Gömul slagsmál og ný

Gömul slagsmál og ný Það var stundum talsvert tekist á í götunni heima í Ólafsfirði þegar ég var að alast þar upp fyrir margt löngu. Í hverfinu voru

Fréttir

Gömul slagsmál og ný

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Það var stundum talsvert tekist á í götunni heima í Ólafsfirði þegar ég var að alast þar upp fyrir margt löngu. Í hverfinu voru líka nokkrir liðtækir bardagamenn sem flestir stóðu mér framar á þessu sviði. Frændi minn einn er mér minnistæður á þessu sviði. Ekki sökum þess að hann væri sérstaklega bardagafús og auðreittur til slagsmála, sem hann var ekki. Þegar til kom  þótti hann hinsvegar þrausteigur og ekki líklegur til uppgjafar og var oftast nær síðastur okkar sem lagði á flótta ef aðstæður buðu ekki upp á annað.Hann þótti líka fylginn sér í götuvígum og óvenju höggþungur. Hann fann síðar kröftum sínum farveg í höggmyndalistinni, sem er miklu uppbyggilegra og þannig hefur hann að auki náð að næra illa þroskuð skilningarvit okkar hinna í götunni sem fórum aðra leið í gegnum lífið.
Stóru strákarnir í götunni man ég að voru bæði ósanngjarnir og fólskulegir í sínum orustum gagnvart okkur. Ég skildi það síðar að þannig er það yfirleitt með þá sem eru stærri og sterkari. Þeir eru oftast nær fautar.
Ég lenti hinsvegar afar sjaldan í slagsmálum sem heitir getur eftir götubardagana fyrir norðan enda þótti ég ekki liðtækur í þess lags upp á komur. Þó var eitthvað tuskast á ef tilefni þóttu til fram á unglingsárin eins og gengur. Ég held að ég geti fullyrt að síðustu slagsmál mín hafi farið fram eina fagra sumarnótt í Vestamannaeyjum sumarið 1979 þar sem ég tókst á við annan norðlensk ættaðan sjómann í fullkominni illsku. Ég man ekki hvert tilefnið var né hvernig áflogunum lauk. Hitt man ég þó að við grétum báðir að þeim loknum, föðmuðumst og kysstum af þeim kærleik einum saman sem aðeins íslenskt brennivín getur laðað fram í norðlenskum hjörtum.
Síðan hef ég verið til friðs á þessu sviði enda sleit ég fljótlega eftir þetta áralöngnum vinskap við einn mesta slagsmála hund allra tíma eftir að hafa orðið undir í all löngum átökum við hann eins og margir fleiri. Eftir það hef ég beitt fyrir mig fótunum þegar til áfloga hefur komið og forðað mér á hlaupum undan öllu slíku.
Það var því í algjörri forundran sem ég fékk fréttir af því fyrr í dag að ég hefði lent í slagsmálum við einn af stjórnlagaráðsmanninn Pétur Gunnlaugsson suður í henni Reykjavík á dögunum. Það er með þá sögu eins og allar betri sögur, að sannleikurinn eyðileggur þær.
Enda vita þeir sem til okkar beggja þekkja að hefði Pétur sterki tekið á mér, ég sæti ekki hér norður á Akureyri og skrifaði þennan pistil.

Athugasemdir

06.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst