Svartur dagur
http://bjoval.hexia.net | Rebel | 09.01.2009 | 08:24 | Robert | Lestrar 236 | Athugasemdir ( )
Gærdagurinn var einn svartasti dagur í sögu íslenska
velferðarkerfisins, þegar ríkisstjórn samfylkingar og sjálfstæðisflokks tilkynnti um gífurlegan niðurskurð og endurskipulagningu
heilbrigðiskerfisins sem mun leiða til verri þjónustu en við höfum þekkt hér á landi um langa hríð. Í einni
ákvörðun var heilsugæsla á landsbyggðinni nánast þurrkuð út, sjúkrastofnanir lagðar niður og stóraukin gjaldtaka
lögð á þá sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Frjálshyggjufólkið í sjálfstæðisflokknum er
komið í draumalandið sitt þar sem það getur með brosi á vör og með stuðningi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins molað
félags- og heilbrigðiskerfið niður. Það sem verst er að ríkisstjórnin stendur öll að baki þessum árásum, samfylkingin ekki síður en
sjálfstæðisflokkurinn.
Það þýðir ekkert fyrir formann samfylkingarinnar að
benda stöðugt á hinn stjórnarflokkinn og kenna honum um allt. Það er bara ein ríkisstjórn í landinu og á henni bera
stjórnarflokkarnir tveir jafna ábyrgð. Upp úr þessu spái ég því að fari að kvarnast meira úr samfylkingunni en hingað til
hefur orðið. Sannir jafnaðarmenn láta ekki valta yfir skoðanir sínar og lífsviðhorf með þeim hætti sem nú er gert af hálfu
stjórnarinnar. Þetta virðist formaður samfylkingarinnar ekki skynja og lýsir áfram yfir stuðningi við allt ráðherralið
ríkisstjórnarinnar og skiptir þá engu hvort þeir hafi orðið uppvísir af afglöpum og lögbrotum í starfi.
Athugasemdir