Kosningarnar 2009

Kosningarnar 2009 Nú eru örlagaríkar kosningar fram undan og komið að lokum stuttrar kosningabaráttu. Það er ekki ofsögum sagt að áður óþekkt verkefni

Fréttir

Kosningarnar 2009

Birkir Jón Jónsson
Birkir Jón Jónsson
Nú eru örlagaríkar kosningar fram undan og komið að lokum stuttrar kosningabaráttu. Það er ekki ofsögum sagt að áður óþekkt verkefni bíða þeirra stjórnmálamanna sem kjörnir verða til að reisa við efnahag og atvinnulíf á Íslandi og verja velferðarsamfélagið sem byggt hefur verið upp síðustu áratugina. Þetta verkefni verður að ráðast í án öfga, jafnframt því að endurreisa traust í samfélaginu milli stjórnvalda og almennings.

Framsóknarflokkurinn stendur á tímamótum í þessari kosningabaráttu. Ný kynslóð hefur tekið við forystunni og framboðsmálum í flokknum. Það er bjargföst trú mín að sú sveit frambjóðenda hafi einlægan vilja til þess að takast á við þau risavöxnu samfélagsverkefni sem fram undan eru á ábyrgan, einlægan og öfgalausan hátt.

Við frambjóðendur flokksins höfum kynnt í kosningabaráttunni tillögur um skuldaleiðréttingu í þágu heimilanna og fyrirtækjanna. Við höfum nú eins og ávallt áður ríkan skilning á því að velferð þjóðar skapast ekki nema á grundvelli öflugrar atvinnuuppbyggingar. Þetta tvennt er óaðskiljanlegt. Við höfum kynnt þann einlæga ásetning okkar að reisa atvinnulífið við á ný, þannig að hægt sé að ráða við ríkisfjármálin á þann hátt að menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og félagslegu öryggisneti sé borgið. Til þess að svo megi verða má einskis láta ófreistað í nýjum atvinnutækifærum. Það er auðvitað fáheyrt að forystumenn flokka eins og Vinstri grænna, flokks sem ætlar sér stóra hluti á komandi misserum í stjórn landsins, séu að deila um það hvort megi rannsaka auðlindir landsins. Fyrir kjósendur í Norðausturkjördæmi og þjóðina alla eru þetta einkennileg tíðindi. Sömuleiðis hik og sundurlyndi í Samfylkingunni og misvísandi ummæli iðnaðarráðherra um álver á Bakka við Húsavík, eftir því hvort hann er staddur fyrir sunnan eða norðan.

Það er nauðsynlegt að Framsóknarflokkurinn fái afl til þess í kosningum að hafa áhrif í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Það er þörf fyrir öfgalaust fólk með fæturna á jörðinni í þeirri vinnu.

Ég hef notað þann tíma sem gefist hefur frá þingstörfum síðustu vikurnar til þess að hitta fólk í hinu víðlenda Norðausturkjördæmi. Sá tími sem til þess hefur gefist er skammur að þessu sinni. Eigi að síður hef ég haft þau forréttindi að hitta það góða fólk sem þar býr og hef notið til þess stuðnings og hjálpar traustra flokksmanna kjördæmisins sem hafa borið starfið uppi árum saman. Í kjördæminu leggjum við fram góðan og samhentan lista fólks sem hefur reynslu í stjórnmálum og lífinu sjálfu, sem er auðvitað allra mikilvægast.

Kærar þakkir, kjósendur og stuðningsmenn. Ég heiti því að vinna ykkur og þjóðinni allri það sem ég má.


Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst