Fermingarmyndatakan í Siglufjarðarkirkju

Fermingarmyndatakan í Siglufjarðarkirkju Þegar Sigurður Ægisson hringdi í mig á föstudaginn nærri því grátandi og bað mig um að taka myndir fyrir sig í

Fréttir

Fermingarmyndatakan í Siglufjarðarkirkju

Þegar Sigurður Ægisson hringdi í mig á föstudaginn nærri því grátandi og bað mig um að taka myndir fyrir sig í fermingunni á laugardeginum gat ég hreinlega bara ekki sagt nei. Hann var svo aumur, karlanginn, og auk þess veit ég að hann hefur sérstakt dálæti af myndum sem ég tek og ég meira að segja á mynd af því til sönnunar. Sjá hér.

En símalið var semsagt einhvern veginn svona:

Siggi: Sæll, elsku bezti uppáhalds áhugaljósmyndarinn minn og íþrótta- og æfingafélagi.
Ég: Sæll, vinur; hvað vantar þig núna, blessaður engillinn?
Siggi: Þú bara verður að redda myndatöku í kirkjunni fyrir mig á morgun, ha? Plíííiiis...???
Ég: Aaaaahh, það gæti nú verið erfitt, Siggi minn, því ég þarf nefnilega að fara í bakaríið í fyrramálið og svona. Svo þarf ég örugglega að klæða stelpurnar fyrir hana Ólöfu og… En þarna komst ég ekki lengra því Siggi greip fram í.
Siggi: Nei, ég er búin að tala við Ólöfu og fá útivistarleyfi fyrir þig. Þú mátt fara og taka myndir fyrir mig, en koma beint heim eftir það... Svo kom smá þögn þar sem ég heyrði að hann var allur að stressast upp og andaði ótt og títt í símann.
Ég: Haaaa, jaaaaaa, OK. Ætli ég verði þá ekki að redda þér, Siggi minn, fyrst að hún Ólöf segir það. En bara ef þú segir að ég sé miklu betri og færari ljósmyndari en þú.

Eftir þessi orð mín kom nokkuð löng þögn en svo kom eitthvað muldur sem ég skyldi ekki alveg og var eiginlega eins og hann talaði tungum en ég tók því þannig að hann væri að reyna að böggla þessu út úr sér þó svo að það sé alveg óvíst. Eftir á að hyggja hefur hann kannski verið að segja að hann mætti ekki skrökva. En það eru samt bara getgátur mínar og kemur málinu hreinlega ekkert við.

Nema hvað, að allavega fór ég og tók myndir í fermingunni sem var bara alveg ágætt og athöfnin var alveg sú glæsilegasta. Margir höfðu það reyndar á orði eftir athöfnina að það væri gaman að sjá tvo svona fallega skeggjaða og íþróttamannslega menn uppi við altarið. Einhver sagði að þetta mynnti hann á eitthvað atriði úr "Game of Thrones".

Það sem mér fannst dálítið merkilegt við þessa athöfn var það að ungur drengur úr Garðabænum, Guðmundur Róbert Oddgeirsson, lét ferma sig á Sigló. Guðmundur er ættaður frá Siglufirði, sonur Herdísar Guðmundsdóttur og Oddgeirs Reynissonar. Herdís er dóttir Guðmundar Pálssonar sem er svo sonur Palla Páls úr Héðinsfirði. Guðmundur Róbert hefur vægast sagt mjög sterkar taugar til Siglufjarðar og það kom hreinlega bara ekkert annað til greina en að láta ferma sig á Sigló, svo mikill er Siglfirðingurinn í drengnum.

Ég set svo nokkrar myndir af fermingarbörnunum og Guðmundi Róberti.

fermingardagurHér er verið að klæða í kirtlana.

fermingardagurElín Helga.

fermingardagurHér eru fermingarbörnin að bíða eftir því að Siggi fari með þau niður í athöfnina.

fermingardagurHér sést Sigurður fremst, frekar niðurlútur yfir því að hafa þurft að hringja í mig til þess að taka myndirnar. Líklega er hann að hugsa með sér "úfff, ég trúi því ekki að ég hafi viðurkennt það að hann Hrólfur er betri ljósmyndari en ég". En það eru reyndar bara svona vangaveltur hjá mér.

fermingardagurAltarisganga.

fermingardagurAthöfninni lokið og fermingarbörn á leið út úr kirkjunni.

fermingardagurFermingarbörn og Séra Sigurður við Bjarnatorg.

fermingardagurHér er svo Guðmundur Siglfirðingur eins og ég kalla drenginn. Ég er virkilega ánægður með það hversu mikill Siglfirðingur drengurinn er.


Athugasemdir

26.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst