Hitaröð fyrir Grænlandsjökul
Í tengslum við sjávarborðshækkun og bráðnun jökulíss Grænlands hefur nýleg tilbúin hitaröð alveg frá 1840 fyrir Grænlandsjökul fengið nokkra umræðu.
Jason Box í Byrd Polar Research Center við háskólann í Ohio hefur ásamt öðrum sett saman langtímahitaröð sem sýna á hitafrávik á Grænlandsjökli svona heilt yfir. Grunnur hennar eru vitanlega tiltækar hitamælingar, en staðbundu veðurfarslíkani hefur líka verið beitt svo langt sem sú tækni nær til að endurskapa meðalhita.
En niðurstaða Box og félaga sem birt var í Journal of Climate seint á síðasta ári, er engu að síður nokkuð athyglisverð. Skörp hlýnun á milli 1920 og 1930 er í takt við það sem hér var að gerast í hitafari á sama tíma. Kaldi kaflinn sem hófst upp úr 1960 er líka í ágætu samræmi við svipað niðursveiflu á Íslandi og þannig mætti áfram telja. Ógurlegur vetrarkuldi á níunda áratug 19. aldar var líka hér á landi, og útslagið jafnvel enn meira.
Það eru nokkur atriði á þessari athyglisverðu mynd sem ég vil gera að umtalsefni.
1. Efahyggjumenn um loftslagsbreytingar af manna völdum hafa látið nokkuð með það m.a. út frá þessari mynd að Grænland hafi hlýnað meira og hraðar snemma á síðustu öld en á allra síðustu áratugum, sem dragi úr trúverðugleika þess að hlýnun af mannavöldum sé jafn mikil og af er látið. Vel má sjá að hækkun vor- og vetrarhitans leggur mest til aukningarinnar snemma á 20. öldinni. Hækkun hita á þeim árstímum eru utan við leysingartímann og skiptir því í raun ekki máli þegar bráðnunin er annars vegar. Annars hafa gagnrýnendur nokkuð til síns máls í þessum efnum því náttúrulegar sveiflur okkar slóða á 30-50 ára fresti geta hæglega yfirskyggt lengri tíma (hægfara) sveiflur.
2. Sveiflurnar í meðalsumarhitanum á milli tímabila eru ótrúlega lítilfjörlegar í samanburði við aðrar árstíðir. Þekkt er hér á norðurslóðum að breytileiki hita í gráðum talið er minni að sumrinu en annars gerist, en það breytir því ekki að sveiflan frá köldu tímabili til þess sem hlýtt telst er um og innan við 1°C. Ef við álítum sem svo að þessi gögn endurspegli ríkjandi ástand hvers tíma þokkalega og eru lýsandi fyrir hitafar jökulsins í heild, er bráðnun af völdum leysingar að sumrinu sem rekja má beint til lofthitans e.t.v. minni en almennt er talið.
3. Hausthitinn hækkar á síðustu áratugum og hann rís fyrr en bæði vetrar- og vorhiti. Hækkaður hiti að hausti gæti bent til þess að leysingatíminn sé heldur lengri en áður var og það hafi áhrif til aukinnar bráðnunar jafnvel þó hita að sumri sýni minni sveiflu. Hafa ber í huga að leysing jökulíss á sér líka stað í miklum mæli við sólgeislun. Þá skiptir skýjafar og sót í yfirborðsísnum (t.d. frá mengun) talsverðu þegar meta skal bráðnun.
4. Hiti uppi á Grænlandsjöklinum er í nánum tengslum við háloftahitann, nánar tiltekið í 700 hPa fletinum. Þar sem ákveðið samræmi er á milli hitabreytinga á Grænlandsjökli og á Íslandi má ætla að hitafarið hér á landi og þá sérstaklega vetrar- og vorhitinn ráðist af verulegu leyti af háloftkulda yfir Grænlandi. Það eru í sjálfu sér engin ný sannindi, en fróðlegt engu að síður að sjá þau koma nokkuð skýrt fram á þessum hitalínuritum þeirra Box og félaga.
Athugasemdir