Júní 1910 - fyrir einni öld

Júní 1910 - fyrir einni öld Í bókinni Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson fær júní 1910 þessi eftirmæli: "Kalt. Nokkuð skakviðrasamt

Fréttir

Júní 1910 - fyrir einni öld

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Í bókinni Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson fær júní 1910 þessi eftirmæli: "Kalt. Nokkuð skakviðrasamt vestan- og norðanlands framan af mánuðinum, m.a. gerði alhvíta jörð suður í Borgarfjörð, síðast 13. júní, en annars var betri tíð."

Ástæða þess að ég rifja hér upp tíðina fyrir hundrað árum er ekki sú að veðurfarið hafi verið sérlega afbrigðilegt með einhverjum hætti, heldur að afrakstur vinnu NOAA vestur í Bandaríkjunum á endurgreiningu veðurkorta liggur nú fyrir.  Dagleg veðurkort má nú nálgast allt aftur til ársins 1891.  Einfölduð yfirborðskort loftþrýstings hafa alllengi verið fáanleg svo langt aftur, en nú hefur tekist að reikna út ástand og lóðsnið alls lofthjúpsins út frá tiltölulega fáum athugunum á jörðu niðri.  Eins og gefur að skilja þarf víða að fylla í eyður og stunda ágiskanir, en niðurstaðan kemur engu að síður á óvart fyrir það hversu trúverðug hún er í raun.  Ég fjalla sérstaklega og nánar um þessa aðferðarfræði síðar, en einbeita mér hér frekar að júní 1910 og hvað hann sýnir.

Fyrst er hér veðurkort, sem afrakstur þessarar endurgreiningar. Talað er að snjóað hafi suður í Borgarfjörð, síðast 13. júní. Kortið hér að neðan sýnir hæðina á 1000 hPa fletinum og jafngildir þrýstingi við jörð í raun. Gildistíminn er 13. júní kl. 00. Sjá má að lægð hefur verið á Grænlandshafi og S-átt  á landinu. Sú til hægri sýnir hita í 850 hPa.  Hann hefur samkvæmt þessu verið um -2°C og bara sæmilega milt og engan veginn nógu kalt til þess að frá fram snjókomu.

 

picture_37_999832.png picture_38_999833.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta getur vart talist trúverðugt og skoðaði ég dagsetningar í kring. Ekki tókst að finna skýr skilyrði til snjókomu um þetta leyti þ.e. kalda N- eða V-átt.  

Ef hins vegar er tekið meðaltal hita í 1000 hPa fletinum allan mánuðinn kemur fram greinilegt kuldafrávik upp á 0,5- 1,0°C frá meðallagi á mest öllu landinu.  Athugið að viðmiðunartímabilið er ekki hin hefðbundnu 30 ár, hér 1921 til 1950.  Í Stykkishólmi var þannig frekar kalt og meðalhitinn ekki nema 6,8°C.  Það er næstum tveimur gráðum undir meðallagi og er það stuðst við sömu árin til viðmiðunar og hér.  

picture_39_999835.png

Þessa endurgreiningu frá NOAA sem svo miklar vonir eru bundnar við þarf klárlega að skoða með varúð. Dæmið hér að ofan frá því fyrir nákvæmlega öld eða 13. júní 1910, sýnir að hafa þarf varann á við túlkun. Og þá gef ég mér það vitanlega að dagsetningin í bók Trausta sé ekki röng !


Athugasemdir

08.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst