Markaðshagkerfi eða skipulag

Markaðshagkerfi eða skipulag Hugmyndafræði „liðins" tíma Það virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu að frumvörp um breytingu á lögum um

Fréttir

Markaðshagkerfi eða skipulag

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Hugmyndafræði „liðins" tíma

Það virðist hafa komið mörgum í opna skjöldu að frumvörp um breytingu á lögum um fiskveiðastjórnunarmál hafi verið sett fram mánuði áður en hagfræðilegt mat á tillögunum liggur fyrir.  Hér er einhver reginmisskilningur á ferð þar sem tillögur sjávarútvegsráðherra hafa ekkert með hagfræði að gera, heldur snýst málið eingöngu um hugmyndafræði.

Undirritaður hefur áður bent á að andstæðingar núverandi fiskveiðastjórnunarkerfis og þeir sem helst hafa sig í frammi um að umbreyta stjórn fiskveiða, eru í raun að berjast gegn markaðsbúskap og vilja innleiða ríkisforsjá.  Þeir trúa þvi að landsmenn séu betur settir með skipulag þar sem stjórnmálamenn taka ákvarðanir um hver skuli veiða hvað, hvernig, hvar og fyrir hvern.  Markaðurinn sé vondur og þóknist eingöngu gráðugum auðvaldsinnum.  Það er ekki nema von að umræðan sé úti á túni þegar umræðuefnið er á reiki.

Stefna Vinstri grænna

Vinstri grænir hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að umbreyta samfélaginu, frá markaðsbúskap til skipulags, þar sem hinn allt-um-umlykjandi faðmur ríkisins gætir hagsmuna almennings.  Taki ákvarðanir sem eru sanngjarnar og réttlátar og tryggja að allir séu jafnir og engin skari eld að sinni köku.  Með óskeikulli visku sinni munu stjórnmálamenn taka allar ákvarðanir, landsmönnum til heilla.  Þetta sést vel á skattastefnu flokksins sem er langt frá því sett til að hámarka verðmætasköpun og efnahagslega velsæld þjóðarinnar.  Þetta blasir líka við í afstöðu þeirra til atvinnumála og ekki síður peningamálastefnu og gjaldeyrishafta.

Varðandi hina nýju sjávarútvegsstefnu þá skiptir arðsemi skiptir engu máli og markmiðið er að fjölga sjómönnum og leyfa sem flestum að spreyta sig á að veiða fisk.  Það skiptir engu máli þó það verði til þess að auka sóknargetu og valdi sóun á fjármunum og mannauði.  Tilgangurinn helgar meðalið og þrátt fyrir að að sporin hræði í þessum efnum er  allri hagfræðilegri þekkingu hent fyrir róða fyrir hugmyndafræðina.  Þetta fólk lítur þannig á málin að peningarnir séu til og aðeins þurfi að skipta þeim „réttlátt" milli þegnanna.  Enginn skilningur á verðmætasköpun eða skilvirkni framleiðsluþátta.

Hvar eru kratarnir?

En hvað vakir fyrir krötum í Samfylkingunni  sem ættu einmitt að verja markaðsbúskap og viðskiptafrelsi?  Helsta markmiðið með stofnun Evrópusambandsins er einmitt að koma á markaðsbúskap og verja lýð- og atvinnufrelsi.  Hvernig er hægt að berjast fyrir inngöngu í ESB og á sama tíma þjóðnýta atvinnulífið á Íslandi.  Getur það verið að stór hópur innan Samfylkingarinnar hafi tapað öllum tengslum við atvinnulífið og skilji ekki hvað verðmætasköpun er?  Fólk sem notar meðal annars ræðustól Alþingis til að úthrópa heilu atvinnugreinarnar með uppnefnum og stóryrðum.  Eru kratar heillum horfnir og hafvilla í ólgusjó skipbrota hugmyndafræði?  Er engin von til að þeir spyrni við fótum og knýi fram stefnubreytingu á  þjóðarskútunni?  Allir þeir sem trúa á frjáls hagkerfi þar sem framtak einstaklinga fær að njóta sín þurfa nú að taka höndum saman til að stöðva þá öfugþróun sem á sér stað í íslenskir pólitík.  Þróun sem mun leiða til atgerfisflótta og verri lífskjara fyrir þjóðina.




Athugasemdir

06.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst