Ný heimasíða Síldarminjasafnsins komin í loftið
Við innlit á nýja heimasíðu Síldarminjasafnsins er ljóst að hún hefur tekið miklum breytingum og er nú orðin mjög aðgengileg og skemmtileg með flokkum af ýmsum fróðleik.
Ný og glæsileg heimasíða Síldarminjasafnsins er nú komin í loftið en starfsmenn Síldarminjasafnsins, Aníta og Örlygur, hafa undanfarnar vikur unnið að gerð hennar í samstarfi við hönnuði Hugsmiðjunnar ehf.
Samkvæmt orðsendinu frá Sídlarminjasafninu er "Heimasíðunni ætlað að vera aðgengileg, falleg og upplýsandi. Margskonar gáttir má opna og skyggnast um fræðandi efni eða hvers ferðamenn mega vænta á safninu".
Fyrsta heimasíða Síldarminjasafnsins leit dagsins ljós árið 1997. Þá var það Már Örlygsson sem vann það verk ásamt föður sínum, safnstjóranum. Í lítt breyttri mynd entist sú síða til ársins 2010, þegar Anita Elefsen endurvann hana að nýju í formi sem bæjarfélagið Fjallabyggð lagði til með þjónustu Stefnu Hugbúnaðarhúss á Akureyri.
Vonir eru bundnar við að heimasíðan nýja verði sem flestum að gagni. Þar er afar margt nýtt og um mjög fjölbreytilegt efni að ræða. Allt frá sögu safnsins, söfnunarstefnu þess, ferð fram og aftur um síldarsöguna og myndböndum til safnverslunar og frétta af safnstarfinu.
Safnaráð styrkti verkefnið um 500 þús kr. og eru ráðinu færðar bestu þakkir fyrir.
Slóð heimaíðunnar er sú sama eða www.sild.is
Athugasemdir