Out of Afrika

Out of Afrika Nú líður að lokum vegferðar minnar á vegum Þróunar og samvinustofnunar Íslands, og heimferð framundan eftir rúmlega tveggja ára starf á

Fréttir

Out of Afrika

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Nú líður að lokum vegferðar minnar á vegum Þróunar og samvinustofnunar Íslands, og heimferð framundan eftir rúmlega tveggja ára starf á Sri Lanka og Úganda.  Ég dvaldi í eitt ár í hverju landi og hef orðið margs vísari eftir viðkynningu við ólíka menningaheima þar sem ólík gildi ríkja miðað við Evrópu.

Þó verð ég að segja að Sri Lanka er fjarri þeim gildum sem ríkja á Íslandi en Úganda, og vegur þar þyngst ríkjandi trúarbrögð sem móta fólkið þannig að hugmyndir og gildismat eru gjör ólík.  Hér er ekki lagður dómur á hvort það sé betra eða verra heldur að það sé ólíkt.  Gildismat þessa fólks og hvernig það upplifir til dæmis rétt og rangt, fallegt og ljótt, gott og slæmt; er gjörólíkt því sem við eigum að venjast.

Afríka hinsvegar mótast af því hvaða löndum þau tilheyrðu á nýlendutímanum.  Eitt af vonbrigðum mínum við að koma til Úganda var að ímynd mín um lífsglatt fólk sem dillaði sér eftir tónlist stóðst engan vegin.  Fólkið er hér frekar alvörugefið og tónlistin víðsfjarri.  Hér ríkja bresk áhrif en þar sem portúgölsk áhrif ríkja, s.s. í Congo, Angóla og Mósambik, er allt annað uppi á teningnum.  Þar ríkir mikil tónlistahefð og fólk virðist léttara í viðmóti og lífsglatt.  Svona suðurlanda áhrif.  Hinsvegar skildu Bretar eftir öflugt stofnanakerfi í sínum nýlendum en Belgarnir stjórnleysi. 

Portúgölsk áhrif eru einnig á Sri Lanka þar sem fámennur hópur fólks, Burgeries, eru afkomendur portúgalskra nýlenduherra.  Þeir eru að sjálfsögðu kaþólikkar, eru síkátir og tónlistin þeim í blóð borin.  Ég minnist þess þegar vísindamenn NARA, samstarfsaðili ÞSSÍ á Sri Lanka, héldu mér kveðjuveislu við brottför mína frá landinu, að á sviðinu var hljómsveit sem spilaði sjóð-heit sjóaralög í suðurlanda stíl.  Ég nærri kannaðist við sum lögin, sem leiftruðu af lífsgleið og rómantík hafsins.  Þetta var svo gjörólíkt Sri Lanka og eins og hljómsveitinn hefði dottið af himnum ofan.  En viti menn að félagar mínir, sem voru bæði búddistar og hindú, byrjuðu að syngja með og lifnaði heldur betur yfir þeim.

Ég hef verið að furða mig á því hve ólíkt verklag ríkir meðal samstarfsmanna hér í Úganda miðað við það sem normið virðist vera.  Öll þjónusta er slök hér og stofnanir sem unnið er með virðast eiga erfitt með að taka ákvarðanir og hrinda verkefnum í framkvæmd.  Það hefur ekkert með leti að gera heldur uppbyggingu á stjórnskipulagi.  Stjórnlögin eru svo mörg og þétt að erfitt reynist að koma málum í gegn um þau, frá botni til topps, og ákvarðanafælni er alger.  Hinsvegar þegar unnið er samkvæmt venjum vesturlanda, eru ákvarðanir teknar hratt og vandamálum ýtt til hliðar.  Það hefur verið sérlega gaman að vinna með því fólki sem koma að okkar verkefnum og óhætt að segja að það fólk er stendur vesturlandabúum hvergi að baki í afköstum.

Fyrirbæri sem ég hef velt mikið fyrir hérna er það sem kalla má ,,ómeðvitaðaur dónaskapur"  Þetta er ríkjandi fyrirkomulag, hvort sem er í umferðinni eða lyftunni hér í skrifstofubyggingunni eða í verslunum.  Menn brenna rusli inn í miðju íbúðarhverfi og nokkrum sinnum hef ég lent í því á golfvellinum að þurfa að flýja undan ruslabrennum nágrannana.  Sennilega var þetta svona heima á Íslandi fyrir einhverjum áratugum.  Ég held að þetta komi til af reynsluleysi í að búa borgarsamfélögum.  Bretar, sem eru þekktir fyrir kurteisi, hafa í gegnum aldirnar komið sér um samskipasiðum til að bæta lífsgæði sín í þéttbýli.  Fyrir þá er þessi ,,ómeðvitaði dónaskapur" algerlega óþolandi.

Ég hef verið mjög forvitinn í dvöl minni í þessum tveimur löndum og spurt mikið um allt milli himins og jarðar.  Spurningarnar virðast oftar en ekki koma flatt upp á menn þar sem þeir hafa aldrei hugleitt þá hluti sem mér þykja merkilegir.  Af hverju koma menn sér ekki upp flutningstækjum til að flytja vat?  Kannski af því að konurnar eru notaðar til að bera það, og það kostar ekki neitt.  Af sömu ástæðu hafa menn engan áhuga á að lagfæra bilaðan brunn, sem bæði styttir aðdrætti og færir fólki gott vatn.  Frekar drekka menn skolp úr ánni sem er mengað af bakteríum og aðskotaefnum.

Það sem stendur upp úr eftir þessi tvö ár er að gera mér grein fyrir því hvað Íslendingar hafa það gott, jafnvel í miðri kreppu.  Allir sem hafa heilsu fá tækifæri til að láta drauma sína rætast.  Vilji einhver mennta sig er leiðin opin og í framhaldi verið auðvelt að fá starf, enda vinnumarkaður sveigjanlegur og opinn á Íslandi.  Lýðréttindi eru með því besta sem þekkist í veröldinni og mennta- og skólakerfi einnig.  Þegar ég hinsvegar horfi yfir fjöldann hér, sérstaklega út í sveitum landsins, þá blasir við vonleysi og fátækt.  Þar er engin leið út eymdinni og ungir menn láta sig dreyma um að komast til Kampala og aka boda-boda eða verða öryggisvörður, með rúmar 4.000 krónur í mánaðarlaun.  Slíkt dugar ekki hér í landi til að halda heimili eða fæða fjölskyldu.

Á þessum tíma fékk ég tækifæri, á Sri Lanka, til að skrifa meistararitgerð mína þar sem ég notaði allan minn frítíma í verkið.  Það er minn persónulegi sigur eftir þessi tvö ár.  Vonbrigðin eru hinsvegar í golfinu enda virðist ég ekki ná þeim tökum sem ég vildi á þeirri göfugu íþrótt.  Sennilega er ég ekki nógu afslappaður ennþá en gæti staðið til bóta þegar hormónarnir minka og röddin verður örlítið mjóróma.  Þegar ég hugsa um sjálfan mig í golfi dettur mér alltaf Grettir Ásmundsson í hug að æfa ballett.

En það hefur verið erfitt fyrir fjölskyldumann eins og mig að vera svona mikið að heiman.  Nú verða um sjö mánuður liðnir síðan ég sá mitt fólk síðast, fyrir utan eiginkonuna í tvær vikur í mars.  Ég er svo lánsamur að eiga stóran vinahóp á Íslandi og með þeim er ýmislegt brallað.  Ég er nokkuð viss um að þau fyrirgefa ævintýramanninum flakkið og taka hann í sátt þegar hann skilar sér að lokum heim í heiðadalinn.


Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst