OKKAR FÓLK: Aegir Björnsson í Smögen

OKKAR FÓLK: Aegir Björnsson í Smögen Það er eins að sumir brottfluttir Siglfirðingar hafði hreinlega horfðið af yfirborði jarðarinnar þegar þeir fluttu

Fréttir

OKKAR FÓLK: Aegir Björnsson í Smögen

Ægir Björnsson frá Smögen
Ægir Björnsson frá Smögen

Það er eins að sumir brottfluttir Siglfirðingar hafði hreinlega horfið af yfirborði jarðarinnar þegar þeir fluttu frá Sigló, bara nánustu ættingjar vita eitthvað um þeirra hagi og líf.

Ægir Björnsson er einn að þeim en hann hefur búið í Svíþjóð í 50 ár, nánar tiltekið á fallegri eyju sem á sína eigin síldarsögu sem auðvitað hefur tengingu við fjörðinn fagra.

Þessi dásamlega fallega eyja heitir Smögen og liggur í ca 120 km. fjarlægð frá Gautaborg og hún er límd við land með hárri brú frá öðrum fallegum bæ sem heitir Kungshamn.

Þegar ég spurði Ægir hvort að hann fengi ekki stundum heimþrá ?
Þá svaraði hann strax: NEI, ég er aldrei með heimþrá og ég get alveg skilið það þegar maður lítur í kringum sig í þessu litla „síldar“ sjávarþorpi sem líkt og Sigló hefur umkring 1.200 íbúa, haf, bryggjur og bátar út um allt.......næstum eins og Sigló var í denn.

Hann er „heima“ þar sem hann er núna.

Nútíma tækni eins og tölvur og Internet gerir okkur kleift að finna vini og ættingja sem við höfum ekki séð lengi en Ægir er ekkert fyrir svoleiðis drasl....sambýliskona mín sér um svoleiðis dót, ég nenni ekki að standa þessu....segir hann samtímis sem hann opnar lokið á eldgömlum „Gemsa farsíma“  og svarar á sænsku eins og innfæddur útlendingur.

Samt er hann mikill tæknitrítill og uppfinningarmaður á öðrum sviðum.

Við gerðum svolítið grín af þessu með „tungumála vandræði“ þegar við hittumst í Folkets Hus í Kungshamn en ég hafði hringt í Ægir fyrr í vikunni og það var ekkert mál að finna hann í símaskránni hann hafði ekki breytt þessu fallega íslenska nafni mikið sem hann ber stoltur. 

Bara látið skrifa það pínu öðruvísi. Æ er ekki til sem hljóð í sænsku en með ae verður þetta næstum rétt í munni svíanna. 

Ljósmyndari: Sigurbjörg Óskarsdóttir.
Ægir eitthvað að "ganntas" með sólgleraugu og að gera sig til. Hann var að krefjast þess að fá 30 skr fyrir hverja mynd sem ég myndi birta af honum en úr því að það var ekki hægt að senda peninga í þessa "Talstöð" sem hann notar sem snjallsíma þá fékk hann ekki krónu fyrir þetta viðtal.
Við hliðina á Ægi stendur Birgir Eðvarðsson (Biggi Ölmu) Siglfirðingur og síðan greinarhöfundur og lengst til hægri er Jan Uddén safnfræðingur,  síldarsögumaður og fuglaskoðari sem hélt fyrirlestur við opnun sýningarinnar. En hann mun koma á Norrænu strandmenningarhátíðina á Sigló í summar sem einn af þremur starfsmönnum Bohusléns safnsins. 

Varðandi tungumála vandræði minnumst við líka á félaga föður hans, hin danska Johansen en þeir gerðu út dýpkunarprammann Björninn í áratugi heima á Sigló. Það skildi engin Johansen nema konan hans og börn og barna börn.

Við vorum greinilega að verða alveg eins og Johansen,  ég og Ægir og svo ruglaði það hann svolítið í ríminu að allt í einu vera innan um fjóra aðra Íslendingar og við vorum þrír frá Siglufirði innan um ca 100 svía sem komu á sýninguna „På väg mot Island” sem fjallar um síldveiðar svía við Íslandsstrendur á síðustu öld og margir af þeim komu frá Smögen. Hann talaði stundum íslensku við síldarsögu svíanna sem sem voru þarna og sænsku við okkur hin frá Íslandi, en ég var svosem ekkert skárri sjálfur.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinnsson.
Aage Johansen og Björn Þórðarsson.

Þessi sýning verður sett upp við Síldarminjasafnið í sumar og fljótlega kemur ferðasaga með mörgum myndum frá Smögen og Kungshamn hér á siglo.is.

Þrátt fyrir að Ægir sé ekki til í stafrænu formi og að ég hafi ekki séð manninn á mynd eða í lifandi formi í yfir hálfa öld þá var það ekkert mál að þekkja hann í þessum fólksfjölda sem var þarna samankominn. Hann sver sig í ættina.....líkur Bjössa Þórðar föður sínum og líkur bræðrum sínum í útliti og hreyfingum.  Það er sami grallarasvipurinn á þeim öllum, Þóri, Sverri (Vella), Bigga Björns og Auði systur þeirra líka. 

Þar fyrir utan virðist þessi fjölskylda vera með undanþágu frá náttúrulögmálum lífsins, þetta fólk eldist ekki.....er einhvern veginn sí ungt í anda og útliti.

Um leið og ég tók í höndina á honum þá sagði Ægir.....já nú man ég eftir þér.....sem litlum gutta að leika sér í garðinum hjá Júllu mömmu á Hafnargötu 6.
Já segi ég, langamma mín hún Jóna Möller bjó í húsinu við hliðina og ég þar var ég oft og bætti við að Júlla var ein af mörgum auka ömmum mínum í suðurbænum á þessum árum og fer að segja honum að ég hafi skrifað um þetta í greinum hér á siglo.is sem heita Göngutúr um heimahaga og að einn kaflinn heitir einmitt Ömmur.

Svo mundi ég að Ægir er ekki mikið á netinu og ég lofaði að skrifa þetta út og sleikja frímerki og pósta þessu til hans á gamaldags máta. 

Við þessi orð drógst hans hugur hans inní gamla minningu úr Hafnargötunni.........og að þessu stóra ljósgræna bárujárnshúsi sem hann ólst upp í og það stendur þar enn beint fyrir ofan Roaldsbrakkan.

Já hún langamma þín bjargaði mér einu sinni frá bráðum dauða þegar ég var á heimleið með mjólk sem ég hafði sótt niður á eyri fyrir mömmu. Ég hitti síðan á heimleiðinni hrekkjulóma beint fyrir neðan gluggan hjá Jónu Möller og þeir gerðu sér lítið fyrir og heltu niður mjólkinni í stóran djúpan poll og tóku síðan mig og henntu mér í pollinn og voru á góðri leiða með að drekkja mér þegar langamma þín bankaði í eldhúsgluggan og hræddi þá.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinnsson.
Í mínum minningum er þetta hús ljósgrænt en þarna er búið að mála það í einhvejum skrítnum lit sem ég kann ekki nafnið á.

Já, svaraði ég, hún Jóna langamma hefur bjargað mér og mörgum öðrum frá bráðum dauða með því að sitja við þennan glugga 24/7 alla daga ársinns og ég man líka eftir fleirum hættulegum drullupollum sem maður gat drukknað í á malargötum bæjarinns. 

En nú þarf ég að koma mér að því að spyrja hann að því sem allir vilja vita!

Hverning stóð á því að þú og þínir enduðu hér í Smögen ? 

Og svar hans og saga í stuttu máli sannar að lífið er oft fullt af tillviljunum þar sem eitt gefur annað og síðan verður þetta óvart 50 ára saga.

Það var algjör tilviljun að við lentum akkúrat hér. Ég var stýrimaður á Haferninum og við silgdum til Uddevalla. Konan mín fyrrverandi sem var hálf norsk átti íslenska vinkonu sem bjó hér í Smögen og við skruppum í heimsókn. Úr þessu spratt sú hugmynd að við myndum prufa að búa hér í nokkra mánuði og fór konan á undan með börnin, ég sjálfur þurfti að vinna sem stýrimaður á Haferninum i 3 mánuði áður en ég fékk mig lausan. Þegar ég kom loksins út þá átti fjölskyldan vart pening fyrir mjólkurlíter og það var bara að skella sér í vinnu eins og skot.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinnsson.
Haförninn

Fyrst vann ég á netaverkstæði og þá kom sér að góðum notum að ég hafði unnið hjá Jóni i netagerðinni á Sigló frá 13 ára aldri og þar lærði maður ýmislegt sem kom að notum núna.
Það spurðist út hér að ég væri nokkuð góður í að splæsa víra og var ég þá oft fenginn til að laga víra sem drógu ferjuna á milli lands og eyjar hér áður en brúin kom en þeir slitnuðu oft og svíarnir voru alveg gáttaðir á að ég var fljótari að þessu einn en þeir sem voru fjórir og fimm í þessu. Þeir notuðu einhverjar forneskju aðferðir við þetta. 

Brúin frá Kungshamn yfir á Smögen er mjög svo tignarleg. Þarna undir brúnni gekk þessi "Víraferja" hér áður fyrr.

Netagerðarvinnan var svo illa borguð að ég ákvað að verða aftur stýrirmaður og ég var um tíma á stórum tankskipum sem voru gerð út frá Skerhamn en annars var ég lengst af verkstjóri hjá ABBA síldarveksmiðjunni, „bassaði“ þar yfir 150 konum og körlum.

Síðan hefur ætíð fylgt mér tækniáhugi (Allt nema tölvutækni greinilega) og ég hef verið með eigið fyrirtæki lengi, meðal annars fann ég upp sjálfvirkt línulagningar kerfi fyrir línubáta og síðan er ég meðeigandi í fyrirtæki sem framleiðir síjur sem hreinsa notaða smurolíu o.fl.
(Sjá mynd hér undir)

Hægt er að lesa meira um fyrirtækið Europafilter hér: https://europafilter.com/

Tíminn líður fljótt, sérstaklega þegar maður hittir skemmtilega Siglfirðinga og það runnu margar sögur á sænsku og íslensku út úr munninum á þessum eldhressa unglingi sem er að verða 78 ára en þær verða ekki sagðar hér og nú.

Ægir biður innilega að heilsa öllum vinum og vandamönnum heima á Íslandi og sérstaklega á Sigló.

Takk fyrir skemmtilegt spjall Ægir Björnsson og vonandi hittums við fljótlega aftur.

Texti, myndir og myndvinnsla
Jón Ólafur Björgvinsson
(Nonni Björgvins)
Og Sigurbjörg Óskarsdóttir.
Aðrar myndir eru birtar með leyfi frá ljósmyndasafni Siglufjarðar.


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst