6 - 11 daga spá, 21. til 26. desember
Miðvikudagur 21. desember:
Lægðabrautin sem legið hefur sunnar austur yfir Atlantshafið, verður að öllum líkindum nær Íslandi. Útlit er fyrir að ein slík straui norðaustur yfir landið, jafnvel snemma á miðvikudag með hlákublota og slyddu/rigningu. Reiknaðar spár gera þó minna úr þíðunni en t.a.m. var gert í gær.Fimmtudagur 22. desember:
SV- og V-átt. Kólnar aftur. Él vestan- og suðvestantil, en úrkomulaust að mestu um landið austanvert.
Föstudagur 23. desember:
Næsta lægð gæti verið á ferðinni við landið, en hún lengra í burtu á milli Skotlands og Íslands. Þá N-átt á okkar slóðum. Frost um mest allt land, hvasst og hríð um tíma NA- og A-lands.
Laugardagur 24. desember:
Lægð á Grænlandshafi. Tengist köldu lofti og ekki líkleg til stórra átaka. SV-átt og í svalara lagi. Vægt frost víðast hvar. Él verða því sunnanlands og vestan, en að mestu bjart eystra.
Sunnudagur 25. desember:
N-átt enn á ný og fremur kalt á landinu. Trúlega ekki svo hvass og því vart nema éljagangur norðan- og austanlands, en annars sæmilega bjart.
Mánudagur 26. desember:
Áfram kalt í veðri og uppruni loftsins verður annað hvort úr vestri eða norðri ef af líkum lætur. Él verða viðloðandi strendur landsins, síður þó suðaustan- og austanlands.
Mat á óvissu:
Gert er ráð fyrir að lægðabrautin færist nær okkur strax eftir helgina og þannið er blota spáð seint á sunnudag og mánudag samfara SA-átt með hraðfara lægð til norðausturs. Fleiri fylgja í kjölfarið, en óvissan er einkum tengd staðsetningu og styrk meginháþrýstingsins suður á Atlantshafi. Undanfarna daga hefur stöðu hennar verð spáð í þá veru að háloftvindröstin beinir lægðunum nánast beint yfir Ísland. Illviðrakafli með stormum og umhleypingum gat því verið í uppsiglingu. Í dag er hins vegar eins og langtímaspárnar geri síður ráð fyrir því að meginhæðin hörfi heldur til austurs það mikið að heimskautaloft verður áfram ríkjandi meira og minna yfir jólin líkt og verið hefur. Bæði stóru reiknilíkönin sem ég styðst mest við eru með þetta austanundanhald í dag. Getur svo sem verið að allt hrökkvi til baka í stöðuna eins og hún var í gær og fyrradag. Trúlegra þykir mér þó að breytingarnar nú á milli keyrslna eigi við einhver raunveruleg rök að styðjast. Breytileiki innan Evrópska reiknilíkandsins er líka minni en ég hefði annars átt von á miðað við þessa kúvendingu fyrir veður á okkar slóðum.
Athugasemdir