Gullkista Siglfirðinga

Gullkista Siglfirðinga Nú eru þrír skógarhöggsmenn á vegum Skógræktarfélags Íslands að grisja skógræktina í Skarðsdal, sem er  nyrsta skógrækt Íslands.

Fréttir

Gullkista Siglfirðinga

Mariya Mykytyuk frá Úkraínu                 Ljósm./ Elín Þorsteinsdóttir
Mariya Mykytyuk frá Úkraínu Ljósm./ Elín Þorsteinsdóttir
Nú eru þrír skógarhöggsmenn á vegum Skógræktarfélags Íslands að grisja skógræktina í Skarðsdal, sem er  nyrsta skógrækt Íslands. Skógræktarfélag Siglufjarðar hefur beðið í mörg ár eftir að fá skógarhöggsmenn til að vinna þetta þarfa verk, og nú er sá draumur orðinn að veruleika.
Þetta er þriðji hópurinn, sem kemur í sumar og vonast er eftir að þeir komi aftur þar sem verkinu er hvergi nær lokið. Einar Jónsson fyrrverandi blaðamaður hjá 24 Stundum, og núverandi starfsmaður Skógræktarfélags Íslands, hafði á orði að stærð skógarins hafi komið honum verulega á óvart. Hann telur að grisjun hefði mátt fara af stað fyrir 30 árum þar sem skógurinn er orðin alltof þéttur, sérstaklega efri hlutinn. Nú er verið að vinna bót á því vandamáli og hefur grisjunin þau áhrif að skógurinn verður mun fallegri og opnari, sem leiðir til þess að gestir geta notið þess sem hann hefur upp á að bjóða betur. Í skóginum er ótrúlega fjölbreytt  trjásafn og skemmtilegir stígar hlykkjast um fallegt landslagið, og er fossinn hreint augnayndi. Brottfluttir Siglfirðingar eru duglegir að sækja skóginn heim og njóta lífsins í þessari paradís. Frumkvöðullinn Jóhann Þorvaldsson að öðrum ólöstuðum á heiðurinn að „fólkvangi“ Siglfirðinga. Hann lést í október árið 1999, níræður að aldri, en þá var hann búinn að vinna í meira en 40 ár óeigingjarnt starf í Skarðdalsreit. Árið 2006 var skrifað undir Landgræðsluskógræktarsamning milli Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarfélags Siglufjarðar og Siglufjarðarkaupstaðar, um plöntun tugþúsunda trjáplantna á nýju svæði skógræktarinnar sunnan við Skarðsá í landi Leynings. Að sögn kristrúnar Halldórsdóttur er nú þegar er búið að planta fleiri þúsund landgræðsluplöntum í landi Leynings fyrir ofan gamla skeiðvöllinn. Í gegnum árin hafa nemendur Grunnskóla siglufjarðar gróðursett græðlinga í skóginum, margt lítið gerir eitt stórt, það á svo sannarlega við hér!  Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað árið 1940 að frumkvæði Rotarýklúbbsins og voru stofnfélagar rétt tæplega 40, nú eru félagsmenn um 90. Formaður er Kristrún Halldórsdóttir.


Í bréfkorni til blaðsins Dags árið 1985 lýsir Jóhann Þorvaldsson dýrð skógræktarinnar. Hann segir að á sólhlýjum sumardegi jafnist fátt á við það að hlusta á fuglasönginn og fossniðinn og anda að sér ilmi trjáa og blóma. Á haustdegi gæfi síðan að líta litadýrð þar sem hver trjátegund og annar gróður hefur sitt litaskrúð sem breytist frá degi til dags.  Það er varla betri leið til að lýsa gullkistu okkar Siglfirðinga.


Nú er kjörinn tími fyrir sveppatínslu og er krökkt af sveppum í skóginum, en vert er að benda fólki á að kynna sér hvaða sveppir eru ætisveppir áður en haldið er í lautarferð.


Einar Jónsson er heldur betur vígalegur með keðjusögina!


Þessa vikuna eru bæjarstarfsmennirnir Þór og Jósteinn, ásamt veraldarvinum á vegum Fjallabyggðar og Rauðku að vinna í skóginum, en það er kærkomin hjálp fyrir Skógræktarfélagið


Eftir mikla grisjun þarf að taka til í skóginum og koma grisjunarvið í burtu. Fleiri myndir HÉR



Athugasemdir

16.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst