.... What...????

 en guði sé lof, svo vildu sumir vera Lúi Armstrong líka...........

Myndatexti sem útskýrir þessa grímubúninga:
 
Sveinbjörn Blöndal og Hörður Óskarsson í grímubúningi - þeir mættu saman í þessum klæðnaði á grímuball Gagnfræðaskólans á Siglufirði, þessara andstæðu "persóna" nasistanum og blökkumanninum sem nasistar hötuðu og gera enn því miður).
Þetta olli miklu uppnámi hjá kennurum og ekki síður hjá foreldrum. Söguna þekki ég ekki með öruggri heimild, en svona man ég þetta. Gott væri ef einhver bætti um betur. - sk Grímuböll voru hér áður fyrr, all tíður skemmtanamáti. Þá kepptust menn og konur við að mæta á dansleiki í sem frumlegustum búningi- og yfirleitt voru veitt verðlaun fyrir þá frumlegustu og skemmtilegustu.
 
Fyrir meir en 50-55 árum, bar það við að allt ætlaði vitlaust að verða á Siglufirði, þegar tveir ungir gárungar mættu á einn slíkan dansleik. Þetta atvik var á hversmanns vörum og margar skoðanir á þessum atburði. Sú frásögn er ég heyrði oftast (og man) frá þessum atburði, þarf ekki endilega að vera sú eina rétta, en hún var á þessa leið, í stuttu máli. Eins og áður segir voru þarna að verki tveir ungir menn um 16 ára gamlir (?) sem fengu vinkonur sínar sem kunnu á saumavélar, sér til aðstoðar.
 
Á þessum tímum voru nasistarnir að hefja valdabrölt sitt í Evrópu, við hreinsanir og kynþáttahatur, meðal annars töldu þeir blökkumenn, til óæðri kynstofns. Í þessum anda bjuggu félagarnir til persónurnar; nasista og blökkumanna, til að sína þversögnina í heimsku nasistanna. En þetta uppátæki var greinilega misskilið því allt fór úr böndunum, m.a. í foreldra og fjölskylduhúsum. Það átti að reka þá úr skólanum, úr bænum, setja þá í fangelsi, flengja þá, ofl.ofl. -
 
Í dag og raunar á þeim tíma einnig, var og er hlegið af þessu írafári almennings, sem lét stjórnast á fyrirfram ákveðnum fordómum á drengjunum og án þessa að reyna að nálgast hinn raunverulega sannleika og tilgang, það er andhverfunni. Þetta voru vinirnir Sveinbjörn Blöndal listmálari og Hörður Óskarsson.
 

Skemmtilegir sjóarar !

Ljósm: Jóhann Örn Matthíasson 
Myndin tekin á árshátíð skipverja á Hafliða SI-1 (Takið eftir að fyrir aftan Gylfa Ægisson sem er á nikkunni hefur einum skipsverja verið bætt inní myndina seinna.)

 Hafliðamenn að borða skyr ???

 Eins og ég sagði: SUMIR eru hreinlega skemmtilegri en aðrir.... Drumburinn í svaka stuði. Alltaf góður.

Ljósmyndari; Steingrímur Kristinsson. Sigurður Jónsson ( Siggi á Eyri ) að skemmta á árshátíð hjá Haferninum.

Ýmislegt annað SKEMMTILEGT !

 Starfsmenn SR frömdu lamba fjöldamorð inní Fljótum og grilluð síðan allt saman í heimatilbúnum grillum. 

 Það var hægt að gera margt og mikið skemmtilegt hjá Júlla Júll í Æskó.

 Sumir fóru bara á þennan Tunnubar og fengu sér sígó og "bjórsúpu". Sumir eru nú reyndar góðir og áráðanlegir vinir Bill og Bobs í dag.

 Aðrir fóru bara og tóku þátt í
bryggjuveiðikeppni.

 Já.....það hafa alltaf verið til kynlegir kvistar á Sigló.........


 Spurt er ???  og svarið er.........


 Ljósmyndari: Hinrik Andrésson

Þarna eru m.a. Daníel Baldursson annar hjóreiðakappinn frá vinstri og Jóhannes Friðriksson við hlið hans hægra megin. Helgi Sveinsson að taka tímann og lögreglumaðurinn er Stefán Friðriksson (elsta lögga Íslands)

 Tunnuhlaup á malarvellinum.

 og svo eru til þeir sem nenntu ekki að taka þátt í þessu skemmtana æði og þeir fóru bara að safna eggjum og blása úr þeim. 

OG AÐ LOKUM

 Mynd sem lögreglan tók á ólöglegum Súlustað og leynikrá á Sigló 1981 líklega.

Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson
Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar, fjölskyldu og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " flestar af myndunum svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKI


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst