LIST ÁN LANDAMÆRA Á NORÐURLANDI

LIST ÁN LANDAMÆRA Á NORÐURLANDI List án landamæra er síbreytileg og lifandi hátíð þar sem fatlaðir og ófatlaðir mætast og vinna saman í list sinni.

Fréttir

LIST ÁN LANDAMÆRA Á NORÐURLANDI

List án landamæra er síbreytileg og lifandi hátíð þar sem fatlaðir og ófatlaðir mætast og vinna saman í list sinni. Hátíðin á Norðurlandi er vettvangur viðburða og stendur frá 3. – 22. maí.  

Opnunarhátíðin er laugardaginn 3.maí kl. 14 í Síðuskóla á Akureyri. Bæjarstjórinn á Akureyri Eiríkur Björn Björgvinsson setur hátíðina. Leikhópurinn Hugsanablaðran sýnir leikþáttinn Ef þú giftist…. eftir Sögu Jónsdóttur sem einnig leikstýrir hópnum. Sögumaður er Skúli Gautason og Anna Breiðfjörð aðstoðar hópinn við dansatriðið. Tónlist skipar veglegan sess á opnunarhátíðinni. Nemendur í tónlistarhópi Fjölmenntar verða með tónlistaratriði í umsjón Skúla Gautasonar og tónlistarfólkið Jón Hlöðver Áskelsson, Stefán Ingólfs og María Gunnarsdóttir flytja nokkur lög meðal annars Sjónarmið nýtt tónverk  eftir Jón Hlöðver. Að lokinni dagskrá býður Þroskahjálp uppá vöfflur og kaffi. 

Vorfánar og alls konar myndir munu dagana 9. – 23. maí  prýða verslunina Eymundsson á Akureyri. Það eru verk eftir notendendur í Skógarlundi sem mynda sýninguna en hún er opin á opnunartíma verslunarinnar. Garðurinn blómstar í Skógarlundi fimmtudaginn 15. maí og föstudaginn 16. maí  kl.  9-11 og 13 – 15:30. Þá er gestum og gangandi boðið að koma í heimsókn. Í garðinum verða sýnd verk notenda sem eru unnin undir handleiðslu myndlistarkonunnar Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur og starfsmannafélag Skógarlunds mun selja veitingar.

Af öðrum dagskrárliðum Listar án landamæra á Norðurlandi má nefna Opið hús í Iðjunni á Siglufirði fimmtudaginn 8. maí og föstudaginn 9. maí kl.  9-17.  Þar gegna tónlist og ljóðalestur mikilvægu hlutverki ásamt handverkssýningu notenda Iðjunnar.  Á Húsavík verður opið hús, vormarkaður og kaffihúsastemning í Miðjunni laugardaginn 17. maí  kl. 14 – 16.  Í Samkomuhúsinu á Húsavík verða þrjár sýningar sunnudaginn 18. maí á Stuttmyndinni X       kl. 13, 15 og 17. Þetta er hetjustuttmynd byggð á Þrymskviðu og hinum japönsku sentai ofurhetjum en myndin er unnin í samstarfi við Sam og Marinu Rees.   

Markmið hátíðarinnar er að auka aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Að koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni og hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum.  Það er von aðstandenda hátíðarinnar að sem flestir komi og njóti þess sem um er að vera. 

 

Nánari upplýsinga má finna á  HYPERLINK "http://www.listin.is" www.listin.is  


Athugasemdir

26.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst