Efnahagsleg áhrif erlendrar stóriðju á Íslandi
Samandregnar niðurstöður
Innlendur virðisauki af starfsemi
stóriðjuvera á Ísland er ekki mikill. Samkvæmt ársreikningum þeirra
álvera sem störfuðu á árinu 2007 má áætla að hjá þeim sé virðisaukinn
samtals um 25 millj. króna. Svarar það til um það bil 1,8% af vergri
þjóðarframleiðslu. Þessi virðisauki lendir að c. 2/3 hlutum hjá
erlendum eigendum álveranna en einungis að 1/3 hluta hjá íslenskum
aðilum. Svarar það til 0,6 – 0,7% af þjóðarframleiðslu.
Virðisauki vegna sölu á aðföngum til stóriðju er að mestu leyti hjá orkusölum en ekki eru tiltækar talnalegar upplýsingar um hann. Verð á raforku til stóriðju bendir þó til þess að hann sé ekki mikið umfram vaxtagreiðslur orkuveranna sem renna úr landi og viðunandi ávöxtun eiginfjár. Því eru líkur á að arður af orkulindinni, auðlindarentan, renni nær óskipt til orkukaupendanna, þ.e. stóriðjuveranna.
Starfsmenn við álverin þrjú sem starfandi eru að viðbættum afleiddum störfum eru um 1,7% af vinnuafli í landinu. Ætla má að til lengri tíma hafi erlendar fjárfestingar ekki áhrif á atvinnustig og fjölda starfa í landinu. Virðisauki vegna launa álveranna er því ekki viðbót við hagkerfið en kemur í stað launa fyrir störf sem ella hefðu orðið til. Skammtímaáhrif og svæðisbundin áhrif á atvinnustig kunna þó að vera til staðar.
Allstór hluti af virðisauka stóriðju og stórvirkjana fer úr landi í formi vaxta. Vegna skattalaga fær landið ekki hlut í þeim tekjum.
Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðjuvera í eigu erlendra aðila eru þeir skattar sem þeir greiða. Ætla má að skattgreiðslur meðalálvers sé um 1,2 milljarðar króna á ári. Það er einungis um 0,1% af þjóðarframleiðslunni. Skattar stóriðju skila sér auk þess seint vegna hagstæðra afskriftareglna. Á skattalöggjöfinni og í samningum við álfyrirtækin eru auk þess göt sem rýrt geta þessar tekjur.
Skattareglum hefur á síðustu árum verið breytt á þann veg að skattgreiðslur stóriðjuvera hafa verið lækkaðar um helming. Af þeim sökum verða tekjur landsins af álverum á mörgum næstu árum minni en þær hefðu orðið án fjölgunar álvera og án skattabreytinganna. Landið virðist einnig hafa afsalað sér valdi til að breyta sköttum á félög til hækkunar.
Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum. Hann er nú vart meira en 0,1 – 0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver. Arður af íslenskum auðlindum kemur aðallega fram í hagnaði iðjuveranna og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda.
Í pólitískri umræðum, m.a. um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, eru allir sammála um að náttúruauðlindirnar séu eign þjóðarinnar og að tryggja beri yfirráð yfir þeim. Það er holur hljómur í þeirri umræðu á sama tíma og náttúruauðlindunum er ráðstafað í þágu útlendinga og þeim gefinn arðurinn af þeim?
Greinina í heild má sækja með tenglinum hér að neðan.
Athugasemdir