Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin Eins og áður hefur verið nefnt hér á siglo.is leiddi áhugi minn á ljósmyndum mig inn í furðuheima alnetsins og í leit

Fréttir

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

Skjáskot úr kvikmyndinni
Skjáskot úr kvikmyndinni

Eins og áður hefur verið nefnt hér á siglo.is leiddi áhugi minn á ljósmyndum mig inn í furðuheima alnetsins og í leit að kvikmynd sem var nefnd í heimildum sem ég fann á netinu.

Hér fáið þið að sjá nokkur ”skjáskot” úr þessari kvikmynd og upplýsingar um fleira skemmtilegt sem við kemur Siglufirði á einn eða annan hátt.

Þessi forvitni bar mig víða um völl á netinu og með Siglfirskri þrjósku tókst mér að komast í samband við kunnugar persónur hjá samvinnuhreyfingunni hér í Sverige og það kom í ljós að ljósmyndarinn Jöran Forsslund sem tók myndirnar af síldarstúlkunum og henni Lovísu í greininni:  SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945, var sko enginn venjulegur maður. 

Hann var ekki bara frábær ljósmyndari og blaðamaður, nei hann var líka rithöfundur, kvikmyndagerðarmaður og áhugamaður um flug og svifflug.

  Skjáskot úr grein frá timarit.is.  Samvinnan, tölublað 2 1955

Hann var einnig mikill Íslandsvinur og kom mörgum sinnum til Íslands og Siglufjarðar á tímabilinu 1945 - 1954. 
Það kom í ljós að hann skrifaði bók sem byggir á blaðagreinum hans úr tímaritinu Vi sem kom út vikulega og fór inná ca 650.000 sænsk heimili.

Bókin heitir "Vind över Island" og að sjálfsögðu er stærsti kafli bókarinnar umfjöllun og myndir frá síldarleitarflugi með sjóflugvélinni Snarfaxa og heimsókn til Siglufjarðar.

Það kom einnig í ljós að Jöran gerði 47 min. langa fræðslu kvikmynd 1954 sem heitir: Vardagens Saga, "Viljans merki"  á íslensku og í lokin kemur hápunktur myndarinnar sem er heimsókn i höfuðborg síldarinnar Siglufjord. Kvikmyndatökumaðurinn Elner Åkesson er einnig mjög frægur og hefur unnið við fjöldann alla af frægum sænskum bíómyndum. Um 4 mínútur í lok myndarinnar fjalla um Siglufjörð.
Þessi kvikmynd var sýnd tvisvar sinnum í kvikmyndahúsi í Reykjavík og seinna  fóru eintök með íslensku tali víða um landið og var þá líklega sýnd í ýmsum Kaupfélögum og á Samvinnufélagsfundum. 

Þessi frábæra fræðslu og landkynningar kvikmynd var fjármögnuð úr sjóðum Samvinnuhreyfingarinnar á öllum fimm Norðurlöndunum og það var sendur maður frá Íslandi til Stokkhólms til að lesa inn Íslenskt tal, íslenskt eintak hefur ekki fundist enn. Sagt er að það sé Benidikt Gröndal sem er þulur í íslensku útgáfunni.
Þetta eintak sem er fundið er með ensku tali og það fannst í skjalasafi KF (Korperativa förbundet) sem er sænska SÍS.

Þar var áður fyrr til heild deild sem með útgáfustarfsemi og auglýsingagerð og einnig kvikmyndagerð. 

 Þessi kvikmynd var til í ýmsum útgáfum og á ensku hét hún "Land of Ice and Fire" með ensku tali.

Kvikmyndatökubúnaður sem notaður var við gerð þessarar fræðslumyndar var að hluta til lánaður frá þeim svíum sem voru að vinna við að kvikmynda Sölku Völku eftir bók laxness á sama tíma.

Handrit fyrir þessa kvikmynd er bókin ”Vind över Island.”

Frétt um þessa kvikmynd birtist í Samvinnan, tölublað 2 1955 bls 4, greinin heldur áfram á bls 5 með lýsingu á gerð myndarinnar og lýkur á bls. 6 með kynningu á Jöran Forsslund. (velja bls. númer á síðu timarit.is)

Bókin ”Vind över Island”

Kaflinn um Siglufjörð heitir: "Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi." 
Þessi bók með öllu sínu innihaldi er dásamlega skemmtilegt "tímahylki" og full af fróðleik um Ísland 1945-1954, síldina, líf og störf venjulegs fólks í fjöldanum öllum af ljósmyndum og í rituðu máli.

 Skjáskot: Síldarstúlka fær merki í stígvélið.

Ég byrjaði þegar í fyrra haust á því erfiða verki að þýða þessa bók.
Þýðingu kaflans um Siglufjörð er nú lokið og naut ég aðstoðar frá okkar mikla Síldarsögumanni honum Örlygi Kristfinnssyni.

Það er hrein unun að lesa þessa bók. "Glöggt er gests augað" þarna fer Jöran með sitt ljósmynda auga vítt og breitt um Ísland, sögu okkar unga lýðræðis og dregur upp mynd af lífi alþýðufólks störfum þeirra og raunum í sönnum Laxness anda.

Hann byrjar bókina á heimsókn til Halldórs á Gljúfrasteini og endar bókina á kafla sem heitir "Ísland er byssan í hendinni á Ameríku" Þar er fáránleg mynd af amerískum hermönnum með stórar hríðskotabyssur í þoku út í svörtu hrauninu. Guð má vita hvað þeir eru að skjóta á.

Síðan hef ég líka verið í sambandi við dóttir Jörans Forsslund og aflað mér meiri upplýsinga um líf hans og störf. Hún hafði gefið Þjóðminjasafni Íslands slatta af ljósmyndum eftir föður sinn.

Hef einnig keypt ljósmyndabókina ”Island” eftir hin heimsfræga ljósmyndara Hans Malmberg sem kom út 1951eða 1954 að ég held en þar eru 128 bls. af ljósmyndum frá Íslandi og margar flottar myndir frá Sigló.

Þessi bók á að vera til á Síldarminjasafninu og kvikmyndin Viljans merki er komin þangað líka.

Hér fyrir neðan má sjá fleiri skjáskot úr þessari kvikmynd og ýmislegt annað fræðandi.

Texti:
Jón Ólafur Björgvinsson, aðrar heimildir eru sóttar hjá timarit.is, sænska riksarkivet og fl.
ljósmyndir eru skjáskot úr kvikmyndinni Vardagens Saga eða Viljans merki á íslensku og eru birtar með samþyki og leyfi frá Samvinnuhreyfingunni í Svíþjóð. (KF, Korperativa förbundet) 

Aðrar tengdar greinar:

 

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945
 

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst