Heimsfaraldur inflúensu
Mér varð hugsað til þess þegar ég lá með svínaflensuna í síðustu viku hvað stutt er síðan ég var nokkuð viss um að kominn væri heimsfaraldur.
Þann 29. apríl sl. skrifaði ég blogg "Svínaflensan lögð af stað í leiðangur".
Svínainflúensan virðist vera lögð í hann um heiminn. Góðu fréttirnar eru þær að til eru lyf sem virka á svínaflensuna, ólíkt fuglaflensunni sem óttast var að breiddist út og búið er að fylgjast með á liðnum árum.
Það eru mörg lönd sem hafa viðbúnað og viðbragðsáætlanir til að bregðast við farandi og er Ísland eitt þeirra. Ég tók þátt í mótun þeirrar áætlunar þegar ég vann hjá Rauða krossinum og fylgir því mikið öryggi fólgið í því að vita af því að aðilar eru búnir að móta samhæfingu og samstarf ef til faraldurs kemur. En þetta er þó viðráðanlegri stofn og er ég því bara nokkuð björt yfir ástandinu og óttast ekki að heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir ráði ekki við verkefnið ef til þess kemur.
Hér eru frekari upplýsingar um pestina http://www.influensa.is/"
Á síðustu öld gengu þrír heimsfaraldrar inflúensu yfir; sá fyrsti var nefndur spánska veikin 1918-1919, næsti heimsfaraldur sem fékk heitið Asíuinflúensan gekk yfir 1957-1958, sá síðasti árin 1968-1969 var kenndur við Hong Kong. Þegar fuglaflensan fór að ganga var talið mögulegt að H5N1 fuglainflúensan gæti orsakað næsta heimsfaraldur inflúensu með stökkbreytingu eða samruna, en það reyndist verða H1N1 sem nú gengur eins og eldur í sinu um landið þessa dagana.
Á vef Landlæknis sá ég að þann 11. október 2009 höfðu alls 323 einstaklingar greinst með inflúensu A(H1N1)v 2009 á Íslandi sem staðfest var á veirufræðideild Landspítala. Þar af voru 171 karlar og 152 konur. Tilfelli hafa nú greinst hjá fólki með búsetu á öllum sóttvarnaumdæmum.
Síðastliðnar tvær vikur má sjá mikla aukningu á tilfellum sem staðfest eru með sýnatöku þrátt fyrir tilmæli frá því um miðjan ágúst (viku 33) um að dregið skyldi úr sýnatöku, sjá mynd 4. Samtímis fjölgaði sýnum sem send eru í rannsókn og endurspeglar það að líkindum aukinn fjölda inflúensutilfella í samfélaginu. Hlutfall sýna sem reyndust jákvæð fyrir inflúensu A(H1N1)v 2009 hækkaði einnig mikið síðustu tvær vikur (sjá mynd 5) og má því álykta að þeir sem fá einkenni inflúensu núna séu mjög líklega með inflúensu A(H1N1)v 2009.
Þetta er algjörlega í samræmi við það sem maður sér í kring um sig. Mjög margir eru veikir og nú er bóluefnið komið til landsins og um að gera fyrir þá sem ekki þegar hafa veikst að láta bólusetja sig.
Byrjað að bólusetja |
Athugasemdir