Sýslumaðurinn á Siglufirði tekur við nýjum verkefnum.

Sýslumaðurinn á Siglufirði tekur við nýjum verkefnum. Þann 1. febrúar s.l. tók sýslumaðurinn á Siglufirði við fimm verkefnum sem áður voru hjá

Fréttir

Sýslumaðurinn á Siglufirði tekur við nýjum verkefnum.

Þann 1. febrúar s.l. tók sýslumaðurinn á Siglufirði við fimm verkefnum sem áður voru hjá innanríkisráðuneytinu, en auk þeirra venjulegu verkefna sem sýslumenn annast voru tvö önnur sérstök verkefni fyrir hjá embættinu. Annarsvegar er það  greiðsla á skaðabótum til þolenda afbrota sem var flutt til Siglufjarðar árið 2006 og svo greiðsla á sanngirnisbótum til fyrrverandi vistmanna á vistheimilum sem hefur verið hjá embættinu frá 2010.  

 

 

Að sögn Halldórs Þormars Halldórssonar sem hefur haft umsjón með verkefnunum eru þessi nýju verkefni góð viðbót við verkefnin sem fyrir eru enda mun öðru þeirra, greiðslu sanngirnisbóta ljúka á árinu 2014. Halldór segir að það hafi bara verið tímabundið og komið til embættisins vegna þeirrar reynslu sem var af greiðslu á bótum til þolenda afbrota, því það séu um margt lík viðfangsefni. Hann segir að þetta hafi gengið framar öllum vonum miðað við umfang og viðkvæmni málsins og það hafi verið afgreiddar um 850 bótakröfur. Heildarfjárhæð greiddra bóta er um tveir milljarðar króna, en þeir peningar hafa þó aldrei komið hingað segir Halldór, heldur hefur innanríkisráðuneytið séð um útborgunina.  Hitt verkefnið sem við höfum annast frá árinu 2006 heldur áfram og það eru um 300-400 mál ár ári. Það snýst um það þegar einstaklingur verður fyrir afbroti, þá getur hann sótt um að ríkissjóður greiði bæturnar fyrir þann sem framdi brotið, því hann sé ekki líklegur til að greiða þær. Ríkissjóður rukkar svo til baka með misgóðum árangri. 

 

Þessi nýju verkefni eru misjafnlega viðamikil að sögn Halldórs.  Það langviðamesta er útgáfa á leyfum til þeirra lögfræðinga sem vilja flytja mál fyrir dómi en þá þarf að hafa leyfi til málflutnings, annað hvort leyfi til að starfa sem héraðsdómslögmaður eða hæstaréttarlögmaður. Fyrir því að fá slíkt leyfi eru ýmis skilyrði. Þreyta þarf sérstök próf sem Lögmannafélag Íslands efnir til og svo þarf að hafa óflekkað mannorð og viðkomandi má aldrei hafa verið gerður gjaldþrota. Varðandi það hvað telst óflekkað mannorð svarar Halldór að það sé yfirleitt túlkað á sama hátt og í kosningalögunum, en þá má viðkomandi ekki hafa fengið fangelsisdóm sem er meira en fjórir mánuðir og hafa verið orðinn meira en 18 ára þegar brotið var framið. Margir leggja leyfin inn þegar þeir hætta að flytja mál eða snúa sér að öðru. Nú eru nokkur hundruð leyfi í gildi og annað eins liggur inni.  

 

Annað tiltölulega viðamikið verkefni er skráning og eftirlit með trúfélögum og lífsskoðunarfélögum. Núna eru skráð 41 félag sem annað hvort eru trúfélög eða  teljast lífsskoðunarfélög. Þau þurfa öll að skila skýrslum árlega um starfsemina, ráðstöfun þeirra tekna sem þau hafa og hvort forstöðumaður og aðrir uppfylli þau skilyrði sem þarf. Halldór segir að þetta eftirlit sé nauðsynlegt vegna þess að forstöðumenn trúfélaga fá ýmis réttindi eins og t.d. heimild til að skíra, greftra og gefa fólk saman í hjónaband. Þess vegna þurfa skilyrðin að vera skýr. Sá sem vill stofna trúfélag eða lífsskoðunarfélag sækir um það til embættisins, sem leitar álits sérstakrar nefndar á vegum Háskólans um hvort félagið snúist um eitthvað sem getur fallið undir trúarbrögð, siðferði eða lífsskoðanir sem margir geta sameinast um. Önnur verkefnin eru minni eins og heimild til að dreifa ösku utan kirkjugarða, en það hefur verið heimilt frá 2003. Halldór segir að það megi þó bara dreifa ösku í óbyggðum eða yfir haf. Þetta munu ekki vera mörg mál á ári segir hann, en hefur þó farið fjölgandi í kjölfarið á mikilli aukningu bálfara.

 

Halldór segir að nú sé fyrirliggjandi sameining sýslumannsembætta og að þeim verði fækkað úr 24 niður í 8.  Ásdís sýslumaður á Siglufirði hefur verið sett sem sýslumaður á Akureyri og annast því bæði embættin núna. Halldór segir að þessi sameining sé búin að liggja fyrir nokkuð lengi, enda hafi verkefnum sýslumanna fækkað vegna ýmissa tæknibreytinga og tilfærslu. Þess vegna sé um að gera að styrkja þessar einingar og veita þeim verkefni við hæfi, því að það er mikil þekking víða og gott og traust starfsfólk, rétt eins og hérna.  Því miður fylgi engin ný störf þessum nýju verkefnum, heldur frekar verið að verja þau störf sem þegar eru til staðar. Það hafi tekst vel til með þau verkefni sem unnin hafi verið og þetta sé ákveðin viðurkenning á því. Þá hafi rekstur embættisins verið góður og það hjálpi líka til að sýna jákvæðni og áræðni í að taka við nýjungum.

 

Hjá sýslumanninum á Siglufirði sem nær yfir Fjallabyggð starfa nú sex manns.


sýslumaðurinnÁsdís Ármannsdóttir


sýslumaðurinnHalldór Þormar Halldórsson


sýslumaðurinnGuðfinna Skarphéðinsdóttir


sýslumaðurinnGuðfinna Ingimarsdóttir


sýslumaðurinnAnna Marie Jónsdóttir.


sýslumaðurinnÞað verður nóg að gera hjá Halldóri að fara í gegn um þessa pakka.




Athugasemdir

13.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst