Sýningin NÚLL opnar i Árósum
Listamennirnir Arnar Ómarsson og Freyja Reynisdóttir hafa unnið saman síðastliðinn mánuð og munu opna sýninguna NÚLL við Institut for (X) næstkomandi laugardag.
Sýningin opnar laugardaginn 27. september kl: 20:00 við Institut for (X), Godsbanen, Árósum. Léttar veitingar í boði en auk þess mun tónlistarmaðurinn Mads B. Sørensen sjá um að þeyta skífum fram á kvöld.
Sýningin mun svo standa opin dagana 28. - 30. september, frá kl: 13:00 - 18:00
Nánari upplýsingar má finna á: whyissomethingratherthannothing.com
Verkefnið Núll er samstarf tveggja íslenskra, en ólíkra listamanna í Árósum, Danmörku. Hugmyndin um tómarúmið og alheiminn, það sem er ekkert og það sem er, dróg þau saman. Starandi útí himinngeiminn var ákveðið að búa til ekkert. Verkefnið dregur upp mynd af óstjórnlegri skilgreiningaráráttu mannsins yfir fimm vikna tímabil sem líkur laugardaginn næstkomandi. Verkefnið hefur falið í sér listasmiðju, millilandasamstarf, bókverk og sýningu. Yfirlýst markmið er að búa til ekkert, sem kallar á grundvallar frumspekilega nálgun á hlutinn og orðið og verður útkoman til sýnis á Godsbanen i Aarhus i samstarfi við Reykjavíkurborg, SÍM, Myndstef, D.A.K, Institut for (X), Aarhus Center for Visual Arts, Háskóla Árósa og Lodret hönnunarstofu.
Freyja Reynisdóttir, fædd. 1989 er íslenskur listamaður sem býr og starfar á Íslandi. Hún útskrifaðist 2014 með fyrstu einkun frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Freyja hefur unnið að verkefna- og sýningastjórnun, séð um eigin sýningaraðstöðu og tekið þátt í fjölbreyttum alþjóðlegum verkefnum. Verk hennar lýsa oft óvenjulegu ímyndunarafli sem fjallar um hinn tilfinningalega raunveruleika að vera meðal annarra, reynslu okkar, minni og samskipti. Hún vinnur yfirleitt þvert yfir magra miðla eins og teikningu, texta, gjörninga, málun, myndbandsverk, hljóðverk og innsetningar. Seinasta sýning hennar fjallaði um persónuleg vísindi og heimspeki á sér sjálfri, mannkyninu og banönum.
Arnar Ómarsson, f.1986. útskrifaðist 2011 með fyrstu eingunn frá University of the Arts, London og hefur síðan unnið sjálfstætt sem listamaður. Hann hefur opnað sýningar í Danmörku, Englandi, Brussel og víðsvegar á Íslandi og hlotið ríkisstyrki frá Íslandi og Danmörku. Í verkum Arnars er ákveðin áhersla hreinskilna gagnrýni á hinu venjulega eða hefðbundna. Hann notast við marga mismunandi miðla til að færa skilaboðin til áhorfandans, en notast mikið við innsetningar og myndverk. Nýlegar verkseríur hafa fjallað um samband mannsins við stórborgir, hvernig við höfum skapað tölvuna í okkar mynd og tengingu vísindaskáldskapar við raunverulegar framtíðarhorfur. Eðli mannsins er alltaf miðjupunkturinn og framkvæmdin er einföld og hreinskilin.
Athugasemdir