Leshringur, bókaspjallið er hafið

Leshringur, bókaspjallið er hafið Kæru félagar í Leshring. Þá er loks komið að því að ræða bókina Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.  Umræðan

Fréttir

Leshringur, bókaspjallið er hafið

Marta B Helgadóttir
Marta B Helgadóttir
Kæru félagar í Leshring.

Þá er loks komið að því að ræða bókina Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. 

Umræðan fer fram næstu daga hér í athugasemdakerfinu við þessa færslu.

Góða skemmtun WizardHappy

Umsögn Söru McMahon um Skaparann, af vefnum student.is :

Skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Skaparinn, fjallar í stuttu máli um Svein, sem hefur lifibrauð sitt af því að smíða sérstaklega vandaðar kynlífsbrúður. Sveinn býr og starfar einn og er hálfgerður einfari en kynnist óvænt Lóu þegar springur á bíl hennar fyrir utan hús hans. Sveinn finnur sig knúinn til að koma henni til aðstoðar og býður henni inn á heimili sitt og í kjölfarið dregst hann ósjálfrátt inn í atburðarrás þar sem mannlegt eðli og tilfinningar spila stórt hlutverk.

Skaparinn er sjötta skáldsaga Guðrúnar Evu en áður hefur hún meðal annars gefið frá sér skáldverkin Yosoy og Sagan af sjóreknu píanóunum. Hún hefur einnig gefið frá sér smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey og að auki nokkrar ljóðabækur.

Guðrún Eva er einn þeirra ungu rithöfunda sem hefur vakið hvað mesta athygli síðustu ár og hefur hún hlotið ýmis verðlaun fyrir verk sín, þar á meðal Menningarverðlaun DV árið 2005 fyrir skáldsöguna Yosoy.

Í Skaparanum veltir Guðrún Eva fram ýmsum heimspekilegum spurningum um samskipti kynjanna, siðferðislega ábyrgð einstaklingsins og samfélagslega ábyrgð okkar sem lifum og hrærumst í nútíma samfélagi þar sem nánd og samkennd virðist oft vera á undanhaldi, en Guðrún Eva stundaði nám í heimspeki á yngri árum og því er ekki að undra að í sögum hennar sé að finna heimspekilegann undirtón.

Meðal þess sem Guðrún Eva tekur fyrir í Skaparanum er siðferðisleg ábyrgð einstaklingsins, Sveinn veltir til dæmis fyrir sér hvort honum beri siðferðisleg og samfélagsleg skylda til að framleiða dúkkur með barnavöxt, þrátt fyrir að það veki með honum viðbjóð, þar sem það gæti mögulega komið í veg fyrir að menn með slíkar langanir herji á börn. Sveinn veltir einnig fyrir sér hvort fyrrverandi sambýliskona hans hafi verið öfundsjúk út í lýtalausar brúðurnar sem hann handleikur allan daginn og hvort konur og karlar líti á brúðurnar sömu augum.

Sagan fjallar einnig um einsemd og einveru, óttann við höfnun sem við flest berum í brjósti, en tekst einnig á við alvarleg vandamál líkt og lystarstol.

Brúðusmiðurinn Sveinn býr einn á Akranesi og umgengst fáa, hann virðist eiga aðeins einn vin, Kjartan, en hann er einnig viðskiptavinur Sveins. Því má segja að Sveinn búi í hálfgerðu karlasamfélagi, þó lítið sé, þar sem hann á engin samskipti við konur aðra en móður sína svo vitað sé. Þegar Sveinn eltir Lóu til Reykjavíkur gengur hann aftur á móti inn í lítið og lokað samfélag kvenna, Lóa á tvær dætur og hjá henni býr einnig gömul vinkona. Móðir Lóu er sömuleiðis henni til halds og trausts á erfiðum tímum. Þetta kvennasamfélag kallast á við karlasamfélagið í annari sögu Guðrúnar Evu, Ljúlí, ljúlí, sem kom út árið 1999, en þar býr söguhetjan, Saga, á heimili fullu af karlmönnum.

Skaparinn gerist í mjög hversdagslegu umhverfi en er þó á mörkum þess hryllilega og þess ótrúlega líkt og margar aðrar sögur Guðrúnar Evu, og má þá helst nefna smásagnasafn hennar Á meðan hann horfir á þig ertu María mey þar sem umhverfið er hversdagslegt en atburðirnir oft absúrd. Sagan er vel skrifuð og er stíll Guðrúnar Evu mjög hreinn og beinn en sérstaklega áhrifamikill. Sagan sjálf gerist á einni viku, frá föstudegi til föstudags, og er atburðarrásinni lýst bæði frá sjónarhorni Sveins og frá sjónarhorni Lóu og því fær lesandinn góða sýn á hversu ólík kynin geta verið.

Skaparinn er spennandi og skemmtileg lesning og gott dæmi um ótvíræða hæfileika Guðrúnar Evu til að segja sögur.




Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst