Hugleiðing um læriföður og íslenskt viðskiptaumhverfi

Hugleiðing um læriföður og íslenskt viðskiptaumhverfi Áframhaldandi umræður á fésbókarsíðu bróður míns í dag um skattgreiðslur fyrirtækja minntu mig á

Fréttir

Hugleiðing um læriföður og íslenskt viðskiptaumhverfi

Signý Sigurðardóttir
Signý Sigurðardóttir
Áframhaldandi umræður á fésbókarsíðu bróður míns í dag um skattgreiðslur fyrirtækja minntu mig á samtal sem ástæða er til að rifja upp.

Þetta var samtal sem ég átti við Kristján heitinn Jónsson stofnanda og eiganda K. Jónssonar niðursuðuverksmiðjunnar á Akureyri. Eitt skipti af mörgum þar sem hann var í hlutverki læriföðursins og ég nemandans sem drakk í mig allt sem hann hafði að segja.

Hann var að ganga mér um verksmiðjusvæðið og segja mér sögu fyrirtækisins og bakgrunn. Hann sagði mér að ég áttaði mig kannski ekki á því en fyrir ekki svo mörgum árum hefðu Íslendingar varla þekkt hugtök eins og "eigið fé" eða "hagnað". Bókhaldsþekking hefði verið af mjög skornum skammti og sannarlega ekki verið aðalatriði í rekstri fyrirtækja eins og hans. Því miður man ég ekki samtalið í smáatriðum og get því ekki endurtekið það en það sem stimplaðist inn var þessi vitneskja hversu stutt var síðan að íslenskt samfélag fór að þróast fyrir alvöru. 

Kristján dáði Dani og Þjóðverja og naut þess að segja mér reynslusögur af þeim og hversu miklar fyrirmyndir þeir væru í rekstri fyrirtækja. Þeir væru fagmenn. Kynnu rekstur og hefðu þekkingu á viðskiptum og síðast en ekki síst kynnu að selja en það var eitthvað sem Kristján taldi Íslendinga alls ekki kunna. Hann sagði mér margar sögur af því hversu ótrúlega snjallir Danir væru í að versla með alla skapaða hluti. Fengju hugmyndir að samsetningu einhverra hluta og selja þá aftur með öllum þeim virðisauka sem í samsetningu þeirra fólst.

Danir eiga engar auðlindir og því hafa þær ekkert verið að þvælast fyrir þeim. Þeir hafa því þurft að sýna útsjónarsemi og hugvit til lífsviðurværis og auðvitað hafa þeir búið að staðsetningunni sem kannski má til sanns vegar færa að sé "auðlind" í sjálfu sér.

Það skemmtilega var að ég var sammála Kristjáni. Vann í umhverfi þar sem ég gat myndað mér skoðanir á því sem hann var að segja og ég var algjörlega sammála honum. Þessar tvær þjóðir hafa alltaf verið mitt uppáhald í viðskiptum og ég óskaði þess oft í bægslaganginum sem landar mínir viðhöfðu að þeir hefðu nú vit á því að læra meira af þessum nágrannaþjóðum, ég óska þess oft enn... í hljóði.

Þegar ég fór svo löngu síðar í Viðskiptaháskólann á Bifröst og fór að takast á við ýmiss lög og reglur viðskiptaumhverfisins áttaði ég mig á að allt var þetta meira og minna komið inn í íslenskan rétt vegna EES samningsins. Lög um bókhald (ef ég man rétt...), og nú brestur mig minni... man þetta ekki en meira og minna allt sem komið hafði reglu á íslenskt fyrirtækjaumhverfi kom inn vegna EES. Erlend áhrif höfðu þannig haft gríðarleg áhrif á þróun laga og reglna utan um íslenskt viðskiptaumhverfi á örfáum árum. Þó reyndar væri líka mjög áberandi hversu oft íslenski löggjafinn misskildi meginmálið og gerði afdrifaríkar vitleysur.

Þessi reynsla sem vísað er til hér að ofan kenndi mér margt. Hún kenndi mér að Íslendingar mættu svo gjarna að ósekju hætta oflátungshætti og sýna meiri auðmýkt og vilja til að læra af öðrum þjóðum sem í flestum tilfellum byggja á árhundraða reynslu umfram þá í viðskiptum. Þeir mættu líka að ósekju læra að bera virðingu fyrir fagmennsku og þeim atvinnugreinum sem hafa gert þeim kleift að lifa af og ekki bara það - heldur búa þeim lífskjör á við þau bestu í heimi.

Guðbergur Bergsson á einhverju sinni að hafa sagt "Íslendingar hafa alltaf hatast út í það sem þeir lifa á" Ég hallast að því að sú skilgreining sé rétt hvort sem rétt er eftir haft eða ekki. Íslendingar kunna fátt betur en að hatast út í þær atvinnugreinar sem fyrst og síðast hafa búið til undirstöður fyrir þau lífskjör sem við öll njótum. Er ekki kominn tími til að við förum að horfast í augu við það?

Athugasemdir

09.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst