Pílagrímaferð mín í Bruggsmiðjuna Kalda
sksiglo.is | Almennt | 09.05.2014 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 661 | Athugasemdir ( )
Fyrir stuttu síðan átti ég leið inn á Akureyri eftir að hafa fengið mér pylsu á Siglufirði, Ólafsfirði og
Dalvík.
Það var virkilega gott veður þegar ég átti leið þarna um og þorstinn alveg hreint að drepa mig. Þá mundi ég eftir
því að það er bjórverksmiðja á Árskógsandi (stundum er maður bara eins og Hómer Simpson, maður hugsar bara um mat og drykk).
Það var ekkert annað í stöðunni en að taka skarpa vinstri beygju og bruna á Árskógsand og leita að verksmiðjunni og slökkva
á símanum ef hún Ólöf myndi nú taka upp á því að hringja í miðri skoðunarferð.
Leitin var nú frekar stutt því við manni blasti Bruggsmiðjan Kaldi rétt áður en maður kemur inn í þorpið. Þegar ég
kom þarna að voru 2 starfsmenn Kalda að njóta kaffipásunnar fyrir utan verksmiðjuna og ég spjallaði létt við strákana sem voru alveg
eldhressir en þó verð ég að taka það fram að þeir voru alveg bláedrú. Þeir beindu mér upp til hennar Agnesar sem er með
alræðisvald yfir öllum bjórnum og bjórframleiðslunni.
Hjá Agnesi fékk ég alveg sérdeilis góðar móttökur og hún sýndi mér alveg hreint allt mögulegt og
ómögulegt sem tengist bjórframleiðslu og bjórnum frá Kalda.
Ég fékk að sjá framleiðslulínuna hjá þeim og það er vafalaust ekkert ósvipað fyrir bjóráhugamanninn að
vera kominn í skoðunarferð í Bruggsmiðjuna og fyrir fótboltamanninn að fara í pílagrímsför á leikvang hjá einhverju ensku,
spænsku eða þýsku fótboltaliði. Reyndar tvinnast þetta oft á tíðum saman, þ.e.a.s. fótboltaáhorf og bjór
þannig að hugsanlega er komin hugmynd að því að gera fyrsta Bjórleikvanginn í heiminum við hliðina á Kalda. Ég sé fyrir
mér að byrjað sé á því að fara og skoða fótboltavöllinn, stúkuna og allt það sem fótboltaáhugamenn
skoða og svo beint í bjórskoðun. Þetta mundi slá í gegn.
En hjá einum brugggræjunum þarna fannst mér eins og ég stæði fyrir framan Gullna Hliðið og biði eftir því að ég
yrði baðaður í gilltum ljóma, hreinsaður frá toppi til táar og gengi endurnærður um ganga verksmiðjunnar. Að lokum skoðaði
ég áfyllingar og pökkunarlínuna þar sem virkilega huggulegar bjórblómarósir fylltu á kassa og flöskur. Það er alveg
óhætt að segja að þetta gæti verið svipað englakórnum sem syngur vonandi yfir manni þegar maður kemur yfir um eins og sagt er.
Allavega var virkilega gaman að fá að sjá þetta allt saman hjá Agnesi og þeim hjá Bruggsmiðjunni Kalda þó svo ég
færi jafn þyrstur frá þeim og þegar ég kom til þeirra, því ég var jú á bíl og Ólöf mín ekki
með mér til að keyra. (Af hverju í ósköpunum tók ég hana Ólöfu ekki með í þessa ferð?).
Eins og segir á heimasíðu Bruggsmiðjunnar Kalda kom hugmyndin af fyrirtækinu frá hjónunum Agnesi Sigurðardóttur og Ólafi Þresti
Ólafssyni á Árskógsandi.
Í dag er framleiðslugetan um 500.000 lítrar á ári. Hjá fyrirtækinu vinna í dag 5 manns sem eru fastráðnir og 2 í
hlutastarfi. Bruggmeistarinn Kalda er David Masa og er hann nokkuð þekkt nafn í bruggheiminum. Hann hefur sérhæft sig í því koma af stað litlum
brugghúsum út um allan heim.
http://bruggsmidjan.is/default/page/fyrirtaekid
Agnes Sigurðardóttir framkvæmdastjóri og yfirbjórblómarós
Bruggsmiðjunnar Kalda.
Hér eru nokkrar ölflöskur.
Hér er verið að setja byggið í kar.
Bygg.
Humlar.
Þarna stóð ég í cirka korter og virti fyrir mér þessa græju sem
minnti mig örlítið á myndir sem maður hefur séð af hinu Gullna Hliði.
Hér erur svo bjórblómarósirnar að pakka í kassa.
Flöskunum raðað í kassana.
Flöskunum raðað á færibandið.
Pökkun.
Færibandið.
Meira af myndum hér.
Athugasemdir