Sjálfstæðisflokkurinn í Sumarhúsum

Sjálfstæðisflokkurinn í Sumarhúsum Andstæðingar ESB beita fyrir sig þjóðerniskennd málstað sínum til framdráttar.  Það er ekkert skrítið við það þar

Fréttir

Sjálfstæðisflokkurinn í Sumarhúsum

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Andstæðingar ESB beita fyrir sig þjóðerniskennd málstað sínum til framdráttar.  Það er ekkert skrítið við það þar sem aðildarsamningur var tvisvar felldur í Noregi á þeim forsendum.  Nafn Jóns Sigursonar er meira að segja notað í umræðunni og þjóðin er vöruð við því að kasta sjálfstæði þjóðarinnar fyrir róða, og undirgangast ofríki Brussel í staðin.

Er þetta svo?  Er Danmörk og Svíþjóð ekki fullvalda sjálfstæð ríki?  Að halda öðru fram er fáránlegt og nota slíkt í mikilvægu hagsmunamáli þjóðarinnar er hið versta lýðskrum.  Sannleikurinn er sá að með EES samningnum hafa Íslendingar undirgengist yfir 80% af regluverki ESB, og vantar inn ákvæði um landbúnað og sjávarútveg.  Það hafa þeir reyndar gert án nokkurrar aðkomu að ákvörðunartöku um þessar reglur.  Eru Íslendingar þá ekki sjálfstæð þjóð í dag og EES samningurinn þá búinn að ræna þjóðina sjálfstæði sínu sem nú hefur undirgengist yfirþjóðlegt vald?  Eða snýst sjálfstæðið um sjávarútveg og landbúnað?  Þýskur stjórnlagadómsstóll komst að því á dögunum að þjóðir ESB deildu ekki með sér sjálfstæði heldur völdum. 

ESB er upphaflega frönsk hönnun og hugsuð til að koma á varanlegum friði í stríðshrjáðri Evrópu.  Hnýta hagsmuni þjóðanna saman á efnahagslegum forsendum þannig að ekkert ríki sjái sér hag í að fara með hernaði gegn öðru.  Í upphafi hét þetta Kola og stálbandalagið, en það þurfti einmitt stál og kol til að hervæðast þannig að skírskotun nafnsins er skýr.  Evrópusambandið er síðan stofnað á grunni Rómarsáttmálans þar sem tryggja átti eðlilega samkeppni milli þjóðanna, íbúum til hagsbóta, og fjórfrelsið var hornsteinninn í samvinnunni. 

Margir sáttmálar hafa verið gerðir síðan en skal einn sérstaklega nefndur hér til sögunnar, Lissabonsáttmálinn.  Í upphafi þegar hann var kynntur kölluðu menn hann stjórnarskrá ESB.  Sjálfsagt hafa það verið samþjöppunarsinnar með Frakka og Þjóðverja í broddi fylkingar, sem komu með nafngiftina, sem var ekki bara vitlaus heldur skapaði mikla andstöðu þeirra sem vildu völd Brussel minni, s.s. Breta.  Hér var ekki um eiginlega stjórnarskrá að ræða og hreyfði í engu við ríkjandi stjórnarkrám aðildarríkjanna, sem eru að mörgu leiti ólíkar.  Eftir stækkun sambandsins 2004, úr 15 í 25, þar sem stór hluti austur Evrópuríkja var tekin inn í sambandið, gerðu menn sér grein fyrir  að jafnhliða stækkun væri nauðsynlegt að straumlínulaga ákvörðunarferli sambandsins.  Hægt vari að taka fleiri ákvarðanir án þess að nota einróma samþykktir (NATO notar slíkar ákvarðanatökur) og hægt verði að taka fleiri með auknum meirihluta eða einföldum meirihluta.  Einnig stóð til að fækka framkvæmdastjórum og breyta samsetningu þingsins og setja hámark á fjölda þingmanna.

Allir sem kynnt hafa sér málefni sambandsins vita að þetta eru algerlega nauðsynlegar aðgerðir og reyndar voru nýju ríkin búinn að fallast á skipan mála fyrir inngöngu.  Það ótrúlega gerðist hinsvegar að ,,Stjórnarskránni" var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi, og ef bloggari man rétt, í Hollandi.  Aftur var sest að hönnunarborðinu og nú hét fyrirbærið Lissabonsáttmálinn.  En þá feldu Írar málið.

Erfitt veður fyrir ESB að taka fleiri ríki inn nema koma sáttmálanum í gegn, þar sem ákvarðanataka er einfaldlega orðin of flókin og erfið í dag.  Hugsanlega myndu menn þú kippa Íslandi inn vegna EES samningsins og hversu fámennt ríkið er.

Það viðskiptafrelsi sem Íslendingar búa við í dag kemur frá ESB í gegnum EES samninginn.  Fjórfrelsið gefur þeim möguleika á að flytjast til allra ríkja EES og fá sér þar vinnu.  Bannað er að setja hömlur á viðskipti milli ríkjanna og eru Íslendingar nú á undanþágu vegna gjaldeyrishafta.  Ekkert nema yfirþjóðlegt vald á þessu sviði tryggir að svo verði áfram.  Allir sem muna tímann fyrir 1994 geta séð fyrir sér framtíðina án EES samningsins og íslenskum stjórnmálamönnum einum og sér, er alls ekki treystandi til að tryggja þetta frelsi.

Ekki þarf annað en líta á íslenskan landbúnað til að sjá það.  Haftastefna íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum er sú versta í heimi.  Þó deilt sé á ESB og talað um kerfiskarlana í Brussel og pólitísk tök bænda í Evrópu á stjórnmálum, eru þessi mál í miklu betri farvegi þar en á Íslandi.  Fyrir liggur að verð á landbúnaðarvörum mun lækka umtalsvert við inngöngu Íslands, og lífsgæði íbúanna þannig batna með lægra verði á matarkörfunni.  Í gegnum tíðin hafa Íslendinga fengið að heyra að nú eigi að taka á þessum málum og markaðsvæða landbúnaðinn.  En það eru því miður allt saman sjónhverfingar.  Að vísu hafa samningar World Trait Organization (GATT) eitthvað verið að stríða íslenskum stjórnmálamönnum, en þá er reynt að finna leiðir fram hjá kerfinu, með hagsmuni bænda gegn neytendum, í huga.  Nú er það ekki svo að bændur á Íslandi ríði feitri meri frá þessu öllu, en það er einmitt vandinn við höft og ófrelsi að menn uppskera sóun og allir þjást og engin ber neitt úr býtum.

En þá er sjávarútvegurinn eftir og um það snýst málið.  Grundvallar krafa Íslendinga er að; ná samningum um sjávarútvegsmál sem tryggja sjálfbærni veiða og að sjávarútvegur verði rekin á viðskipalegum grunni í framtíðinni ásamt því að tryggja að fiskveiðiarður sem þannig verður til skili sér til þjóðarinnar.  Hvort ákvörðun um t.d. veiðimagn er formlega tekin í Reykjavík eða Brussel, skiptir engu máli.  Það sem skiptir máli er á hverju ákvörðunin byggir.  Nái Íslendingar ekki þessum markmiðum í aðildarsamningum mun þjóðin fella hann.  Það er sannfæring bloggara.  En á það þarf að láta reyna þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru gríðarlegir.

Bjartur í Sumarhúsum fórnaði fjölskyldu sinni fyrir ,,sjálfstæðið" og féð.  Rollan var honum meira virði en börnin, enda hafði hann varla undan við að bera þau í kirkjugarðinn.  Sjálfstæðismenn þurfa að komast út úr slíkri sjálfheldu og gefa sig í umræðuna.  Horfa raunhæft á málið og láta skynsemina ráða en ekki rómantíska þjóðerniskennd þar sem Íslendingnum er stillt upp sem hinum einstaka manni.  Það var einmitt það viðhorf sem er að koma þjóðinni í koll þessa dagana.  Hrokinn og sjálfumgleðin sem þjóðin hefur tamið sér undanfarið hefur ýtt mestu vinarþjóðum hennar í burtu sem horfa nú á aðgerðalaus meðan Íslendingar sökkva í nákalt norður Atlantshafið.  Þessi gríðarlega mikilvægi samningur sem þjóðin gengur nú til má ekki vera án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.  En til þess verða sjálfstæðismenn að taka upp alvöru ESB umræðu með hagsmuni þjóðarinnar í huga.


Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst