Skarpur jaðar kuldaskila
Það sem vekur hins vegar mesta athygli mína nú á þessum drungalega rigningardegi er skarpur jaðar kuldaskilanna í vestri. Þar sem skýjabakkinn er hvað þykkastur, þ.e. yfir landinu er sterk sunnan háloftavindröst. Vestan hennar þrengir kalt loft úr vestri sér undir jaðarinn og á þátt í því að lægðin vex og dýpkar. Myndin er NOAA-hitamynd frá því um kl. 15:30.
Allt er kerfið á norðausturleið og þegar skarpur jaðarinn fer yfir kólnar. Það styttir ekki aðeins upp heldur léttir til strax í kjölfarið. Þá er mjög hætt við því að blautar göturnar frjósi og fljúgandi hált verði. Vestast á landinu gerist þetta í kvöld svona u.þ.þ. eftir kl. 20. Þegar eitthvað þessu líkt gerist sér maður oft að skömmu áður en skilin fara hjá kólnar heldur og síðustu hreyturnar er blaut snjókomaofan í bleytuna. Þegar þetta er skrifað laust fyrir kl. 18 er nú þegar farið að snjóa á fjallvegum víða vestantil, m.a. á Hellisheiði og sums staðar reyndar snjóað meira og minna í dag !
Fyrir þá sem hafa gaman af snöggum veðrabrigðumverður áhugavert að gægjast út og fylgjast með seinna í kvöld. Veðurkortið er skýjaspá af Brunni Veðurstofunnar og gildir kl. 21 í kvöld.
Athugasemdir