Hótel Siglunes! Myndir frá horfinni tíđ
Eigendum Sigluness Guesthouse barst fyrir stuttu skemmtilegur póstur frá Jónatan Garðarssyni sem segir okkur sögu ljósmyndar af hljómsveit sem
spilaði fyrir dansi í áramótar gleði árið 1939.
Svo skemmtilega vildi til að eigendur Siglunes höfðu látið Huldu Vilhjálmsdóttur listmálara mála mynd eftir ljósmyndinni sem hangir í
anddyrinu, gestum og gangandi til ánægju.
" Heil og sæl".
"Var að horfa á Júlla Júll á N4 þar sem hann ræddi við ykkur um Hótel Siglunes.
Afi minn Jónatan Ólafsson tónlistarmaður og lagasmiður var í hljómsveit sem spilaði á Hótel Siglunesi í nokkur ár.
Það er til lituð ljósmynd úr dánarabúi af þar sem hljómsveitarmeðlimir höfðu klætt sig upp í tilefni af áramótagleði og svo er önnur ljósmynd í 50 ára afmælisriti Félags íslenskra hljómlistarmanna.
Málverk sem gert er eftir lituðu ljósmyndinni, hangir núna upp á vegg á Gistiheimilinu Siglunes.
Datt í hug að senda ykkur þessar ljósmyndir. Þeir sem voru í hljómsveitinni voru Jónatan Ólafsson píanó- og harmonikuleikari, Poul Bernburg trommuleikari, Þorvaldur Steingrímsson klarinettu-, fiðlu og saxófónleikari og Gísli Einarsson saxófónleikari.
Á þessum árum var afi búsettur á Siglufirði, kom þangað 1931 sem undirleikari hjá bróður sínum Erlingi Ólafssyni, sem var baritón söngvari, en þeir voru á söngferð um landið.
Þeir fóru að vísu ekki lengra því báðir fóru að vinna í síld, afi kynntist ömmu minni Þorbjörgu Guðmundsdóttur, sem var Siglfirðingur og þau eignuðust móður mína Erlu Elísabetu Jónatansdóttur haustið 1934.
Þau bjuggu á Siglufirði til 1941 þegar þau fluttu suður í Hafnarfjörð.
Afi stjórnaði um tíma Karlakórnum Vísi og kenndi tónlist við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar.
Hann skrifaði einhverntíma smásögu um lætin sem gátu skapast á böllunum, þegar landlegur voru og allt iðaði af lífi í bænum, en þið hafið væntanlega heyrt margar slíkar sögur."
Kveðja
Jónatan Garðarsson
Hafnarfirði
Þökkum þér þessa skemmtilegu sögu Jónatan. Við elskum sögur héðan frá á Sigló svo endilega sendu okkur þær sögur sem afi þinn skrifaði niður.
Texti: NB og Jónatan Garðarsson
Mynd af málverki: NB
Athugasemdir