Soroptimistaklúbbur Tröllaskaga formlega stofnaður
Þann 17. okt. n.k. verður Soroptimistaklúbbur Tröllaskaga formlega stofnaður. Stofnfundur verður í Menntaskólanum á Tröllaskaga kl. 17:00 en hátíðarkvöldverður í Tjarnarborg kl. 19:00.
Fjölbreytt dagskrá verður í Dalvíkurbyggð og í Fjallabyggð helgina 16. - 18. október. Búist er við um 100 gestum frá landinu öllu auk erlendra sendifulltrúa og er stofnun klúbbsins á Tröllaskaga einn af stórviðburðum ársins meðal soroptimista á Íslandi.
Markmið soroptimista, sem eru alþjóðleg samtök er að stuðla að velferð stúlkna og kvenna með fjölþjóðlegu tengslaneti og verkefnum sem styðja m.a. við menntun og eflingu leiðtogahæfni þeirra. Nánari upplýsingar um samtökin má finna á heimasíðu þeirra, www.soroptimist.is
Fyrsta verkefni Soroptimistaklúbbs Tröllaskaga verður að efla tengsl og auka skilning á milli kvenna í sveitarfélögunum tveimur. Síðar munum við finna verkefni sem vert er að styðja innan lands sem utan. Ef áhugi er fyrir þátttöku í klúbbnum er viðkomandi bent á að setja sig í samband við formann undirbúningshópsins Jónínu Magnúsdóttur, jmra@centrum.is
Athugasemdir