Ljósmyndasýning Jóns Dýrfjörð
Hverjir eiga íslenska náttúru?
Jón Dýrfjörð er fæddur á Siglufirði 1931. Þar ólst hann upp og hefur alið allan sinn aldur ef frá eru talin þrjú ár
á Seyðisfirði þar sem hann kynntist eiginkonu sinni Erlu Eymundsdóttur.
Jón hefur frá því hann man eftir sér verið mikið náttúrubarn, notið útiveru og náttúruskoðunar. Ljósmyndun hefur líka fylgt honum lengi því fyrstu myndavélina eignaðist hann 12 ára gamall. Áhugamálin tvinnast saman og í gegnum ljósmyndunina fær hann góða útrás fyrir þennan mikla áhuga á náttúrunni. Á ferðalögum hefur hann ævinlega myndavél sér við hönd og fangar jafnt hið smáa sem hið stóra í náttúru Íslands. Margar þessara ferða hafa verið á tveim jafnfljótum en einnig á bifreiðum af ýmsum gerðum. Oft hefur það gerst að Jón hefur fengið myndaflugu í höfuðið og þurft að „skjótast snögga ferð“ frá vegi eða vegslóða til þess að ná rétta sjónarhorninu eða réttu birtunni. Hefur það stundum hent að ferð hefur orðið lengri en áætlað var í upphafi og eiginkonuna farið að lengja eftir karli sínum til baka í bílinn.
Ljósmyndunin og náttúran eru ekki einu áhugamálin. Jón er mjög mikill félagsmálamaður; var skátaforingi árum saman, fyrsti forstöðumaður Æskulýðsheimilisins á Siglufirði, var virkur í Skíðafélaginu, Slysavarnar- félaginu, Lionsklúbbnum, Rauða krossinum og barðist fyrir málefnum fatlaðra með Þroskahjálp. Hellti sér í stjórnmál um árabil, var bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Siglufjarðar og sat í mörgum nefndum. Aðalævistarf hans og Erlu konu hans var rekstur vélaverkstæðis í rúm fjörutíu ár þar sem verkefnin voru stór og smá allt frá pípulögnum í heimahúsum að niðursetningu véla og umfangs- mikilla skipasmíða.
Á sýningunni í Bláa húsinu á Siglufirði sýnir Jón lítið brot úr ljósmyndasafni sínu, langflestar myndirnar eru náttúrustemmingar auk nokkurra mannlífsmynda. Þær eru nær allar teknar á síðustu 10-15 árum en Jón hefur unnið og prentað þær út sjálfur. Þá eru fáeinar gamlar myndir frá Siglufirði sem hann hefur hreinsað og unnið upp, nokkuð sem hann hefur gert drjúgt af undanfarin ár.
Athugasemdir