Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi! 1 hluti

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi! 1 hluti “Þetta er algjört brjálæði,.......hér geta ekki flugvélar lent,.....nei, nei,........það er algjörlega

Fréttir

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi! 1 hluti

Bókarkápa Vind över Island eftir Jöran Forsslund
Bókarkápa Vind över Island eftir Jöran Forsslund

“Þetta er algjört brjálæði,.......hér geta ekki flugvélar lent,.....nei, nei,........það er algjörlega útilokað.”
Maður sér inn í þröngan fjarðarbotninn og þar liggja bátar hlið við hlið, svo margir að möstrin eru eins og þéttur skógur fyrir utan lítinn bæ með háa verksmiðju skorsteina á lítilli eyri sem sem er umkringd þverhníptum himinháum fjöllum, hversu há þau eru er ekki hægt að sjá vegna þokuslæðings sem hylur toppana."

Þessi orð eru skrifuð af hinum mikla Íslandsvini Jöran Forsslund sem kallaði sig Jörundur Karlsson í mörgum af sínum ferðalögum um Ísland á árunum 1950-54.

Í tilefni sumardagsins fyrsta er ykkur boðið í ókeypis („lestrar“) bíó rétt eins og Oddur og Guðrún í Nýja Bíó gerðu í denn.

Jöran skrifaði margar greinar um Ísland og Siglufjörð sem blaðamaður og ljósmyndari fyrir vikublaðið Vi sem var eitt stærsta tímarit Svíþjóðar á sínum tíma og kom úr í 650.000 eintökum. Úr þessum greinum varð seinna bók sem heitir „Vind över Island“ og sú bók var seinna notuð sem handrit fyrir 47 mín. kvikmynd í lit sem var fjármögnuð af Samvinnuhreyfingunni á öllum Norðurlöndunum og var hún til með ensku, íslensku, sænsku, norsku, dönsku og finnsku tali. Þið getið líklega fengið að sjá þessa kvikmynd á Strandmenningarhátíðinni 4-8 júlí í sumar.

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi er einn kaflinn í bókinni og mér finnst hann lýsa tíðarandanum sumarið 1953 á svo dásamlegan hátt að ég bara varð að þýða þetta og svo var það ekki verra að hann er að lýsa firðinum fagra af þvílíkri einstæðri virðingu og aðdáun að ég hef ekki séð betri samantekt um okkar ástkæra Siglufjörð.

Samt er hann bara tímabundinn gestur en „Glögt er gest augað“ og síðan tók hann margar frábærar ljósmyndir líka.

Fékk nýlega birtingarleyfi hjá dóttir Jörans en hún heitir Lena Fejan Forsslund og hún er ákaflega stolt yfir að einhver sýni þessu áhuga núna og haldi minningu föður síns lifandi.

Jöran var að mörgu leyti merkilegur maður og ég hef birt ýmislegt um hann áður og hér í lok kaflans getið þið lesið meira um hann.

En gjörið þið svo vel og gleðilegt sumar.

P.S:
Sagan byrjar með almennri umfjöllun um hverfulleika "Silfur hafsins" og síðan fer Jöran í "síldarleitarflug" með Snarfaxa frá Akureyri og síðar lendir hann með lífið í lúkunum í firðinum fagra og meirihluti sögunar er um Sigló.

 Mynd frá bls: 42,( mér finnst hún eiga betur við hér.)
Myndatexti: Snarfaxi tekur á móti pósti og vörum
 á götunni á Akureyri. Það er Kristján sem tekur á móti ferðatöskunni. Farþegaflugvél á daginn og síldarleitarflugvél á kvöldin.
(Útskýring: Þessi sjóflugvél er með hjól undir skíðunnum og gat keyrt upp á götuna og síðan rúllað niður í sjó.)

SÍLDer eitt af mikilvægustu orðum Íslands.

Þetta hefst allt í byrjun júlí og þú getur ferðast hvert sem er á þessari dularfullu Atlandshafseyju og vertu viss, fyrr en varir heyrir þú þetta orð.
Það svífur í loftinu og er eins og spriklandi spurningarmerki sem kemur stökkvandi upp úr hafinu og flýgur yfir fjöll, jökla og hraun.
Þetta orð vekur spennu, von, ótta og vonbrigði í sál manneskjunnar.

Allir eru tala um síldina.

Á forsíðum dagblaðanna eru miklar fréttir um gengi síldarvertíðarinnar og Ríkisútvarpið færir landsmönnum fréttir af síldinni í öllum sínum fréttatímum.

Síldin er glitrandi silfur hafsins sem kemur af blágrænum engjum sjávarguðanna.
EF hún kemur batnar hagur landsmanna verulega.

Kemur – kemur ekki ? Maður getur aldrei verið 100 % viss um það að hún láti sjá sig.
Síld er bæði happdrætti og fjárhættuspil eða kannski réttara sagt líkust risastóru pókerspili þar sem mikið er lagt undir. Örlög síldarpókerspilaranna hafa því miður verið þau allt frá 1944, á síðasta góða síldarári Íslands,  verið að allir ganga blankir frá þessu spilaborði þegar myrkur og stormar haustsins stöðva leikinn.

Þessi dularfulla, feita og fallega Íslandssíld hefur ekki látið sjá sig inni í fjörðum eða úti á hafinu kringum Ísland eins og hún var vön. Á einhvern furðulegan hátt hefur síldin villst á sínu hefðbundna sumarferðalagi þar sem hún annars er vön að koma úr vestri og fer síðan norður fyrir landið.  

Af hverju ? Það virðist enginn vita það með vissu en það eru svo sannarlega margir sem telja sig vita svarið við þessari gátu.

Alls kyns meira eða minna “vísindalegar” rannsóknir stangast á. Talað er um að hitabreytingar í hafinu breyti göngu síldarinnar í leit sinni að átu. Maður getur spurt sjálfan sig og velt vöngum sem leikmaður og reynt að skilja þetta allt saman.

En það virðist ekki vera til neitt eitt rétt svar og í guðanna bænum ekki krefjast þess að ég hafi svar við þessari gátu.

Síldartorfurnar sprikla sig áfram á einhver óútreiknanlegan hátt kringum landið. Stundum birtast þær við austurströndina eða úti við Jan Majen, síðastliðin sumur hafa Norðmenn og Færeyingar  veitt mikið norðvestur af Færeyjum. Það var ekki fyrr en 1953 sem Íslendingar sjálfir byrjuðu að salta síld um borð í bátum sínum, langt utan landhelgi sinnar.

En það merkilega er að suður á Faxaflóa hefur veiðst mikið af áður óþekktri tegund vetrarsíldar síðustu ár en hún er alls ekki af sama gæðaflokki og  stóra og feita Norðurlandssíldin.

Á Norðurlandi hafa verðmætar lýsis- og mjölverksmiðjur, með hundruðum milljóna króna bundnum í byggingum og vélum, staðið tómar næstum alla vertíðina. Fiskiflotinn hefur orðið að snúa heim með galtómar lestar. Lífið hefur verið erfitt og fábreytilegt í síldarbæjum norðanlands undanfarin ár. En þannig hefur það alltaf verið, upp og ofan, í bæjarfélögum sem eiga allt sitt undir síldinni.

Ef hún kemur ! Færir hún með sér líf og fjör og fullt af peningum í vasa bæjarbúa.  Ef hún hverfur, hverfur lífið eða réttara sagt: allt líf hverfur inn í einhverskonar óttakennda biðstöðu og það verður allt eitthvað svo ótrúlega hljóðlátt og tómlegt í öllum þessum smábæjum sem eru einangraðir af hafi og fjöllum.

En ég fékk alltént að upplifa þessa gullgrafarastemmingu sem grípur alla þegar síldinni þóknaðist að láta sjá sig í júlí þetta sumar.

Góð veiði hefur verið á Vestfjarðamiðum, síldin virðist aftur vera á réttri leið og koma úr vesturátt og ganga síðan norður fyrir land og samkvæmt kenningum sérfræðinga syndir hún seinna um haustið að Noregsstöndum þar sem hún er veidd feit og fín.

En aðalatriðið fyrir Íslendinga er að hún taki ekki of stóran sveig utan við landið.

Kannski verður þetta ekki enn eitt hörmungar síldarsumarið ?

Kannski og spurningarmerki ? Tvö orð sem eru leiðinda fylgifiskar síldveiða.

En dag eftir dag koma góðar aflafréttir héðan og þaðan og víða má sjá hvítan og daunillan reyk úr skorsteinum verksmiðjana. Stórir togarar sigla að landi með fullfermi og á Ísafirði sá ég með eigin augum hvernig skjótt var skipt um veiðafæri á einum síðutogara sem var á karfaveiðum, ísnum hent fyrir borð og hringnót fyrir síldveiðar sett um borð á mettíma.

Ef allt gengur vel í ár er talið að síldin geti gefið Íslandi tekjur uppá 300 – 400 milljónir. Síðustu ár hafa heildartekjur verið rétt rúmlega 30 milljónir á ári. 

(Hér koma tvær ljósmyndir frá bls. 59 og 60.)

Myndatexti: Siglufjörður – Klondyke síldarinnar. Hafgolan hefur sópað burtu rigningunni, síldarbátarnir farnir á miðinn og á síldarplönum og í verksmiðjum bíða menn spenntir eftir veiðinni.

Myndatexti:
Í dag eru Síldarstúlkurnar á Siglufirði húsmæður bæjarins . Hún kann þetta svo sannarlega, stendur í skýi af glitrandi síldarhreistrið, blóð og salt þyrlast í kringum hana. Haussker, magadrengur og saltar af mikilli innlifun.  (Einhver sem þekki þessa konu ?)

Út um gluggann á Hótel KEA horfi ég daglega á sjóflugvélar Flugfélags Íslands lenda og taka á loft á himinbláum sjónum á milli skærgrænna hlíðanna í firðinum. Stundum sé ég Catalina flugvél, en oftast kemur og fer “Snarfaxi” sem er Grimman sjóflugvél.

Kvöld eitt hringir síminn og ég heyri forstjóra flugfélagsins á Akureyri, Kristinn Jónsson, spyrja mig hvort ég hafi áhuga á að fara með í síldarleitarflug í kvöld ? Auðvitað vil ég það.

Á Akureyrir eru tveir flugvellir, annar er flugvöllur á landi rétt innan við bæinn. Þangað koma oftast DC-3 flugvélar sem detta niður úr skýjunum sem hylja fallatoppana og þær strjúka næstum fjöllin í firðinum áður en þær lenda. Þetta lítur stórhættulega út.

Hinn flugvöllurinn er einfaldlega sjálfur sjórinn í Eyjafirði.

Núna stend ég þarna niðri á þessari löngu götu sem liggur niður við höfnina í litlum hálfborga út á eyrina .
Á “miðri götunni” er flugstöð Snarfaxa. Ég hef aldrei áður á öllum mínum ferðalögum um þrjár heimsálfur séð svona flugstöð, hún er bókstaflega í miðbænum.

Farþegar geta gengið um borð beint af gangstéttinni og vörur og póstur er borinn úr bílum af götunni og beint inní vél.

Snarfaxi setur mótorana í gang og hitar þá upp smástund ef þess er þörf, fer síðan af stað hægt og rólega og rennir sér á silkismjúku vatninu, dregur upp lendingarhjólin og veður síðan á fullri ferð út fjörðinn með sjóinn rjúkandi og pískandi á rúðunum og tekur síðan á loft með bleytuna rennandi eins og þunna slæðu af vængjum og skrokk.

Snarfaxi fer þegar veður leyfir daglega á milli Akureyrar og Siglufjarðar og þar fyrir utan á þessum árstíma eru farin kvöld- og næturflug út í víðáttuna við norðurströndina í leit að síldartorfum.

Við erum á leiðinn út í þessa víðáttu núna, fljúgum hærra og hærra út fjörðinn sem verður breiðari og breiðari og við skiljum við grænar hlíðar þar sem bláir skuggar dala og skála leika sér við snjóinn.
Við fljúgum út í þá ótrúlegustu víðáttu sem ég hef nokkur tímann séð. Ég legg varla í að segja frá þessari ólýsanlegu fegurð, þessari litasinfóníu með svo skörpum litum sem leita upp í sjálft himnaríki og óendaleikann þegar einmana og lítil flugvél flýgur inn í eilífðina.
Þetta er svo dásamlega fallegt að ég get varla tekið þetta inn með skilningarvitum mínum, get bara horft og horft og ég finn hvernig ég sjálfur hverf og verð að litlum ómerkilegum punkti sem er ekki í neinum tengslum við umheiminn.  

Mig grunar að hinir þrír um borð hafi frekar séð þetta sama svona meira af gömlum vana. 
Ég sé bara breitt bakið á flugstjóranum, honum Aðalbirni Kristbjarnarsyni, og hægri höndina sem annað slagið hreyfir létt við stýripinnum vélarinnar. Við hliðina á honum i “Cockpit” situr aldraði togaraskipstjórinn Einar, síldarleitarsérfræðingur. Langur og mjór sjóhundur með hatt sem klifraði um borð á Akureyri með stórar rúllur af sjókortum undir hendinni.
Beint fyrir framan mig situr aðstoðarflugstjóri Snarfaxa sem ég náði að ræða aðeins við áður en við fórum af stað. Hann er einn af mörgum flugmönnum Íslands sem hafa sótt sér menntun í annað hvort Bandaríkjunum eða í Englandi. Kristján Mikaelsson fór til þess fyrrnefnda og það sést á látbragði hans sem er skemmtileg blanda af opinskáum kanastíl og látlausri íslenskri vinsemd og kurteisi.

Þetta eru traustir og góðir ferðafélagar og tíminn líður hratt þá stuttu stund sem það tekur að fljúga út 60 km langan Eyjafjörðinn, það tekur rétt rúmlega korters flug áður en maður sér hið víðáttumikla síldarhaf breiða úr sér spegilslétt út í eilífðina.

Í þessari óendalegu víðáttu munum við fljúga  fram og til baka í fimm klukkutíma og leita að síldartorfum.
Einar situr með sjókortin í kjöltu sér og horfir stöðugt í gegnum kíkinn sinn út um gluggann í stjórnklefanum.  Hann er nú klárari í þessu en flestir aðrir og það er útilokað að haukfrán augu hans missi af síldartorfum í þessu blíðskapar veðri.
Síldartorfurnar koma oft upp að yfirborði sjávar og sjást þá sem stórir svartir flekkir með óreglulegu munstri. Undir þessum blettum synda milljónir af glitrandi, spriklandi síld á leið sinni frá vestri til austurs.

Eftir korters flug til viðbótar fljúgum við lágt yfir litla eyju sem er girt bröttum klettaveggjum, ofan við klettana eru skærgræn tún með hvítum kindum á beit, meðfram ströndinni er mökkur af sjófuglum sem mynda smá skýjahnoðra í mínum flugvélaaugum.

Þetta er Grímsey, nyrsti punktur Íslands ef frá er talin hin litla óbyggða Kolbeinsey sem liggur lengra úti í norðvesturátt.

Hér búa rétt yfir hundrað manns á mörkum hins byggilega heims. Ég varð nú reyndar frekar vonsvikinn yfir því að hafa ekki getað heimsótt Grímsey en það er erfitt að komast þangað. 

Það fer strandferðabátur þangað aðra hverja viku og sjóflugvélar lenda þar ekki, bæði vegna erfiðleika að ná landi og sérstaklega vegna hættunnar sem því fylgir að fljúga inní fuglager sem getur skemmt hreyfla og rúður.

Árið eftir að ég var þarna á ferð var reyndar opnaður flugvöllur, 1954, þannig að núna er mun einfaldara að komast út í Grímsey.

Þessi mynd er ekki úr bókinni, fékk hana um daginn frá félaginu "De seglade frá Tjörn" Stórkostleg ljósmynd sem sænskur sjómaður á skútunni Regína tók sumarið 1949.
Á myndinni sést sænsk skúta við Hafnarbryggjuna og sjóflugvél, kannski Snarfaxi, hver veit.... og svo slippurinn sem nú er horfinn.  

Ég minnist þess að einhver hafi sagt mér að íbúar eyjunnar séu allir sjálflærðir skákmeistarar.

Líklega vegna þess að þeim gefst örugglega nægur tími á veturna til að æfa sig í þessari þjóðaríþrótt á þessari eyju þar sem norðurheimskautsbaugurinn sker sig í gegnum hana miðja.
Mér er sagt að hér þar séu bæði karlar og konur sem hafa aldrei farið í land.

Nú sendi ég í huga mér góða kveðju niður til prestsins í Grímsey en hann er Skoskur maður sem kom til Íslands sem knattspyrnuþjálfari en hann varð innlyksa í seinni heimstyrjöldinni og gerið sér þá lítið fyrir og  lærði til prests í Reykjavík.

Við fljúgum fram og tilbaka, fram og tilbaka yfir þetta víðáttumikla haf í leitarlínum á milli Grímseyjar og Langanes og loksins, loksins er lánið með okkur

Einhversstaðar mitt á milli Grímseyjar og vitans á Rifstanga verða allt í einu mikil læti um borð í Snarfaxa. Einar gamli bendir ákaft niður á hafsflötinn og veifar höndunum og öskrar:

síld.......síld......SÍLD!

Eftir smástund sé jafnvel ég óreglulega grásvarta flekki í djúpinu. Gleðin um borð er einlæg og mikilfengleg, allir benda og æpa með bros á vör.

Aðalbjörn lætur Kristján taka við stjórninni og fer aftur í vélina þar sem hann breiðir úr sjókortinu og byrjar að reikna út nákvæma stöðu síldartorfunnar. Kristján leggur Snarfaxa í mjúka hliðarsveiflu og flýgur í hringi yfir torfurnar.

Augnabliki síðar stímir allur síldarflotinn við Norðurland að þessum stóru síldartorfum.

“66 gráður, 24´ breiddar , 17 gráður, 19´ lengdar.”

Fullt af bátum sem eru okkur ósýnilegir heyra í talstöð Snarfaxa og loftskeytastöð Síldarleitar Ríkisins á Siglufirði hefur einnig hjálpað til við að dreifa þessum gleðiboðskap.

Öll erlendu síldarskipin sem stödd eru við Ísland geta hlustað og hafa not af síldarleitarflugi Íslendinganna. Útlendingum er bannað að stunda síldveiðar inní fjörðum landsins og það hefur skapað nöldur og illsku yfir að litla Ísland skildi gerast svo frekt að færa landhelgi sína út í 4 sjómílur. 

Á þeirri stund þegar sem Einar fann síldartorfurnar sá ég bara örfáa báta sem líktust litlum punktum út við sjóndeildarhringinn en þegar við komum til baka nokkrum klukkutímum seinna eru þegar rúmlega 70 bátar komnir á staðinn. Maður getur líka séð að margir bátar eru búnir að leggja út bæði hringnót og reknet.

Netakúlurnar úr gleri glitra eins og silfurlitaðar jólakúlur í miðnætursólskyninu sem lýsir lágt og ákaft úr norðurátt.

Eftir síldarleitarflugið segir Einar að hann hafi séð íslenska, norska, færeyska, danska og sænska báta kringum torfurnar. Veit ekki hvernig í ósköpunum hann gat séð það úr þessari hæð þegar við flugum þarna yfir stutta stund.

Sjálfur hékk ég hálfur út um opna lúgu þar sem ég var að reyna að ná góðum ljósmyndum af flotanum en það gekk ekki vel þar sem við vorum í of mikilli hæð.  Að auki var ég gramur út í sjálfan mig fyrir að setja mig án ljósmyndalauna í lífshættu, ég hefði getað dottið út og orðið fiskafóður í einhverri af þessum síldartorfum.

Án Snarfaxa þyrftu sjómennirnir að leita lengi að síldinni og kannski fyndu þeir hana aldrei. Síldarleiftraflugið hefur orðið til mikilla framfara og raunar byltingar og er góð og örugg aðferð til að fara yfir stór hafssvæði á stuttum tíma.

En hvað hjálpar það þegar síldin kemur ekki.

Eins og áður var sagt er aðalverkefni Snarfaxa að sinna áætlunarflugi á milli Akureyrar sem er höfuðborg Norðurlands og Siglufjarðar sem er örsmá útgáfa af Klondyke síldarinnar.

Nokkrum dögum seinna er ég aftur kominn um borð í Snarfaxa og þegar Siglufjörður birtist loksins í rigningarmóskunni, hugsar maður:

“Þetta er algjört brjálæði,.......hér geta ekki flugvélar lent,.....nei, nei,........það er algjörlega útilokað.”

Maður sér inn í þröngan fjarðarbotninn og þar liggja bátar hlið við hlið, svo margir að möstrin eru eins og þéttur skógur fyrir utan lítinn bæ með háa verksmiðjuskorsteina á lítilli eyri sem sem er umkringd þverhníptum himinháum fjöllum, hversu há þau eru er ekki hægt að sjá vegna þokuslæðings sem hylur toppana.

Mér líst ekkert á þetta og þrátt fyrir að ég sé gamall reyndur áhugaflugmaður er ég gjörsamlega að fara af taugum þegar vélin flýgur inní fjarðarbotninn og stímir fyrst beint að einum klettaveggnum og leggur sig síðan á hliðina í krappri beygju og þá birtist næsti klettur og síðan sá þriðji. Í þessari stund var ég svo hræddur að ég efaðist um að ég fengi nokkur tímann að sjá mitt gamla góða Sverige aftur.

En áður en ég náði að hugsa meira út í það þá finnur Snarfaxi auðan blett í bátaskóginum og lendir með sjóinn frussandi í allar áttir og hægir síðan á sér eins og ekkert hafi í skorist .

Þessi mynd er ekki úr bókinni, fékk hana um daginn frá félaginu "De seglade frá Tjörn" Tekin 1949 af áhafnarmeðlimi á skútunni Regína. 
En svona leit þetta kannski út þegar Snarfaxi var að leita að auðum bleytti til að lenda á. Takið eftir sæsnku bátunum sem liggja hlið við hlið sunnan við Hafnarbryggjuna bundnir við hina svokölluðu "Sænsku staura"

Flugstjórarnir Aðalbjörn og Kristján kinka kolli til mín framan úr stjórnklefanum og þeir eru svolítið hissa á því hvað ég er fölur í framan.
Það er fyrst núna sem ég skil hversu ótrúlega duglegir íslenskir flugmenn eru. Þeir þekkja sína firði og fjöll eins og buxnavasana sína.

Það er líka hægt að komast landleiðina til Siglufjarðar á nýlögðum vegi sem liggur yfir 600 metra hátt fjallaskarð. Vegurinn hlykkjast upp og niður brattar fjallshlíðar og á stuttum kafla er vægast sagt hrikalega hátt niður þegar maður kíkir út fyrir vegkantinn. Þetta myndi nú ekki kallast góður vegur á sænskan mælikvarða en hann dugir og kemur að góðum notum hér, þrátt fyrir að bílferð frá Akureyrir taki að minnsta kosti 4  tíma ef allt gengur vel. Flugið hingað tók bara tæpar 20 mínútur.

 Skjáskot úr kvikmyndinni Viljans merki (Vardagen saga) frá sumrinu 1954. Jöran og félagar í Willys jeppa á leiðinni yfir Siglufjarðarskarð. 

Það var ekki fyrr en um mánaðarmótin júní júlí sem hægt var að opna Skarðsveginn og þá var notuð stór jarðýta sem þurfti að éta sig í gegnum 7 metra háa snjóskafla.
Einn morgun þann 22 júlí þegar ég var staddur þarna vakna ég umkringdur af hvítum fjöllum. Það hafið snjóað svo mikið um nóttina að það varð að setja snjókeðjur á áætlunarbílinn þrátt fyrir að veghefill færi á undan. 

Kringum 10 mánuði á ári er þessi vegur lokaður vegna snjóþyngsla. Áætlunarflugið fer þegar veður leyfir allt árið og strandskip kemur nokkrum sinnum í viku en þær ferðir eru líka háðar veðri, vindum og hafís.

Frá miðjum nóvember sér ekki til sólarinnar í 9 vikur, hún hefur ekki orku til að hefja sig alla leið yfir fjallagarðinn mikla sem felur þennan fjörð og hún er löngu sofnuð áður en hún kemst alla leið norður fyrir til að skína inn fjarðarkjaftinn. 

Í janúar þegar blessuð sólin kíkir loksins yfir fjallatoppana þá fá sér allir kaffi og rjómapönnukökur. Sólin verðskuldar sína eigin hátíð á Siglufirði.

Á sumrin er síldin drottning og það sem eftir er árs er vetur konungur allsráðandi með snjó og myrkri.
Innarlega í firðinum er rekur bæjarfélagið mjólkurbú með 80 kúm sem sjá börnum bæjarins fyrir nýrri mjólk allt árið. 
En þrátt fyrir að þetta mjólkurbú sé aðeins í þriggja km fjarlægð frá bænum gerist það stundum að ekki er hægt að flytja mjólkina í bæinn vegna snjóþyngsla. Hjörtur Hjartarson sem er kaupfélagsstjóri (í þetta skiptið sem ég heimsæki Siglufjörð) sagði mér að sonur hans hafi haft það gott í vetur, hann þurfti ekki að ganga niður stigann heima hjá sér til þess að fara út að leika sér. Nei, hann renndi sér á rassinum á snjókafli út um gluggann á annarri hæð.

Eftir að síldarvertíðinni lýkur er um stuttan tíma atvinna við að hugsa um síldartunnurnar sem saltað var í um sumarið. Það þarf að nostra mikið við þær, snúa þeim reglulega og pækla. (fylla á með saltlausn)
En eftir að síðustu tunnunum er skipað út seinna um haustið leggst  bærinn í vetrardvala.  Margir fjölskyldufeður verða nú að gera sig klára í að fara úr bænum áður en snjóþyngslin hindra þá í leit sinni að vetrarvinnu víðsvegar um landið. Um veturinn er ekki mikla atvinnu að fá hér fyrir aðra en bæjarstarfsmenn og verslunarfólk.

Vetraratvinnuleysi er stórt vandamál hér á Siglufirði og ekki bætir úr ef sumarið er lélegt síldarsumar og enginn kostur á að leggja pening til hliðar, pening fyrir langan og erfiðan vetur.
Margir sem hafa byggt sér og sínum hús hér í bæ, reyna nú að selja eignir sínar til þess að geta flutt í burtu, en hver vill svo sem kaupa hús hér og flytja hingað ?

En sumarið kemur nú samt til Siglufjarðar.
Í fjallahringnum má sjá silfurlitaða læki vaxa og glitra í sólskininu sem flæðir um græn engi og tún og snjóskaflar í skálum og giljum bráðna og mynda þessa silfurlæki sem hjálpa til við að undirstrika blámann í sjónum.

Og í júlí vaknar Siglufjörður og þá fyrst byrjar alvara lífsins sem gleypir allt og alla.

Ég hverf beint inn í þennan ævintýraheim.

Fjöldinn allur af síldveiðibátum frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku og Færeyjum liggja hér við bryggjur eða við akkeri úti í firðinum.  Þetta er nú samt bara lítill hluti af þeim 500 báta síldveiðiflota sem nú hefur safnast saman við Íslandsstrendur.

Stórt norskt gufuskip leggst að bryggju og byrjar að losa 15.000 tómar síldartunnur, farmurinn nær upp yfir skorsteina skipsins.

 Tunnur í túsundatali.

Við bryggju framan við síldarverksmiðju bæjarins sem hefur fengið nafnið “Rauðka” vegna litarins á þaki verksmiðjunar leggst stór togari að og stuttu seinna er byrjað að landa á fullu. Það gengur fljótt fyrir sig, þar sem krani með innbyggðu færibandi stingur trjónunni niður í lestinna og byrjar að sjúga upp síldina að sjálfvirkri vog sem mælir magnið í málum sem eru hálfur annar hektó lítri hvert.  Síldin færist síðan fljótt á löngu færibandi niður í stórar þrær. Þar er hún látin liggja í nokkra daga áður en síldin er færð áfram inní risastór suðukör og pressur verksmiðjunnar. Í pressunum pressar maður dýrmætt lýsi úr soðinni síldinni og þaðan fer síðan soðvökvinn inní skilvindur af sænskri gerð og úr þeim kemur síðan dýrmætt lýsið sem síðan er dælt út í stóra tanka.  Afgangurinn er þurrkaður og malaður niður í fiskimjöl.

Þetta eru í rauninni tæknivæddustu verksmiðjur landsins, þessar “síldarlýsisverksmiðjur.” Ef þær fá nægilegt hráefni geta þær aflað gríðarlegra tekna fyrir land og þjóð.
Íslenska ríkið rekur fjórar síldarverksmiðjur á Siglufirði þar á meðal er afkastamesta verksmiðja landsins ef ekki heimsins stærsta fiskimjölsverksmiðja.  Hún ein getur afkastað 15.000 málum af síld á sólarhring. Allar fimm verksmiðjur Siglufjarðar hafa samanlagða afkastagetu uppá  32.000 mál á sólarhring.

Því miður stendur þessi framleiðslugeta í engu samhengi við magnið af hráefni sem borist hefur að landi síðustu árin. Sumar af þessum verksmiðjum voru vart stafræktar í meira en 2 sólarhringa í fyrra.

Sem dæmi má nefna að samanlagðan afla sem barst að landi til allra síldarverksmiðja Íslands 1950 hefðu verksmiðjunar á Siglufirði getað unnið á 7 sólarhringum.
Þetta sýnir okkur hversu gríðarleg fjárhagsleg áhætta er fólgin í þessari atvinnugrein og hversu illa þessar fjárfestingar skila sér til samfélagsins. Það er mjög kostnaðarsamt að reka þessar verksmiðjur sem krefjast viðhaldsvinnu og starfsmanna allt árið og það verður að hafa fullan mannskap á vöktum yfir háannatímann hvort sem síldin kemur eða ekki.

1944 var síðasta góða síldveiðiárið og þá barst að meiri síld en verksmiðjur landsins gátu unnið og eftir það voru byggðar margar fiskimjölsverksmiðjur sem nú skortir hráefni. 

Vissulega hefur verið reynt að snúa verksmiðjurekstrinum að öðru hráefni en síld. Eins og t.d karfa, (sebastes marinus) sem er rauðglitrandi djúpsjávarfiskur og mig minnir að á sænsku heiti þessi fiskur “större kungsfisk”. Það er áhugavert og mikil litadýrð í því að sjá stóran togara landa fullfermi af karfa sem líka er unnin í djúpfryst flök.

Þessi mynd er ekki úr bókinni, fékk hana um daginn frá félaginu "De seglade frá Tjörn" Togari og síldarskútur á Siglufirði.

Sú staðreynd að síldinni þóknaðist að breyta ferðalagi sínu kringum Ísland síðustu ár hefur virkilega haft alvarleg áhrif á tilveru allra þessara stóru fiskimjöls- og lýsisverksmiðja. Þegar síldin birtist allt í einu langt út af Austfjörðum er alltof langt að flytja aflann og hráefnið og er hann við það að eyðileggjast á svo löngu ferðalagi. 

Reynt hefur verið að leysa þetta vandamál á ýmsan máta. Í Reykjavík liggur t.d 80.000 tonna stórt skip við bryggju sem var breytt í fljótandi verksmiðju sem gat fært sig eftir ferðalagi síldarinnar. En þetta skip gerði nú enga stormandi lukku, því það kom í ljós að vinnslan um borð krafðist svo mikils ferskvatns að ekki var hægt annað en að sigla í land og tengjast vatnsveitu næsta bæjarfélags. Í hvert skipti sem maður kemur til Reykjarvíkur stingur það í augun að sjá þetta stóra skip ryðga meira og meira með hverju ári sem líður og í sumar tók ég eftir því að það var búið að fela það í annarri vík.

Það eru fyrst og fremst síðutogarar sem sjá mjölverksmiðjunum fyrir hráefni.

Þeir gera oft góða túra, mér var sagt að fyrir stuttu hefði einn togari komið að landi með 4000 mál af karfa, sem gaf 400.000 kr. í vasa útgerðarinnar.   

Togararnir eru ekki bestu bátarnir til síldveiða ef það á nota síldina til söltunar og sem sagt það var ekki fyrr en sumarið 1953 sem Íslendingarnir fóru sjálfir að salta síld um borð í bátum sínum.

Árla morguns bankar Hjörtur kaupfélagsstjóri ákaft á herbergishurðina hjá mér og segir bara eitt orð hátt og snjallt: 

SÍLD!

Þetta er miklu meira töfraorð hér á Siglufirði en annars staðar á landinu.

(hér koma ljósmyndir með texta frá bls. 69, 70)

Myndatexti: (Stór mynd) Aðalgatan á Siglufirði.  Það hefur örugglega hvergi í víðri veröld sést jafn margt fólk frá jafn mörgum síldarþjóðum og hér á þessari götu. Á miðri götunni er belja að spóka sig. Það er samt ekki sú belja sem sjómennirnir hafa mest gaman af.  Það er til önnur kýr (geit) sem með gleði þiggur vindla og sígarettur sem hún tyggur eins og hey. 

(Athugið ! það sést í rassinn á beljunni á bakvið guttana í miðri myndinni)
(það var geit en ekki kýr sem varð fræg fyrir að éta sígarettur og drekka brennivín á Sigló) innskot frá Örlygi.

Myndatexti: (Lítil mynd) Um leið og það fréttist að síldarbátar séu á leiðinni í land flýtir
 “ræsirinn” sér að banka á gluggann hjá síldarsöltunarstúlkunum.

(Það eru nokkuð áræðilegar heimildir fyrir því að strákurinn á myndinni sé Þórir Björnsson 15-16 ára gamall, myndin er tekin af Jöran þegar hann kemur til Sigló líklega 1950 eða 1951, konan á myndinni er óþekkt og húsið líka en þetta gæti verið Lúthershúsið við Norðurgötu.)

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 2 hluti.

Þýðing Jón Ólafur Björgvinsson

Örlygur Kristfinnsson hefur veitt ómetanlega aðstoð með orðaval, setningarvillur og prófarkalestur.
Texti og myndir birtar með leyfi frá Lena Fejan Forsslund og félagsins "De seglande frá Tjörn" og frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Skjáskot úr kvikmynd birt með leyfi frá Korperativa förbundet i Sverige. (Samvinnuhreyfing Svíþjóðar.)
Lagfæring á gæðum ljósmynda: Jón Ólafur Björgvinsson.
Lagfæring á gæðum á mynd og hljóði í kvikmynd gerði Gunnar Smári Helgasson. 

Kynning á Jöran Forsslund í tímaritinu Samvinnan
 Samvinnan, tölublað 2 1955

 

Aðrar greinar um Siglufjörð og vesturströnd Svíþjóðar: 

Minningar um síldveiðar við Ísland 1946-48.

SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! 

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst