Sjálfseignarstofnun er félagsform sem notað er þegar starfsemin á að vera í eigu almennings

Sjálfseignarstofnun er félagsform sem notað er þegar starfsemin á að vera í eigu almennings "Um slíkt félagsform gilda sérstök lög. Eitt formið af

Fréttir

Sjálfseignarstofnun er félagsform sem notað er þegar starfsemin á að vera í eigu almennings

Róbert Guðfinnsson
Róbert Guðfinnsson

"Um slíkt félagsform gilda sérstök lög. Eitt formið af sjálseignarstofnun eru gömlu sparisjóðirnir. Fjöldi einstaklinga í hinum dreifðu byggðum lagði til stofnfé í sjálfseignarstofnanirnar í formi sparisjóða í heimabyggð. Á stofnféð fengu menn vexti en ekki eignarhald í sparisjóðnum." Svo hefst grein Róberts Guðfinnssonar í Morgunblaðinu í dag. 

Stjofnfjáreigendur kusu stjórn og fóru með ábyrgð á rekstri sjóðsins. Hagnaður sem safnaðist upp í sjóðnum skyldi notaður til sérstakra verkefna á starfssvæði sjóðsins.

Ef sparisjóðurinn yrði lagður niður eða breytt yrði um rekstrarform hans þá skyldi óráðstöfuðu eigiðfé komið fyrir í samfélagssjóði á starfssvæði sparissjóðsins.

Að eiga stofnfé og skipa í sjórn sjálfseignarstofnunar fylgir ábyrg. Stjórnarmenn eiga að halda utanum rekstur og fjármuni sem almenningur hefur takmarkaðan aðgang að en síðar að njóta.

Segja má að þetta félagsform sé mjög vandmeðfarið í formi sparisjóða, enda sagði Pétur heitinn Blöndal að sparisjóðirnir væru fé án hirðis.

Við uppstokkun fjármálakerfisins eftir hrunið 2008 tók Arion banki yfir mikinn meirihluta stofnfjár Afls sparisjóðs og tók þar með ábyrgð á hagsmunum viðskiptavinanna í sjálfseignastofnuninni.

Segja má að utanumhald um Afl sparisjóð hafi frá upphafi einkennst af fjandsemi af hálfu Arion banka. Fjandsemi sem oft leiddi til kostnaðarauka fyrir sparisjóðinn. Til skiptist hefur Arion haft í stjórn eigin starfsmenn eða utanaðkomandi aðila sem bankinn tilnefndi. Umgengni Arion um Afl sparisjóð hefur ávallt borið þess merki að þeir líta svo á að sparisjóðurinn sé þeirra eign og yfirlýst áform þeirra að innlima sjálfseignarstofnunina inn í bankann. Þeim stjórnarmönnum sem meðtóku ekki boðskap Arion en unnu sem sjálfstæðir stjórnarmenn i sjálfseignarstofnun var fljótt skipt út.

Um mitt ár 2014 fór Afl sparisjóður í gegnum sérstakt álagspróf hjá Fjármálaeftirlitinu. Útkoman var að efnahagur sjóðsins væri traustur. Þegar árið var gert upp ákvað Ernst and Young endurskoðandi félagsins að gjaldfæra verulega varúð á lánasafn sparisjóðsins upp á kr. 454 millj. sem setti sjóðin í 189 millj. kr tap. og eigiðfé í kr. 779 milljónir. Í síðustu viku birti Afl sparisjóður síðbúið sex mánaða uppgjör fyrir 2015. Í því uppgjöri, hálfu ári eftir að skrifað var upp á síðasta ársuppgjör hefur sami endurskoðandi tekið lánasafnið niður aftur og nú um kr. 2.3  milljarða og bakfært kröfu á Arion banka upp á kr. 772 milljónir. Með þessari bakfærslu er stjórn Afls að falla frá staðfestingarmáli Afls gegn Arion banka um ólögmæti erlendra lána milli aðila. Allt er þetta gert til að þóknast banka svo að ekki komi til útgreiðslu umtalsverðar upphæðir í samfélagssjóð í Fjallabyggð og Skagafirði þegar sparisjóðnum verður rennt inn í bankann.  Þessar leikfimisæfingar endurskoðandans leiða til taps á þessum litla sparisjóði upp á kr. 3,1 milljarð og setja eigið fé sjóðsins neikvætt um 2,4 milljarða. Niðurstaðan og áritanir í milliuppgjörinu eru áfellisdómur yfir þeim sem setið hafa í stjórn Afls sparisjóðs síðan eftir hrun. Því það er dauðans alvara ef  eftirlitsstofnanir, innlánseigendur og stofnfjáreigendur hafa verið blekktir með röngum ársreikningum því varla hefur þetta mikla tap orðið til á sex mánuðum. Ef að raunin er sú að Afl sparisjóður hefur verið rekinn með eins skelfilegum hætti og milliuppgjörið segir til um er þá ekki rétt að huga hver sé ábyrgð stjórnarmannana sem héldu utanum sjálfseignarstofnunina þegar þessir miklu fjármunir töpuðust. Allan þennan tíma sat meirihluti stjórnar í umboði Arion banka. Ef að núverandi stjórn Afls sparisjóðs sem alfarið er skipuð starfsmönnum Arion banka, er nú að fara offari til að þóknast vinnuveitanda sínum er þá ekki rétt að kalla þá aðila til ábyrgðar.

Þegar fylgst er með vinnubrögðum eftirlitstofnana og endurskoðenda í málefnum sparisjóðsins þá skynjar maður það ofurvald sem forsvarsmenn banka eins og Arion hafa. Vald sem þeir hafa tekið sér sem fulltrúar erlendra vogunarsjóða. Þrátt fyrir að viðkomandi ráðherra sé kunnugt um málið virðist sem hann geti ekkert aðhafst. Ef að þetta er hin almenna staða í málefnum bankanna þá minnir þetta fullmikið á afskiptaleysið fyrir hrunið 2008. Sú fagmennska sem lofað var þegar fjármálakerfið var endurreist hefur greinilega ekki enn litið dagsins ljós.

Öll vinnubrögð yfirsjórnar Arion banka í málefnum Afls sparisjóðs sýna hve utanumhald sjálfseignarstofnunar er léttvægt þegar stjórnendur eins og þeir sem nú stjórna Arion banka eiga að gæta hagsmuna fólksins, það er því óhætt segja að betra sé hafa fé án hirðis en óhæfan hirði sem murkar lífið úr bústofninum.


Athugasemdir

25.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst