Nýsköpun í lyfjaiðnaði á Siglufirði

Nýsköpun í lyfjaiðnaði á Siglufirði Siglufjörður skartaði sínu fegursta, fannhvít fjöllin, autt í byggð og glampandi sól. Það var viss eftirvænting sem lá

Fréttir

Nýsköpun í lyfjaiðnaði á Siglufirði

Jóhann Ág. Sigðurðsson, prófessor, heimilislæknir
Jóhann Ág. Sigðurðsson, prófessor, heimilislæknir

Siglufjörður skartaði sínu fegursta, fannhvít fjöllin, autt í byggð og glampandi sól. Það var viss eftirvænting sem lá í loftinu, þegar 35 heimilislækar af öllu landinu söfnuðust saman á Siglufirði 15.-17 maí s.l. til þess að taka þátt í námskeiði kennara í heimilislækningum. A dagskránni var einnig ætlunin að kynnast stórhuga framkvæmdum á Siglufirði og nýsköpun í lyfjaiðnaði á vegum fyrirtækisins GENIS.

Á móti okkur tók þéttvaxinn maður í rauðri peysu og gallabuxum, glaðlegur með hlýlegt viðmót. Þeir sem ekki þekktu til Róberts Guðfinnssonar athafnamanns og fyrrverandi skipstjóra hvísluðu hver að öðrum og spurðu hver þessi maður væri. Þeir höfðu áður heyrt sögu þessa eldhuga, en sennilega búst við að sjá þarna hefðbundinn hvítflibba í jakkafötum. Róbert og Jóhannes Gíslason, doktor í lífefna- og næringarfræði sáu um kynninguna á nýsköpun í lyfjaiðnaði á þeirra vegum.

Róbert fræddi okkur um aðdragandann að þessu verkefni og hvernig hugmyndir hans höfðu smám saman mótast í það sem komið er. Allt byggir þetta á því að nota fjölsykru sem nefnist kítin og er meðal annars að finna í rækjuskel og gæti haft heilsubætandi eða græðandi áhrif hjá mönnum. Rannsóknir þeirra hafa annars farið leynt undanfarin ár. Að sögn Róberts var þessi kynning ein sú fyrsta sem GENIS hefur haft fyrir fagfólk. Þeir félagar hafa nú þegar eytt um 940 miljónum í fyrirtækið.

Jóhannes fór síðan yfir þær rannsóknir sem gerðar hafa verið, bæði lífefnafræðilegar og líffærafræðilegar. Það vakti athygli okkar að þeir félagar hafa samið við rannsóknarstofur víða um heim til að vinna ákveðna hluta rannsóknanna fyrir sig. Enn fremur gátu þeir styrkt hugmyndir sínar með því að túlka rannsóknir annarra á þessi sviði, rannsóknir sem annars höfðu annan tilgang en þeirra eigin.

Vinnutilgáta Jóhannesar og félaga er að tvö efni,prótein og fásykrur gætu unnið saman og fengju við það nýtt hlutverk í líkamsvefjum manna í tengslum við bólguviðbrögð og örvefsmyndun. Út frá þessum grunnrannsóknum hafa þeir síðan einkum þróað tvö efni, annars vegar það sem þeir nefna „T-ChOS TM“ og hinsvegar efnið „BoneReg-InjetTM“. Að rannsóknum loknum verður það síðarnefnda væntanlega framleitt og selt til bæklunarskurðlækna sem ígræðsluefni í beinvef, en hið fyrra sem „heilsulyf“ á almennum markaði.

Við sem hlýddum á þessi erindi í blíðunni á Siglufirði heilluðumst strax af þeim stórhug og dirfsku sem því fylgir að setja á laggirnar framsækið líftæknifyrirtæki skammt fyrir sunnan heimskautsbaug. Það fór enginn varhluta af þeim miklu áhrifum sem þetta hefur haft á siglfirskt samfélag, sem þekktara er fyrir síldarævintýrið en nokkuð annað. Nú er nýtt siglfirskt ævintýri hafið, og hvarvetna er að sjá framkvæmdir í bænum sem tengjast því. Nú skal haldið á ný mið. Mið nýsköpunar, tækni og tækifæra. Það eru spennandi tímar framundan á Siglufirði.

 

genís 

Jóhann Ág. Sigðurðsson, prófessor, heimilislæknir

Ófeigur
Ófeigur T. Þorgeirsson, sérfræðingur í lyflækningum og heimilislækningum


Athugasemdir

25.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst