Þorskstofninn í Barentshafi blómstrar
Hrygningarstofn þorsks hefur heldur betur tekið við sér, fyrir 10 árum var hann álitinn vera um 300 þús. tonn en fiskifræðingar segja hann nú vera um 1 milljón tonna. Athugið að hér er verið að tala um hrygningarstofn ekki veiðistofn, hann er mun stærri. Í Barentshafinu hefur ekki verið svo stór hrygningarstofn þorsks frá því skömmu eftir seinna stríð !
Hærri sjávarhiti hefur leitt til aukningar í frumframleiðslunni sem hefur komið þorski, ýsu, ufsa og síld sérlega vel í Barentshafinu.
Hér við Íslandsmið hefur ýsustofninn notið góðs af markvert hærri sjávarhita frá 1996 og sama má segja um ufsa. Þorskstofninn nær hins vegar lítt að braggastog nýliðun flest árin verið léleg. Er þar annað uppi á teningnum var hér þegar sjórinn tók að hlýna hér á árunum eftir 1920, en þá stækkaði þorskstofninn hröðum skrefum og risaárgangar klöktust út. Æti virtist um allan sjó á sama tíma og þorskurinn virtist þrífast vel. Hafa ber í huga að á þessum tíma var ekki veidd loðna, heldur ekki rækja í neinum mæli og Norðmönnum hafði næstum því tekist að útrýma stórhvelastofnum á Íslandsmiðum þegar veiðar voru bannaðar 1915.
Þrátt fyrir það stingur það mjög í augu og þarfnast haldbærra skýringa, hvers vegna þorskstofninn hér við land skuli ekki nú njóta góðs af batnandi árferði á sama hátt og stofninn í Barentshafi ?Vart er hægt að kenna veiðiálagi um en veiðin hefur verið hófleg síðustu árin miðað við stofnmat. Sumir hafa bent á að aldurssamsetning stofnsins sé óhagstæð fyrir vel heppnaða hrygningu. Það má vel vera, en þá spyr maður sig jafnframt að því hvernig í ósköpunum gat það gerst að hrygningarstofninn í Barentshafi sem var orðinn heldur smár náði að vaxa um 300% á einum áratug ? Og getur það sama gerst hér ?
Athugasemdir