Jóel litli
Þegar foreldrar Jóels litla fóru af stað með þetta ferli, staðgöngumæðrun erlendis þá vissu þau að það er ólöglegt skv íslenskum lögum. Allir fullorðnir vel upplýstir íbúar á vesturlöndum vita líka að ef gift kona fæðir barn þó á Indlandi sé, þá er maki konunnar barnsfaðirinn í augum laganna. Þau hafa því vitað fullvel að hér var á brattann að sækja með ýmislegt varðandi fæðingu litla Jóels. Kjarkinn hefur þau ekki vantað sem betur fer.
Vitaskuld þarf að endurskoða löggjöfina á Íslandi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks hafði frumkvæði að undirbúningi þingsályktunartillögu um heimild til staðgöngumæðrunar. Nú hafa þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu lagt fram á Alþingi sameiginlega þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun þar sem heilbrigðisráðherra verði gert að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp.- Að mörgu ber að hyggja í þessum viðkvæmu málum og mörgum spurningum að svara bæði siðferðilegum og praktískum til að fyrirbyggja sem best að vandamál geti komið upp síðar. Hér er vonandi um þverpólitískt verkefni að ræða sem getur orðið til að auka á hamingju íslendinga þegar fram í sækir.
Ég held að full ástæða sé til að endurskoða sömuleiðis löggjöf um ættleiðingar, hvort við séum ekki með of þröng skilyrði og gerum fólki óþarflega erfitt fyrir.
Það er ánægjulegt að þetta einstaka mál fær nú loks farsælan endi og að Jóel litli er væntanlegur til Keflavíkur með hugdjörfum foreldrum sínum.
Mig langar til að óska fjölskyldunni innilega til hamingju. Megi þeim farnast vel í framtíðinni.
Jóel vegni sem allra best í lífinu |
Athugasemdir