Fulkomið ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar

Fulkomið ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar Þær deilur sem nú standa um ríkisábyrgð vegna Icesavereikninga Landsbankans í Englandi og Hollandi virðast

Fréttir

Fulkomið ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Þær deilur sem nú standa um ríkisábyrgð vegna Icesavereikninga Landsbankans í Englandi og Hollandi virðast geta haft alvarlegar pólitískar afleiðingar í för með sér. Kaldhæðni örlaganna hefur ráðið því að það hefur komið í hlut fyrstu raunverulegu vinstristjórnar á Íslandi að kljást við afleiðingar langrar stjórnarsetu Sjálfstæðismann og Framsóknar.
Því til viðbótar er þetta stóra verkefni komið í hendur þingmanna Vinstri grænna, þeirra sem harðast börðust gegn þeirri skelfilegu stjórnarstefnu sem þessir tveir flokka fylgdu og leiddu á endanum til algjörs efnahagslegs hruns á Íslandi. Það er því eðlilegt að þingmönnum Vinstri grænna þyki það bæði blóðugt og óréttlátt að þurfa að taka við því ógeðfellda máli sem Icesave-málið allt er frá upphafi til enda. Þar er enginn þingmaður flokksins undanskilinn þó annað hafi kannski mátt skilja á fréttaflutningi um málið. Þetta er okkur öllum þungt í skauti og erfitt viðfangs. En erfið verk og umdeild verður þó að vinna, jafnvel þó ógeðfelld séu og þá ekki síst þegar sýnt er að þau verði til þess að létta okkur róðurinn við endurreisn íslensks efnahagslífs. Ég er sannfærður um að samþykkt ríkisábyrgðarinnar vegna Icesave samninga er mjög mikilvægt í því samhengi og nánast forsenda þess að við þokumst áfram veginn i stað þess að sökkva enn dýpra í þann fúla pytt okkur hefur verið komið í. Ég mun því hvorki hika né hopa undan þegar kemur að því að klára þetta mál og það sama á við um nánast allt þinglið Vinstri grænna.
Það leynist engum að þingliði stjórnarandstöðunnar er skemmt vegna þeirra erfiðleika sem Vinstri græn eiga í þessu stóra máli. Það er hinsvegar fásinna að ætla að stjórnarandstaðan muni koma að lausn málsins eða liðka fyrir um lausn þess eins og gefur hefur verið til kynna. Ætlun þess söfnuðar er eingöngu að fella ríkisstjórnina á þessu máli, reka fleyg í raðir stjórnarflokkanna og vinna pólitískt skemmdarverk gegn sinni eigin þjóð. Ábyrgðarleysi andstöðunnar er því algjört og fullkomið og þinglið hennar virðist ekki láta sig þjóðarhag neinu varða. Það hlýtur að vera þeim stjórnarþingmönnum sem enn eiga erfitt með að taka afstöðu með ríkisábyrgðinni, umhugsunarefni hve grímulaust stjórnarandstaðan kemur fram í þessu máli og hve augljós tilgangur hennar er með framferði sínu. Ég hef engan áhuga á því að sjálfstæðis- og framsóknarmenn hreiðri aftur um sig í stjórnarráði Íslands og ég held reyndar að mikilli meirihluti þjóðarinnar sé mér sammála um það. En það er hinsvegar augljóst markmið þeirra að komast þangað inn aftur og það lið mun beita öllum brögðum til að ná því marki. Þar er þeim ekkert heilagt og tilgangurinn látinn helga meðalið. Í þessu ljósi ber að líta áhuga þeirra á Icesave-málinu og samstarf við stjórnarflokkanna um lausn þess. Allt annað er ómerkileg blekking af þeirra hálfu.

Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst