AFL sparisjóður – ástæður sameiningar
Alkunna er að nánast allt bankakerfið á Íslandi féll haustið 2008, bæði bankar og sparisjóðir. Stóru bankarnir voru endurreistir á grundvelli innlendra lána og innlendra innlána fyrirrennaranna. Sparisjóðirnir stóðu flestir verulega laskaðir og margir þeirra voru á endanum sameinaðir einhverjum stóru bankanna, oftar en ekki samkvæmt ákvörðunum stjórnvalda og eftirlitsaðila. Markmiðið var að vernda hagsmuni viðskiptavina sparisjóðanna og viðhalda stöðugleika á fjármálamarkaði.
Staða AFLs verið erfið um langt skeið
Staða AFLs hefur verið erfið um langt skeið. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina er greint frá erfiðri stöðu sjóðsins og að hann hafi verið hætt kominn upp úr aldamótum. Þurfti Sparisjóður Mýrasýslu að leggja AFLi til nýtt stofnfé árið 2001 og svo aftur árið 2003 þegar Sparisjóður Mýrasýslu tók AFL endanlega yfir. Við yfirtöku Arion banka á Sparisjóði Mýrasýslu árið 2009 eignaðist Arion banki um 95% stofnfjár í AFLi sparisjóði sem samanstendur af Sparisjóði Siglufjarðar og Sparisjóði Skagafjarðar. Arion banki hefur ítrekað stutt við sjóðinn síðan þá til að koma í veg fyrir að stafsemi hans stöðvaðist vegna ónógs eigin fjár. Þannig er bankinn eini langtímalánveitandi sjóðsins og hefur auk þess fellt niður með skilyrtum hætti lán sem sparisjóðnum voru veitt að upphæð 2,4 milljarðar króna. Þetta var gert þrátt fyrir að aðkoma Arion banka að sjóðnum væri takmörkuð þar sem bankinn fór aðeins með 5% atkvæðavægi þrátt fyrir um 95% eignahlut. Þannig hafði Arion banki sem aðaleigandi sjóðsins ekki aðgang að rekstri og efnahag sjóðsins umfram það sem birtist í ársreikningum hans. Eðli málsins samkvæmt skapar slík staða óvissu.
Margt verið reynt til að eyða óvissu
Í tilraun til að leysa úr stöðunni og eyða óvissu um framtíð AFLs auglýsti Arion banki þegar á árinu 2011 stofnfjárhluti bankans í AFLi til sölu og gaf þar með áhugasömum aðilum kost á að koma að framtíðarrekstri hans. Aðeins eitt tilboð barst. Það var háð fjölda fyrirvara og eftir stuttar samningaviðræður varð ljóst að ekki yrði af sölu á sparisjóðnum. Við hjá Arion banka gáfum einnig stjórnvöldum ítrekað svigrúm til að koma að málefnum AFLs en sú viðleitni skilaði engu og vildu stjórnvöld ekki leggja sjóðnum til fjármagn. Þar sem ekki var unnt að selja sparisjóðinn gerði bankinn í desember 2011 öðrum stofnfjárhöfum tilboð sem var 75% yfir bókfærðu virði eiginfjár með það að markmiði að sameina sjóðinn bankanum. Tilboði bankans var almennt vel tekið og að þessum kaupum afstöðnum var hlutur bankans í AFLi kominn yfir 99%. Aðkoma bankans að sjóðnum var þó óbreytt og takmörkuð sem fyrr. Áframhaldandi óvissa var því um framtíð sjóðsins.
Mun alvarlegri staða en áður var talið
Samkeppniseftirlitið hefur verið þeirrar skoðunar að yfirtaka Aron banka á AFLi hefði samkeppnishamlandi áhrif á svæðinu og því ekki verið tilbúið til að samþykkja sameiningu nema að undangengnu söluferli. Því var nú í vor gerð sátt um að setja sparisjóðinn í söluferli í annað sinn. Til að undirbúa söluna fékk bankinn yfirráð yfir sjóðnum samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitisins 28. apríl, og skipaði sjóðnum nýja stjórn. Fengnir voru óháðir matsmenn til að meta stöðu sjóðsins til að unnt væri að útbúa sölugögn og veita áhugasömum kaupendum aðgang að nauðsynlegum upplýsingum úr rekstri sjóðsins. Þegar leið á vinnu þessara óháðu aðila kom skýrt í ljós hve alvarleg staða sjóðsins raunverulega er. Töldu þeir að lánasafnið væri ofmetið um tæpan milljarð króna og við það verður eigið fé sjóðsins neikvætt. Það var mér nokkuð áfall þegar ég var upplýstur um alvarleika málsins af stjórn sjóðsins. Stjórn AFLs upplýsti þegar Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og Samkeppniseftirlitið um slæma stöðu sjóðsins.
Hætt við söluferli til að afstýra frekara tjóni
Eftir að hafa farið vandlega yfir málið var það mat Fjármálaeftirlitsins að fjárhagsleg staða sjóðsins væri það alvarleg að til að afstýra frekara tjóni væri rétt að falla frá því söluferli sem farið var í gang. Í kjölfarið samþykkti Samkeppniseftirlitið að falla frá skilyrði um söluferli á AFLi sparisjóð áður en Arion banki sameinaði sjóðinn við bankann. Eftirlitið mat forsendur söluferlisins brostnar þar sem að AFL væri fjármálafyrirtæki á fallandi fæti.
Eigið fé sjóðsins er í dag neikvætt og þó endanleg niðurstaða þar byggi einnig á niðurstöðu dómsmála, þá myndi úrlausn þeirra ekki breyta því að staða sjóðsins er mjög alvarleg. Í þessu sambandi hefur samfélagssjóður sparisjóðsins verið nefndur. Sá sjóður hefur ekkert fjármagn í dag heldur á að fjármagna hann með því eigin fé sem er umfram stofnfé við slit á sjóðnum. Þar sem eigið fé sjóðsins er í dag neikvætt er ljóst að samfélagssjóðurinn mun ekki hafa úr neinu að spila við slit sjóðsins og möguleg niðurstaða dómsmála breytir þar engu um. Það er miður að tilteknir einstaklingar reyni að villa um fyrir almenningi og viðskiptavinum sparisjóðsins með óábyrgum málflutningi hvað þetta varðar.
Sameining er eini raunhæfi kosturinn
Væntanleg sameining AFLs og Arion banka er þannig bein afleiðing þess að staða AFLs reyndist vera mun alvarlegri en áður var talið. Sjóðurinn hefur um árabil verið í vanda sem ekki hefur verið hægt að taka á, m.a. sökum þeirrar óvissu sem að framan var rakin. Hinn ábyrgi og í raun eini kostur í stöðunni að mati okkar hjá Arion banka, og það mat er stutt af Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og óháðum matsaðilum, er að sameina sjóðinn Arion banka.
Arion banki stendur þétt að baki AFLi
Gera má ráð fyrir því að sú vinna taki um þrjá mánuði og á meðan verður starfsemi sjóðsins með óbreyttu sniði. Arion banki mun á þessu tímabili standa þétt að baki AFLi sparisjóði og veita honum þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er. Þetta á bæði við um ný útlán sem og innlán viðskiptavina. Við hjá Arion banka höfum alltaf litið á starfssvæði sjóðsins sem mikilvægt svæði og munum við leggja okkur fram um að veita öfluga þjónustu í Fjallabyggð, bæði á Siglufirði og Ólafsfirði sem og í Skagafirði.
Höskuldur H. Ólafsson
Bankastjóri Arion banka
Athugasemdir