Söfnunar-og minningarganga Kittýjar er í dag
Kristbjörg Marteinsdóttir, Kittý, eins og hún var jafnan kölluð, lést af völdum brjóstakrabbameins í lok árs 2009 eftir að hafa barist við sjúkdóminn í 6 ár. Í meðferðarferlinu lagði hún áherslu á að láta ekki sjúkdóminn stjórna lífi sínu heldur lifa til fulls. Hún stundaði göngu og setti sér það markmið að ganga daglega undir kjörorðunum „eitthvað á hverjum degi”. Kittý gerðist félagi í styrktarfélaginu Göngum saman en það er grasrótarfélag sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Kittý var virkur og ötull félagi og um tíma var hún formaður fjáröflunarnefndar félagsins og átti margar hugmyndir að öflun fjármagns til rannsókna.
Ættingjar og vinir Kittýjar vilja heiðra minningu hennar og gera það í hennar anda með því að halda styrktargöngu laugardaginn 30. ágúst á Siglufirði þar sem Kittý var fædd og uppalin.
Gengið verður frá Héðinsfirði um Héðinsfjarðargöng til Siglufjarðar og að íþróttamiðstöðinni að Hóli þar sem seld verður súpa og brauð á 500 kr. Þeir sem vilja styttri göngu geta sameinast göngumönnum við gangamunnann Siglufjarðarmegin og gengið að Hóli. Gangan hefst kl. 16.00 en fríar rútuferðir verða frá Hóli kl. 15.00 að upphafsstað göngunnar. Þarna gefst einstakt tækifæri til að fara fótgangandi um Héðinsfjarðargöng.
Um kvöldið verður skemmtun í Allanum á Siglufirði þar sem margir af okkar frábæra tónlistafókli skemmta í ljúfri stemmingu.
Gangan er gjaldfrjáls en aðgangseyrir að kvöldskemmtuninni er kr. 2.500. Þá verður ýmis
varningur seldur fyrir og eftir göngu. Allur ágóði rennur til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini í samvinnu við Göngum
saman.
Einnig hefur verið stofnaður reikningur í
Sparisjóði Siglufjarðar og er reikningsnúmerið 1102-26-121264, kennitala 250645-3179. Öll framlög eru vel þegin.
Nánari upplýsingar veita:
Margrét Baldursdóttir, margret.baldurs@internet.is, s. 699 3253.
Sigurlaug Haraldsdóttir, sillaha@gmail.com, s. 869 4418.
Athugasemdir