Samfylkingin svíkur þjóð sína

Samfylkingin svíkur þjóð sína  Í gær missti þjóðin af góðu tækifæri til að losna við sjálfstæðisflokkinn úr ríkisstjórn landsins, þar sem hann hefur

Fréttir

Samfylkingin svíkur þjóð sína

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
 Í gær missti þjóðin af góðu tækifæri til að losna við sjálfstæðisflokkinn úr ríkisstjórn landsins, þar sem hann hefur leikið lausum hala í nærri tvo áratugi. Í stað þess að grípa tækifærið sem Vinstri grænir færðu Samfylkingunni með því að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina, límdu kratarnir sig enn fastar en áður við sjálfstæðisflokkinn og virðast ákveðnari en nokkru sinni fyrr að halda sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Hvers vegna? Hvað veldur því að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku lýsir yfir svo afdráttarlausri hollustu við þann flokk sem er fjarlægastur jafnaðarmennskunni? Hversvegna sjá liðsmenn Samfylkingarinnar frekar möguleika á því að ná stefnumálum sínum í gegn með frjálshyggjuflokki eins og sjálfstæðisflokknum en með þeim sem ættu að standa þeim nærri í lífsskoðunum? Siglir Samfylkingin kannski undir fölsku flaggi? Er flokkurinn ekki jafnaðarmannaflokkur heldur hægrisinnaður krataflokkur líkt og gamli alþýðuflokkurinn var, sem lagðist undir íhaldið hvenær sem hann sá möguleika á því? Ég veit það ekki en á bágt með að trúa því að margt af því ágæta samfylkingarfólki sem ég þekki vilji skilgreina sig sem slíkt. Hefði það ekki verið sterkur leikur hjá forystu Samfylkingarinnar að mæta á þjóðfundinn í Háskólabíói í gær og lýsa yfir því að tíma sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn væri lokið, boðað yrði til kosninga þar sem leitað yrði eftir stuðningi þjóðarinnar við myndun félagshyggjustjórnar, vinstristjórnar á Íslandi sem væri ætlað það hlutverk að leiða landið út úr þeim ógöngum sem sjálfstæðismenn hafa komið okkur í? Það yrði ríkisstjórn sem setti fólk ofar fjármagni, stjórn sem væri ekki sýkt af spillingu fyrri stjórna. Það hefði verið glæsileg innkoma á fundinn í gær af hálfu Samfylkingarinnar. En þess í stað hölluðu þau sér enn frekar til hægri, í fangið á frjálshyggjunni og voru höfð að háði og spotti fyrir vikið. Íslendingar voru því sviptir gullnu tækifæri til að skipta ríkisstjórn landsins sem svo ákaft er kallað eftir. Samfylkingin neitaði þjóðinni um þá sjálfsögðu ósk að vísa sjálfstæðisflokknum á dyr.

Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst