Svartasta skammdegið
Í vikulegu veðurspjalli á Rás 2 í morgun viðraði ég skoðanir mínar á svartasta skammdeginu hvenær það hæfist og hvenær ársins mætti segja að því tímabili væri lokið. Stakk ég upp á því að miðað væri við 10.nóvember. Þá eru ríflega 40 dagar í vetrarsólhvörf. Um eða rétt upp úr mánaðarmótum janúar til febrúar er þá jafnlangt frá sólhvörfum í hinn endann. Í tilefni af þessum vangaveltum sendi Þorkell Guðbrandsson á Sauðárkróki neðangreinda hugleiðingu og skilgreining Þorsteins Sæmundssonar Almanaksritstjóra tekur mið af skilgreindri sólarhæð og er hún alveg hreint prýðileg.
"Er að hlusta á þig á Rás2 og þar kemur þú með skilgreiningu á „svartasta skammdeginu“. Það er, eins og þú tekur réttilega fram, ekki til nein viðtekin skilgreining á þessu hugtaki, við hvað skuli miðað o.s.frv. Maður tekur eftir því að sumt nútímafólk kallar skammdegi frá því í byrjun október fram í mars. Gef reyndar lítið fyrir það. Margir eru búnir að velta þessu fyrir sér, bæði fyrr og nú. Fyrir nokkrum árum áttum við spjall um þetta, undirritaður og dr. Þorsteinn Sæmundsson, stjarnfræðingur. Dr. Þorsteinn hafði skoðað þetta mál talsvert og m.a. hafði hann að mér skildist (vona að ég hafi ekki misskilið það) skoðað hjá þjóðhátta- og sagnfræðingum hvort í fornum fræðum íslenskum væri eitthvað bitastætt að finna um þetta. Út úr því kom ekkert sérstakt, nema að skilgreiningin hefði verið eitthvað mismunandi eftir landshlutum og er það trúlega mjög eðlilegt miðað við að landið nær því sem næst yfir fjórar breiddargráður. Dr. Þorsteinn var á því að það gæti verið skynsamleg regla að miða við hvenær sól hætti að fara 6° yfir sjónbaug í hádegisstað í Reykjavík, en það er því sem næst frá 22/11 til 25/1 . Hér á Norðurlandi yrði þetta tímabil nokkru lengra ef þessi 6° regla væri notuð.
Datt í hug að koma þessu á framfæri til gamans.
Kv. Þorkell Guðbrands"
Athugasemdir