Gerpla fær nýjan sess - gott leikhús
Gerpla eftir Halldór Kiljan Laxnes er nú í fyrsta sinn í leikhúsi. Meistaraverk Nóbelskáldsins hefur aldrei áður verið sett á svið.
Sagan gerist á mínum æskuslóðum. Sem unglingur var ég látin lesa Gerplu í skóla. Ég hóf lesturinn af áhuga sem dvínaði fljótt. Harmsaga vonleysis og vondra örlaga náði ekki að fanga huga unglingsins. Snilld höfundarins og málfarið sem honum tókst að skapa fór fyrir ofan garð og neðan hjá krakkagerpinu.
Nú hefur Gerpla öðlast alveg nýjan sess! Ég fór að sjá
sýningu Þjóðleikhússins á dögunum og naut virkilega góðs leikhúskvölds.
Mig langar til að mæla eindregið með sýningunni.
Leikgerðin er í höndum Baltasar Kormáks og Ólafs Egils Egilssonar, unnin í samvinnu við það einvala lið sem leikhópurinn er!
Baltasar Kormákur hefur á undanförnum árum sett upp frábærar sýningar í Þjóðleikhúsinu. Þar hefur hann tekið vinsæl og virt skáldverk, hrist upp í þeim á skemmtilegan hátt og laðað fram það besta úr hverju verki. Útkoman er yfirleitt frumleg og ögrandi túlkun.
Hópnum hefur tekist að gera þessa sýningu í senn sprellfjöruga og bráðfyndna á köflum. Hér er hörð ofbeldis- og stríðsádeila, óvægið uppgjör við hetjudýrkun og mikilmennskuhugmyndir á öllum tímum.
Gerpla kom út árið 1952. Sagan gerist á 11. öld þegar tveir vestfirskir garpar sverjast í fóstbræðralag að fornum sið. Þorgeir Hávarsson er vígreifur kappi sem vill heldur herja en hokra. "Hann brosti því aðeins að honum væri víg í hug ellegar nokkurt annað stórvirki". Þormóður Bessason er hæglátt skáld sem ann konum og hetjum meir; meðan hann situr heima í friði fer Þorgeir í víking og finnur sér kóng að berjast fyrir en lætur að lokum líf sitt. Þá er skáldið skyldugt að halda af stað og hefna fóstbróður síns og yrkja kóngi hans dýr kvæði.
Gerplu má kalla rangsnúna hetjuharmsögu. Hún er í sögualdarstíl en hetjurnar fallnar af stalli. Sagan er margræð og beitt háðsádeila á stríðsrekstur og hetjudýrkun að fornu og nýju – en ekki síður á þá sem fylgja í blindni leiðtoga eða hugsjón og fórna allri mennsku fyrir ímyndaða dýrð.
Með hlutverk fóstbræðranna Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðs Kolbrúnarskálds fara tveir þekktir leikarar af yngri kynslóðinni, þeir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Björn Thors. Einn af mínum uppáhaldsleikurum Ólafur Darri Ólafsson er ekki síður þungamiðja í sýningunni og ber hana uppi ásamt Ilmi Kristjánsdóttur og Ólafíu Hrönn. Öll eiga þau frábæran leik. Mér þótti líka gaman að sjá glænýtt og efnilegt fólk..., Stefán Hall Stefánsson.
Í sýningunni flytur leikhópurinn nokkur þekkt sönglög sem eru skemmtilega valin og passa inn í sýninguna eins og þau hafi aldrei verið samin af öðru tilefni :) Ég er kominn heim eftir Kalmann sem er eitt af mínum uppáhalds sönglögum, Stuðmannalagið Íslenskir karlmenn, Pínulítill kall -Þursaflokkurinn og Stolt siglir fleyið mitt eftir Gylfa Ægisson.
Samspil búningahönnunar Helgu I Stefánsdóttur og leikmynd Grétars Reynissonar er frumleg og listræn upplifun sem lyftir sýningunni um mörg þrep.
Athugasemdir