Stórauknir möguleikar á komandi árum

Stórauknir möguleikar á komandi árum "Við fundum mikinn áhuga á svæðinu og hótelinu á ferðaráðstefnunni" segir Finnur Yngvi, sölu og markaðsstjóri Sigló

Fréttir

Stórauknir möguleikar á komandi árum

Finnur Yngvi á Vest Norden 2015
Finnur Yngvi á Vest Norden 2015

"Við fundum mikinn áhuga á svæðinu og hótelinu á ferðaráðstefnunni" segir Finnur Yngvi, sölu og markaðsstjóri Sigló Hótel, um Vest Norden ferðaráðstefnuna sem þau sóttu nýverið í Færeyjum. Það má búast við miklum vexti á svæðinu á næstu þrem til fimm árum og því mikilvægt að aðilar séu vel undirbúnnir.

Vest Norden er 30 ára gömul ferðasöluráðstefna sem haldin er af Íslandi, Færeyjum og Grænlandi í þeim tilgangi að efla ferðaþjónustu á svæðunum. Hún hefur því fest sig vel í sessi en er annaðhvert ár haldið á Íslandi en hitt árið í Færeyjum og Grænlandi til skiptis.

 

Mikilvægt fyrir okkur að allt svæðið vaxi og dafni

Samkvæmt Finni var mikill áhugi á norðurlandi á ráðstefnunni og voru ferðasalar og skrifstofur að leita eftir að færa sig í meira megni út frá suðurlandi sem þeir almennt töluðu um að bæri ekki aukinn straum ferðamanna.

"Við kynnum nærsvæðið okkar ávalt í heild í okkar markaðssetningu" segir Finnur og bætir við að til þess að hótel geti blómstrað þarf framboð á afþreyingu á svæðinu að vera gott og í lagi, en það sama á við um afþreyinguna hún þarf að eiga góða gistimöguleika. Þetta styður hvort annað en stendur illa eitt og sér. "Sem betur fer er mikið af afþreyingu í boði á svæðinu en við horfum almennt allt of nálægt okkur því erlendum ferðamönnum finnst almennt ekkert mál að keyra í tvær til fjórar klukkustundir, þeir eru vanir því heima fyrir. Við erum að vinna í kynningarefni fyrir afþreyingarmöguleika á öllum Tröllaskaga til stuðnings við hótelið og munum síðan víkka það svæði enn meira.

 

"Local" fyrir útlendingum er allt Ísland

Þegar maður er vanur að búa í litlu samfélagi eins og Fjallabyggð, Reykjavík eða Íslandi þá hefur maður svolítið öðruvísi sýn á svæðið heldur en erlendir ferðalangar sem búa oft í margra milljón manna borgum eða löndum sem hafa mörg landamæri. Maður þarf því að læra að setja sig í spor þeirra og hugsa út fyrir rammann segir Finnur. Við vorum tildæmis spurð að því hvort allur matur sem við framreiddum á hótelinu væri úr heimabyggð, þegar við sögðum að sem allra mest væri úr Fjallabyggð en síðan þyrftum við að sækja svolítið á Akureyri og jafnvel að sunnan þá er eiginlega bara hlegið. "Það er úr heimabyggð" sagði einn ferðaþjónustuaðilinn og bætti við að hann væri að spá hvort við værum að flytja inn mat erlendis frá. "Local food" í augum útlendinga er því eiginlega bara Íslenskur matur en maður þarf að muna þessi smáu atriði, þau hjálpa til í öllu framhaldinu. 

 

Markaðsstofa Norðurlands mikilvægur hlekkur

"Maður finnur vel fyrir styrk markaðsstofunnar þegar maður er kominn í kynni við svona marga erlenda ferðaþjónustuaðila". Starf markaðsstofunnar er ekki alltaf sýnilegt en tengslanet hennar er orðið gríðarlega sterkt og margir aðilar sem leita til hennar til að kynnast svæðinu almennt eða leitast eftir nýungum sem þar eru í boði, bæði á svona sýningum sem og utan þeirra. Það koma til að mynda fjöldi blaðamanna og ferðaþjónustuaðila í heimsókn á svæðið ári hverju fyrir tilstyllan markaðsstofunnar, "það er því mikilvægt að vera í góðu samstarfi við markaðsstofuna svo að þau þekki þjónustuna sem við erum að bjóða". Við áttum hátt í 40 fundi á þeim 14 klukkustundum sem ráðstefnan stóð yfir og var hluti þeirra eftir ábendingu frá samstarfsaðilum okkar á sýningunni. 

 

Frábærar undirtektir og stórauknir möguleikar

Miðað við þau gríðarlega jákvæðu viðbrögð sem við fengum á sýningunni erum við mjög bjartsýn á framhaldið. Sigló Hótel fékk frábærar viðtökur vegna sérstöðu þess hvað varðar þjónustu, útlit og staðsetningu en ekki sýst vegna þeirra fjölbreyttu afþreyingarmöguleika sem við kynntum fyrir fundaraðilum. Erlendir ferðaþjónustuaðilar sækjast í auknu mæli eftir að selja Ísland utan Reykjavíkur og suðurlands en það tekur allt tíma, það verður mikil aukning hér á næstu þremur til fimm árum og stórauknir möguleikar. Það er því mikilvægt að við hugum strax vel að innviðunum og undirbúum okkur vel fyrir framtíðina segir Finnur að lokum. 


Athugasemdir

22.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst