Umsvif Rauðku á Siglufirði eykur ferðamannastrauminn til staðarins

Umsvif Rauðku á Siglufirði eykur ferðamannastrauminn til staðarins Finnur Yngvi Kristinsson er verkefnastjóri hjá Rauðku ehf. á Siglufirði, félags sem er

Fréttir

Umsvif Rauðku á Siglufirði eykur ferðamannastrauminn til staðarins

KAFFI RAUÐKA. ,,Vinsældir kaffihússins eru miklar,
KAFFI RAUÐKA. ,,Vinsældir kaffihússins eru miklar,
Finnur Yngvi Kristinsson er verkefnastjóri hjá Rauðku ehf. á Siglufirði, félags sem er í eigu Róberts Guðfinnssonar athafnamanns. Fyrir liðlega tveimur árum gerði félagið víðtækt samkomulag við sveitarfélagið Fjallabyggð um uppbyggingu tengda afþreyingu og ferðamennsku á Siglufirði. Svona hefst umfjöllun Land og Sögu um uppbyggingu Rauðku og ferðaþjónustu á Siglufirði. 
 
 

Umsvif Rauðku á Siglufirði eykur ferðamannastrauminn til staðarins
-    nýtt lúxushótel verður opnað í sumarbyrjun næsta ár.

Finnur Yngvi Kristinsson, verkefnastjóri, fyrir framan litskrúðug hús Rauðku ásamt starfsmönnum.

Finnur Yngvi Kristinsson er verkefnastjóri hjá Rauðku ehf. á Siglufirði, félags sem er í eigu Róberts Guðfinnssonar athafnamanns. Fyrir liðlega tveimur árum gerði félagið víðtækt samkomulag við sveitarfélagið Fjallabyggð um uppbyggingu tengda afþreyingu og ferðamennsku á Siglufirði. Rauðka er þegar umsvifamikil í ferðaþjónustu á Siglufirði og rekur þar meðal annars veitingahúsin Hannes Boy og Kaffi Rauðku. „Samkomulagið felur í sér atriði sem við teljum vera mikilvæg til þess að byggja grundvöll fyrir hótel. Það tengist ýmsum umhverfismálum og skíðasvæðinu og golfvellinum,“ segir Finnur Yngvi. Markmið samkomulags Rauðku og Fjallabyggðar er að skapa byggðarlaginu sérstöðu og gera það eftirsóknarvert í augum ferðamanna í framtíðinni.
Hafin er bygging á nýjum níu holu golfvelli, en þar á jafnframt að vera útivistarsvæði fyrir alla þá sem Siglufjörð heimsækja sem og heimamenn. Sveitarfélagið leggur til öll núverandi mannvirki á skíðasvæðinu, sem byggja á upp, en Rauðka skuldbindur sig til að borga 300 milljónir króna inn á þann samning. Meðal annars á að reisa skíðaskála á næsta ári. Rauðka hefur þegar lagt umtalsverða fjármuni í fjárfestingar á Siglufirði. Gangi þær áætlanir eftir sem nefndar eru í samkomulaginu bætast um 1.200 milljónir við á næstu árum svo heildarfjárfesting Rauðku í bænum verður ríflega 2.200 milljónir króna.

Golfarar koma  víðs vegar að til Siglufjarðar. Sumir í þessum hópi eru reyndar heimamenn eða rekja ættir sínar til Siglufjarðar.

Glæsilegt hótel
Rauðka, sem var stofnuð í ágústmánuði 2007, dregur nafn sitt af síldarverksmiðju með sama nafni sem var landsþekkt á síldarárunum. Tilgangurinn var að byggja upp ferðaþjónustu  á Siglufirði og koma með nýtt blóð inn í atvinnulífið, fjölga atvinnutækifærum. Húsin vekja mikla athygli, gul, rauð og blá og standa við smábátahöfnina sem einnig hefur umtalsvert aðdráttarafl. Finnur Yngvi segir að það hafi verið Akkilesarhæll ferðaþjónustunnar á Siglufirði að þar væri ekki nægjanlegt gistirými og veitingaþjónusta. ,,Við værum búin að ná ákveðinni endastöð ef Rauðka væri ekki að reisa hótel hér við smábátahöfnina sem mun heita Sunna, rétt eins og eitt síldarplanið forðum. Áætlað er að hótelið kosti um 1.300 milljónir króna. Á hótelinu verður ferðalöngum boðin upplifun sem ekki finnst annars staðar á landinu. Í allri hönnun hefur verið leitast við að skapa mikla sérstöðu í upplifun fyrir gesti Hótels Sunnu. Hótel Sunna verður 68 herbergja hótel sem opna mun dyr sínar í sumarbyrjun 2015. Glæsilegt timburklætt húsið verður á tveimur hæðum og er það hannað til að aðlagast  nánasta umhverfi sínu við Síldarminjasafnið og veitingastaði Rauðku. Aðkoma að hótelinu verður hin glæsilegasta þar sem ný smábátahöfn verður byggð svo að hótelið sjálft verði umlukið sögu og sjávarlífi þessa sögufræga bæjar. Úr öllum herbergjum verður því frábært útsýni yfir lífæð bæjarins og stórbrotna náttúru fjallanna í kring.

Hótel Sunna við smábátahöfnina. Verður opnað að ári.

Aukinn fjöldi erlendra ferðamanna
„Útlendingar hafa verið mjög áberandi í sumar,“ segir Finnur Yngvi. ,,Það tók um þrjú ár að koma Héðinsfjarðargöngunum á kortið hjá flestum erlendum ferðaskrifstofum og kynna það sem stendur þeim til boða hér. Þess eru þó jafnvel dæmi enn að ferðamenn séu að fara Lágheiðina á leið hingað. Nú er boðið hér upp á leiðsöguferðir út í Siglunes, bæði með bátnum og með því að fara þangað gangandi, en gömlu húsin þar hafa mikið aðdráttarafl sem og saga þeirra. Ferðir í Héðinsfjörð njóta vaxandi vinsælda, það er algjör paradís að fara þangað, náttúran þar er alveg einstök. Einhver fiskur er þar í ánni sem og í Hólsá hér í Siglufirði. Svo má ekki gleyma Síldarævintýrinu sem vekur alltaf jafn mikla athygli á atvinnusögu okkar Íslendinga og þætti Siglufjarðar í henni. Síldarævintýrið er auk þess mjög fjölskylduvæn hátíð um verslunarmannahelgina og þess vegna myndast á henni mjög þægileg og skemmtileg stemming.“
Finnur Yngi segir að nú megi sjá 40% aukningu ferðamanna yfir vetrartímann milli ára en fram að opnun hótelsins verður aðsóknin svipuð milli ára á sumrin. Siglufjörður er því staður sem nýtur vaxandi vinsælda, ekki síst vegna umsvifa Rauðku, bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna. Með nýju blóði í ferðaþjónustu sem einnig eykur flóruna í annarri atvinnustarfsemi, eykst einnig íbúafjöldinn, fleiri vilja taka þátt í þessu nýja og spennandi umhverfi sem er að skapast á Siglufirði. ,,Ungt og menntað fólk sækir aftur heim með fjölskyldur sínar en það hefur ávallt verið okkar aðal markmið,” segir Finnur Yngvi.
-G.A.G.

Netslóð á umfjöllunina er hér að neðan

Athugasemdir

25.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst