Ríkisábyrgðir á innlán

Ríkisábyrgðir á innlán Bloggara finnst umræða um ríkisábyrgðir á innlánum í banka vera komin í einkennilegan farveg, og farið að tala um slíkar ábyrgðir

Fréttir

Ríkisábyrgðir á innlán

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson
Bloggara finnst umræða um ríkisábyrgðir á innlánum í banka vera komin í einkennilegan farveg, og farið að tala um slíkar ábyrgðir eins og eitthvað náttúrulögmál.  Hugsunin er sú að bankar leggi til fjármagn í ábyrgðasjóð sem tryggi útgreiðslu innlána við greiðsluþrot einstakra banka.  Engin banki getur staðið við að greiða út innlán á skömmum tíma, þar sem innlán eru skammtímalán, en útlánin eru langtímalán.  Eðlilegt er að banki láni innlánin út u.þ.b. níu sinnum, en reyndar gerðu Íslensku bankarnir gott betur. Ríkið kemur hinsvegar inn með ábyrgðir til að draga úr óvissu og koma í veg fyrir áhlaup á banka af hagfræðilegum ástæðum.

Í kreppunni miklu í BNA í upphafi síðustu aldar voru bankar látnir fara á hausinn sem olli skelfingu meðal þjóðarinnar.  Fólk þyrptist í banka til að taka út sparifé sitt og þetta olli allsherjar hruni og skorti á peningamagni í umferð.  Peningar fóru nú undir koddann en voru ekki í vinnu fyrir hagkerfið.  Lærdómurinn sem dregin var af þessu er að réttlætanlegt væri, með þjóðarhagsmuni í huga, að ríkið tryggði þessi innlán og sköpuðu traust sem kæmi í veg fyrir bankaáhlaup.

Það var einmitt ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Íslands ákvað í október á síðasta ári að tryggja innlán allra innlánstofnana á Íslandi.  Ekki af góðmennsku við þjóðina, heldur kalt mat að þetta gæti komið í veg fyrir allsherjar hrun og þannig væri komin réttlæting fyrir ríkið að taka slíka áhættu.  Hinsvegar virðast íslensk stjórnvöld lítið hafa undirbúið sig fyrir áfallið, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um yfirvofandi fall bankanna frá upphafi ársins.  Ef aðgerðaráætlun hefði legið fyrir hefði verið ljóst að samkvæmt EES samningnum sé ekki hægt að mismuna íbúum efnahagsvæðisins eftir þjóðerni.  Það þýðir að ekki er hægt að tryggja innlán á reikningum á Íslandi, en ekki reikninga sömu banka í öðrum löndum EES.  Ef stjórnvöld hefðu gert sér grein fyrir stærðargráðunni, en áhættan átti að vera þeim ljós um að bankarnir stefndu í þrot, hefðu þau ef til vill brugðist öðruvísi við.  Ef til vill hefði verið hægt að tryggja lágmarksupphæðina yfir alla línuna, og síðan notið forgangs í þrotabú bankana til að ná því til baka.

Það sem hinsvegar virðist hafa gerst er að stjórnvöld tryggðu innstæður á Íslandi án takmarkana, en ætla síðan að standa við lágmarksupphæð á reikningum í Bretlandi og Hollandi.  Enn furðulegra er að hollensk og bresk stjórnvöld ákveða að tryggja inneignir umfram lágmarksupphæð í Icesave eftir á.  Þar eru menn komnir langt út markmið með ríkisábyrgð og hefur ekkert með þjóðarhagsmuni að gera heldur er um pólitískt sjónarspil að ræða.  Stjórnvöld í þessum ríkjum vildu sína þeim þegnum sínum, sem áttu fé á reikningum Icesave, að þau gættu sko þeirra hagsmuna.  En nú er búið að senda reikninginn til Íslands og skattgreiðendur á Íslandi eiga að borga atkvæðasmölunina.

Hinsvegar hafa öll viðbrögð Íslenskra stjórnvalda einkennst af fáti og fumi og lítið verið um fagleg og vönduð vinnubrögð.  Æðstu menn landsins virðast ekki geta sett sig í samband við kollega sína í Hollandi og Bretlandi til að útskýra málstað þjóðarinnar til að ná ásættanlegri niðurstöðu.  Miðað við fréttir úr þessari viku taldi utanríkisráðherra Þýskalands að forsætisráðherra Íslands væri karlmaður, en hann var þar að vitna í samskipti við Íslendinga varðandi umsókn til ESB.  Ætli Jóhanna Sigurðar hafi nokkurn tíman rætt við erlenda þjóðhöfðingja sem ráðherra undir fjögur augu?

En meira um umræðuna um ríkisábyrgðir.  Fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að ríkisábyrgð á innlánum bankana sé ekkert náttúrulögmál.  Það er alveg rétt hjá honum og mikilvægt að haldið sé til haga hvers vegna ríki ákveður að tryggja innlán.  Það er af hagfræðilegum ástæðum, en ekki til að bæta pólitíska stöðu ríkisstjórna.  Dæmi um slíkt pólitísk sjónarspil var ákvörðun ríkisins að greiða inn á peningamarkaðssjóði bankana um 280 milljarða króna síðastliðið haust, og hafa aldrei komið fram skýringar á þeirri ráðstöfun.  Það er hægt að finna til með fólki sem tekið hefur rangar ákvarðanir og leggur sparifé sitt inn á áhættusama sjóði fjárglæframanna, en það er hinsvegar ekki hlutverk skattgreiðanda að taka ábyrgð á slíkum mistökum, heldur þeirra sem ákvörðunina taka.


Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst