Hugleiðing um hrós

Hugleiðing um hrós Ég fékk hrós í vikunni sem mér þótti afskaplega mikið vænt um. Það er ótrúlegt hvað einlægt hrós getur verið gefandi og gert mikið

Fréttir

Hugleiðing um hrós

Marta B Helgadóttir
Marta B Helgadóttir
Ég fékk hrós í vikunni sem mér þótti afskaplega mikið vænt um. Það er ótrúlegt hvað einlægt hrós getur verið gefandi og gert mikið fyrir mann. 

Í daglega lífinu erum við allt of spör á hrósið við hvert annað. Þá á ég við fullorðið fólk sem umgengst við mismunandi aðstæður í daglega lífinu, til dæmis varðandi þjónustu, á vinnustöðum eða í fjölskyldu. Hrós getur hjálpað fólki til að sjá hvað er fallegt og gott í því sjálfu.

Sem uppalendur og foreldrar hrósum við og hvetjum börnin okkar. Við dáumst að þeim og elskum þau, og viljum hvetja þau í því sem þau eru að fást við hverju sinni. Jákvæð hvatning skilar mun meiru en annað viðmót í því sambandi. Hrós stuðlar að því að þau öðlist sjálfstraust og jákvæða ímynd af sjálfum sér.


http://martasmarta.blog.is/users/1d/martasmarta/img/n_gogn_my_pictures_encouragement.jpg

Sjálfsagt og eðlilegt fyrir suma    

Til að gleðja, hvetja eða dást að manneskju er hrósið sjálfsagt og eðlilegt fyrir suma en aðrir eiga mjög erfitt með að hrósa. Gott hrós segir mikið um þann sem gefur hrósið ef það kemur frá hjartanu. Með því að hrósa af einlægni sýnir maður persónulegan áhuga og viðurkenningu auk þess sem maður sýnir í verki að maður er eftirtektarsamur og vingjarnlegur. Hrósið verður hinsvegar innihaldslaust ef það er ofnotað.     

Algengara að sleppa því

Tvímælalaust er algengara að fólk hrósi ekki heldur en að fólk geri of mikið af því. Starfsánægjukannanir á Íslandi hafa sýnt að á íslenskum vinnustöðum er mikill skortur á hrósi í samskiptum fólks. Jafnvel einfaldar jákvæðar athugasemdir um útlit eða fatnað. Þó að það virðist auðvelt að segja við samstarfsmann: „flott peysa“ eða „þessi litur fer þér vel" eða „mikið lítur þú vel út í dag“, þá finnst okkur það samt erfitt. Við frestum því eða sleppum því bara alveg.

Það sama á við þar sem maður nýtur þjónustu. Þegar maður fær góða þjónustu, skyldi varla vera mikið á sig lagt að hrósa þeim sem veitir þjónustuna eða aðstoðina, en algengast er að fólk láti það samt ógert.   

Auðveldara í erfiðleikum

Flestir treysta sér til að hughreysta þá sem eiga í erfiðleikum, eru beygðir af einhverjum ástæðum. En af hverju skyldi vera svo erfitt fyrir suma að hrósa við aðrar "eðlilegar" aðstæður? Þegar okkur mislíkar erum við flest nógu fjlót til að gagnrýna eða kvarta.

Ekki alltaf hættulaust.

Ein ástæða fyrir að hrósa ekki, er ótti við röng viðbrögð las ég einhversstaðar. Við höfum oft tilhneigingu til að gera lítið úr hrósi eða draga úr því.

Ein af ástæðunum fyrir að fólk gleymir að hrósa getur verið skortur á eftirtekt. Fólk er misjafnlega eftirtektarsamt fyrir því að einhver er til dæmis í nýjum fötum og gerir því engar athugasemdir.  

Maður skapar stundum væntingar með því að hrósa. Sumir misskilja og halda að verið sé að daðra eða smjaðra þegar ætlunin er einungis að sýna vinsamlegt viðmót. 

Hrós er góð leið til að auka velíðan bæði okkar sjálfra og annarra ...og kostar ekkert WinkHeart



Athugasemdir

09.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst